Svona hjálpum við

Barnaþorp

Í SOS Barnaþorpum fá munaðarlaus og yfirgefin börn staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst. SOS mæður eða -feður gegna þar lykilhlutverki. Undanfarin ár hefur umönnun barna færst í auknum mæli út úr barnaþorpum og inn í hefðbundin íbúðahverfi eða yfir á heimili fósturforeldra.

Börnin eignast heimili í SOS barnaþorpi, fósturheimilum eða í annarskonar umönnun þar sem þau alast upp hjá foreldrum, ýmist kynforeldrum sínum, SOS-foreldrum eða fósturforeldrum. Þar búa þau þar þangað til þau eru orðin fullorðin og tilbúin til að takast á við lífið. Heimilin á vegum SOS eru laus við allan stofnanabrag – hvert heimili er athvarf einnar fjölskyldu, rétt eins og flest öll mannleg samfélög vilja hafa hlutina!

Í hverri SOS fjölskyldu í barnaþorpi eru oftast sex til tíu börn á mismunandi aldri og af báðum kynjum. Öll börnin okkar eiga því nokkur systkini. Höfuð fjölskyldunnar er SOS foreldrið sem hefur hlotið menntun í að sinna börnum sem mörg hver hafa upplifað miklar hörmungar og sér um að börnin búi við öryggi og ást. Enn sem komið er eru SOS mæður í meirihluta en SOS feðrum er sífellt að fjölga.

Gerast SOS-foreldri

Fjölskylduefling

SOS Barnaþorpin líta svo á að fjölskyldan sé mikilvægust og best sé fyrir börn að alast upp með kynforeldrum sínum og systkinum.

Því miður eru aðstæður fjölmargra fjölskyldna þó slíkar að þau neyðast til að láta frá sér börnin, yfirvöld taka þau og koma fyrir á stofnunum eða börnin sjálf flýja heimilisaðstæður og sjá sjálf fyrir sér á götunni, jafnvel með betli og vændi.

Fjölskylduefling SOS er svar SOS Barnaþorpanna við slíkri neyð fjölskyldna. Fjölskyldueflingunni er haldið uppi af Fjölskylduvinum SOS Barnaþorpanna.

Markmið Fjölskyldueflingar SOS er að forða börnum frá aðskilnaði við illa stadda foreldra sína - og hjálpa foreldrunum að mæta þörfum barnanna.

Fjölskyldueflingin er sá þáttur í starfi SOS Barnaþorpanna sem hraðast vex.

Hundruð þúsunda barna og fjölskyldur þeirra fá aðstoð í formi menntunar, heilsugæslu, ráðgjafar, barnagæslu og annarra þátta sem hjálpa þeim að yfirstíga erfiðleika og lifa betra lífi – sem fjölskylda.

Allt til þess að börnin fái alist upp undir verndarvæng eigin foreldra.

Gerast fjölskylduvinur

Neyðar-, þróunar- og mannúðaraðstoð

SOS Barnaþorpin eru ekki neyðarhjálparsamtök en undanfarin ár hafa ítrekað orðið náttúruhamfarir nálægt starfsstöðvum SOS, enda útbreiðsla samtakanna mjög mikil. Með áratuga reynslu á bakinu, framúrskarandi starfsfólk og öfluga stuðningsaðila kemur því ekki annað til greina en að veita bágstöddu fólki neyðaraðstoð í slíkum tilvikum. Leggja þá samtökin mesta áherslu á að hjálpa þeim börnum sem misst hafa foreldra sína eða týnt í hamförunum og þau börn sem eiga slíkan aðskilnað á hættu.

SOS Barnaþorpin nýta þá þekkingu og reynslu sem þau hafa í hverju landi þegar veita þarf neyðaraðstoð. Samvinna við yfirvöld og önnur hjálparsamtök eins og Rauða krossinn, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur einnig reynst vel og leitt til skilvirkari aðgerða.

SOS Barnaþorpin standa líka að þróunar- og mannúðaraðstoð. Dæmi um slík verkefni sem SOS á Íslandi fjármagnar eru verkefni gegn kynferðislegri misneytingu á börnum í Tógó og atvinnuefling ungs fólks í Sómalíu og Sómalílandi.

Gefa stakt framlag

Leikskólar

Venjulega sækja börn frá SOS Barnaþorpunum nærliggjandi leikskóla. Í löndum og á svæðum þar sem leikskólar eru ekki fyrir hendi eða eru metnir ófullnægjandi hafa SOS Barnaþorpin hins vegar byggt sína eigin leikskóla. Þessir leikskólar eru opnir börnum frá SOS þorpunum sem og öðrum börnum úr nágrenni þorpanna.

