Erfðagjöf

Erfðagjafir til SOS Barnaþorpanna

Erfðagjafir hafa gert samtökunum kleift að hjálpa mun fleiri munaðarlausum og yfirgefnum börnum en ella. Slík gjöf getur haft gríðarlegan ávinning fyrir börnin sem njóta góðs af og sá sem gefur gjöfina tekur sjálfur ákvörðun um ráðstöfun eigna sinna í stað þess að eftirláta öðrum þá ákvörðun.

Viljir þú fá sendan bækling í pósti með öllum helstu upplýsingum um fyrirkomulag erfðagjafa er þér velkomið að hringja á skrifstofu okkar í síma 5642910 eða senda tölvupóst á sos@sos.is og biðja okkur um að senda þér hann. Annars má líka nálgast allar upplýsingar hér.

Sá sem eftirlætur SOS Barnaþorpunum gjöf í erfðaskrá sinni getur gert það án þess að upplýsa samtökin en einnig getur hann haft samband við samtökin og jafnvel haft samráð um það í hvað gjöfin verður notuð

Erfðagjafir til SOS Barnaþorpanna eru undanþegnar erfðafjárskatti.

Hér á síðunni finnur þú frásagnir af fólki sem hefur gefið SOS Barnaþorpunum gjöf í erfðaskrá sinni. Einnig eru hér upplýsingar um það hvað helst þarf að hafa í huga þegar slík ákvörðun er tekin.

Fréttir um erfðagjafir

Áður en þú ákveður að arfleiða SOS Barnaþorpin

Með því að gera erfðaskrá og arfleiða samtök eins og SOS Barnaþorpin ert þú í raun að taka sjálf/ur þá ákvörðun hvernig eignir þínar nýtast eftir þinn dag. 

Einstaklingur getur arfleitt SOS Barnaþorpin að hluta eða öllum eignum sínum sem geta þannig haft mikil áhrif til framtíðar eins og dæmin sýna.

Einstaklingi er heimilt, skv. núgildandi lögum, að ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá þegar skylduerfingjar[1] eru til staðar.

Séu skylduerfingjar ekki til staðar getur maður ráðstafað öllum eigum sínum að eigin ósk með því að tilgreina þann vilja sinn í erfðaskrá. Geri sá sem ekki á skylduerfingja ekki erfðaskrá renna eignir hans til lögerfingja[2]. Eigi hann hvorki skylduerfingja né lögerfingja á lífi renna eignir hans til ríkissjóðs.

Sumar erfðaskrár eru einfaldar en aðrar geta verið flóknar. Það fer t.d. eftir fjölskylduaðstæðum og/eða hvernig viðkomandi vill ráðstafa eignum sínum eftir sinn dag. Öruggast er að leita til lögmanns eða annars fagaðila þegar gera á erfðaskrá.

Gott er að geyma erfðaskrá á öruggum stað, t.d. í bankahólfi eða hjá einhverjum sem arfleifandi ber fullt traust til. Einnig er hægt að undirrita hana og skrá hana hjá sýslumanni.

Erfðaskráin skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Hún þarf að vera dagsett og skýrt orðuð svo vilji arfleifanda[3] sé öllum ljós.
  • Hún þarf að vera vottuð af tveimur vottum.

Hægt er að breyta eða afturkalla erfðaskrá hvenær sem svo lengi sem arfleifandi hafi til þess andlega heilsu.

Þér er velkomið að hafa samband við SOS Barnaþorpin og fá frekari upplýsingar um erfðagjafir og hvernig samtökin geta nýtt slíkar gjafir í hjálparstarfi sínu.

Um SOS Barnaþorpin

SOS Barnaþorpin hafa hjálpað munaðarlausum og yfirgefnum börnum í um 70 ár með góðum árangri.

Rekstarkostnaði samtakanna er haldið í lágmarki og er hlutfall gjafafjár sem sent er út til að hjálpa börnum í neyð hærra en gengur og gerist.

