7. desember
Nú á ég möguleika
Í glugga dagsins hittum við Önnu. Anna kom í barnaþorpið í Lekenik í Króatíu þegar hún var 9 ára. Í dag er hún orðin 26 ára og löngu flutt úr barnaþorpinu. Hún er farin að standa á eigin fótum og lifir góðu lífi sem hún þakkar uppeldi sínu í barnaþorpinu. „Ef ég hefði ekki komið í [barnaþorpið] væri ég ekki sú sem ég er í dag. Hugsanlega hefði ég aldrei lokið grunnskóla. Þannig var það. En hér fær maður uppeldi og fullvissu um eigið ágæti“, segir Anna. „Þó maður komi úr slæmum aðstæðum fylgir það manni ekki alla tíð. Hér er allt gert til að veita manni allar nauðsynjar“.
Anna er elst fimm systkina sem ólust upp í SOS Barnaþorpi í Lekenik vegna vanrækslu sem þau bjuggu við heima fyrir. Í dag geislar Anna af sjálfstrausti og þann eiginleika þakkar hún SOS mömmu sinni Marciu sem veitti henni alltaf stuðning og hvatningu. SOS mamma hennar hvatti Önnu til að elta drauma sína og það hefur hún svo sannarlega gert. Hún stundaði háskólanám í heimaborg sinni Zagreb og fór í skiptinám til Parísar. Hún fór svo fyrir tilviljun að æfa ástralskan fótbolta sem hún heillaðist af og spilaði meira að segja með króatíska kvennalandsliðinu á Evrópumótum. Hæfileikar Önnu í íþróttinni leiddu hana til sjálfrar Ástralíu þar sem hún sótti framhaldsnám og elti draum sinn um atvinnumennsku í áströlskum fótbolta.
Í myndbrotinu má sjá Evu Ruzu, velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna, ræða við Önnu þegar Eva, ásamt systrum sínum Tinnu og Debbý, heimsóttu barnaþorpið í Lekenik í Króatíu þegar þorpið fagnaði 30 ára afmæli.