Kennsluaðferðir SOS leikskólanna eru í anda uppeldisstefnu Friedrichs Fröbel og Mariu Montessori. Þó er alltaf tekið tillit til gildandi viðmiða og menningar hvers lands.

Áhersla er lögð á að barnið fái að nota meðfædda hæfileika sína til sköpunar og hvert barn fær að þroskast á þeim hraða sem því hentar.

Rík áhersla er lögð á hæft starfsfólk til að tryggja börnunum þá bestu umönnun sem völ er á. Umsækjendur eru boðaðir í viðtal og þurfa að gangast undir hæfnispróf og byggist val á starfsmönnum á niðurstöðu prófs og viðtals.

Grunnskólar

Það eru ekki forréttindi fyrir börn að hafa aðengi að menntun, heldur mannréttindi. Sé góður skóli ekki til staðar þar sem barnaþorp er reist reisum við grunnskóla fyrir börnin í þorpinu og nágrenninu.

SOS grunnskólarnir eru viðurkenndir af yfirvöldum hvers lands og fara eftir þeirri námsskrá sem í gildi er á hverjum stað. Aldrei eru fleiri en 40 nemendur í bekk og njóta þeir kennslu góðra kennara sem nær allir eru heimamenn.

Ef ekki er SOS grunnskóli í barnaþorpinu sækja börnin hverfisskólann ásamt börnunum í nágrenninu. Búið er að byggja um 200 SOS grunnskóla víða um heiminn.

Ungmennaheimili

Á unglingsárunum undirbúum við okkur fyrir fullorðinsárin. Þá flytja SOS börnin gjarnan yfir á sérstök ungmennaheimili þar sem unglingarnir læra með aðstoð unglingaráðgjafa að reka sitt eigið heimili.

Auk þess að sinna heimilisstörfum er unga fólkið í námi. Þegar skyldunámi lýkur tekur við framhaldsnám eða starfsnám.

Á ungmennaheimilinu lærir unglingurinn að þróa með sér raunhæfar væntingar og hugmyndir um eigin framtíð, axla ábyrgð og taka sífellt stærri sjálfstæðar ákvarðanir.

Ungmennin eru hvött til að efla samskipti sín við vini og ættingja auk þess sem þau eru í góðu sambandi við SOS foreldra sína sem sjaldnast eru langt undan.

Verknámsskólar

SOS verknámsskólarnir eru mikilvægar einingar í því starfi sem unnið er með unglingum. Verknámsskólarnir veita unglingum frá SOS Barnaþorpunum auk annarra ungmenna úr nágrenninu raunhæfa möguleika á starfi þegar námi lýkur og stuðla þannig að sjálfstæði þeirra.

Oft eru skólarnir staðsettir þar sem atvinnuleysi er hátt og erfitt fyrir ungmenni að fá góða vinnu. Prófskírteini frá SOS verknámsskóla er því gulls ígildi fyrir ungt fólk í atvinnuleit.

Námið miðast við það samfélag sem ungmennin alast upp í. Tekið er tillit til þess atvinnuvegar sem er ríkjandi á hverjum stað svo ungmennin eigi raunhæfari möguleika á starfi að útskrift lokinni.

Til að mynda er boðið upp á nám í bifvélavirkjun, járnsmíði, trésmíði, prentsmíði, pípulögnum, rafeindafræði, leirkeragerð og fatahönnun.

Heilsugæslustöðvar

Fram til þessa hafa SOS Barnaþorpin sett upp tugi heilsugæslustöðva utan Evrópu í þeim tilgangi að hjálpa því fólki sem hefur lítinn eða engan aðgang að heilsugæslu. Markmið SOS heilsugæslustöðvanna er að auka gæði heilsugæslunnar á hverju svæði, vinna að forvörnum með bólusetningum og fræðslu, draga úr ungbarnadauða, fæða vannærð börn og veita skyndihjálp.

Stöðvarnar eru opnar alla daga vikunnar og sumar þeirra eru með rannsóknarstofur, sjúkragang og lyfjaverslun. Starfsfólk er allt hæft á sínu sviði; hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sérfræðingar á rannsóknarstofu og læknar. Í langflestum tilvikum er um heimafólk að ræða.

Heilsugæslustöðvarnar sinna einnig forvörnum og fræðslu, t.d. um alnæmi.