  • Undanfarin ár hafa engin alþjóðleg barnahjálparsamtök á Íslandi sent meira fé í málaflokkinn til fátækari ríkja heims en SOS Barnaþorpin og skýrist það m.a. af lágum umsýslukostnaði.
  • Samtökin starfa í yfir 130 löndum og getur arfleifandinn ákveðið til hvaða lands gjöfin skal renna.
  • Tugþúsundir Íslendinga hafa styrkt SOS Barnaþorpin með framlagi til ákveðins barns eða þorps. Margir hafa því tengingu við ákveðinn stað og myndu gjarnan vilja hjálpa þar eftir sinn dag.
  • Fjármál SOS Barnaþorpanna hafa ávallt verið gegnsæ og birta samtökin t.a.m. ársreikninga sína á netinu, en ekki aðeins lykiltölur.

[1] Skylduerfingjar eru maki og börn hins látna.
[2] Lögerfingjar eru skylduerfingjar en þegar hinn látni lætur ekki eftir sig maka eða börn eru það önnur skyldmenni.
[3] Arfleifandi er sá sem lætur eftir sig eignir sem erfast eftir andlát hans.

Hafa SOS Barnaþorpin á Íslandi fengið erfðagjafir?

Já, samtökin hafa fengið tvær íbúðir auk nokkurra annarra gjafa.

Hversu mikið get ég arfleitt SOS Barnaþorpin?

Því ræður þú, innan þess lagaramma sem við búum við. Það gæti verið ákveðin upphæð eða ákveðin eign. Einnig er hægt að tilgreina ákveðið hlutfall af heildareignum.

Í hvað fer erfðagjöfin?

SOS Barnaþorpin munu ráðstafa gjöfinni í þau málefni sem samtökin berjast fyrir, þ.e. velferð munaðarlausra og yfirgefinna barna ásamt þeirra barna sem eiga á hættu að missa foreldraumsjá. Þér er velkomið að setja þig í samband við samtökin til að ræða hvar þörfin er helst.

Hvað með börnin mín og maka?

Ef þú átt maka og/eða börn á lífi (skylduerfingja) geturðu aðeins ráðstafað þriðjungi eigna þinna til annarra. Margir vilja að skylduerfingjarnir fái allt en sumir vilja ráðstafa hluta af eignum sínum til annarra. Mikilvægast er að vilja hvers og eins sé framfylgt og það er best tryggt með erfðaskrá.

Þarf ég að gera erfðaskrá?

Já, sá sem vill hafa eitthvað um það að segja hvað verður um eignir hans eftir hans dag þarf að gera löglega erfðaskrá.

Ég á hvorki maka né afkomendur, hvað þá?

Ef arfleifandi á hvorki maka né afkomendur getur viðkomandi ráðstafað öllum eigum sínum að eigin vild með erfðaskrá. Geri hann það ekki renna eignir hans til annarra ættingja, eins og foreldra, systkina, systkinabarna, systkina foreldra o.s.frv.

Ég á enga lögerfingja, hvað þá?

Ef þú átt ekki maka, afkomendur eða aðra ættingja á lífi getur þú ráðstafað öllum eigum þínum að eigin vild með því að gera erfðaskrá. Gerir þú ekki erfðaskrá renna eignir þínar í ríkissjóð.

Hvernig geri ég erfðaskrá?

Við ráðleggjum þér að ræða við lögmann eða annan fagaðila sem getur leiðbeint þér við gerð erfðaskrár. Viljir þú hafa SOS Barnaþorpin í þinni erfðaskrá mælum við með eftirtöldum lögfræðingum:

Claudia Ashanie Wilson
claudie@rettur.is
Sími 547-2009

Elín Sigrún Jónsdóttir
elin@buumvel.is 
sími 783-8600

Mikilvægt er að erfðaskrá sé dagsett og undirrituð af tveimur vottum. Þá er mikilvægt að hún sé skýrt orðuð svo vilji þinn sé skýr og krefjist ekki túlkunar erfingja þinna eða fagaðila.

Þá ráðleggjum við fólki að undirrita erfðaskrá sína og skrá hana hjá sýslumanni til að tryggja að hún verði tekin til greina eftir andlát viðkomandi.

Hvað fer stór hluti í erfðafjárskatt?

SOS Barnaþorpin þurfa ekki að greiða skatt af erfðagjöfum og geta því ráðstafað 100% af gjöfinni í þágu barna.

Mig langar að vita meira. Hvert leita ég?

Starfsfólk SOS Barnaþorpanna er tilbúið að svara spurningum um samtökin og erfðagjafir. Þú getur sent okkur fyrirspurn á sos@sos.is eða hringt í síma 564 2910.