Um SOS Barnaþorpin

SOS Barnaþorpin eru fyrst og fremst barnahjálp sem veitir munaðarlausum og yfirgefnum börnum staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst. SOS Children´s Villages eru stærstu óháðu hjálparsamtök heims sem einblína á börn án foreldraumsjár og ósjálfbjarga barnafjölskyldur.

Samtökin starfa í 136 löndum og landsvæðum, óháð stjórnmálum og trúarbrögðum. Aðaláhersla samtakanna er að börn þrífist best í fjölskylduumhverfi við ást og umhyggju foreldra eða umsjónarfólks, ásamt systkinum sínum á stað sem þau geta kallað heimili.

SOS Barnaþorpin vinna í nánu samstarfi við samfélög, samstarfsaðila og yfirvöld á hverju svæði fyrir sig í þeim tilgangi að styðja ósjálfbjarga barnafjölskyldur og koma í veg fyrir aðskilnað innan þeirra. Þegar nauðsynlegt þykir og talið er vera í hag barnsins er gripið til næstu möguleika sem eru að barnið alist annað hvort upp hjá fósturfjölskyldu eða SOS-fjölskyldu í barnaþorpi.

Umfang starfseminnar

SOS Barnaþorpin hafa beina umsjá með um 69.000 börnum og ungmennum allan sólarhringinn. Undanfarin ár hefur starfsemi samtakanna tekið breytingum og aðlagast aðstæðum í hverju landi. Umönnun barnanna er ekki aðeins í barnaþorpum eins og þekkst hefur í starfsemi SOS í yfir sjö áratugi. Börn alast nú líka upp í fjölskylduumhverfi sem fellur undir ýmsar fleiri starfseiningar innan SOS svo sem hjá fósturforeldrum og tímabundinni umönnun.

SOS Barnaþorpin starfrækja einnig fjölskyldueflingu sem nær til barna, ungmenna og foreldra þeirra. Fjölskylduefling SOS er forvarnarstarf sem gengur út á að aðstoða barnafjölskyldur í sárafátækt til að standa á eigin fótum. Fjölskylduefling gerir foreldrunum kleift að mæta grunnþörfum barnanna og kemur í veg fyrir aðskilnað barna við foreldra sína.

Menntun

Frá stofnun SOS Barnaþorpanna árið 1949 hafa samtökin komið upp öflugu menntakerfi og öllum börnum á framfæri samtakanna er tryggð menntun. Samtökin hafa ýmist sjálf byggt skóla eða taka þátt í rekstri skóla á vegum yfirvalda í nærumhverfi barnaþorpanna.

Samtökin reka fjölda leikskóla, grunnskóla og verknámsskóla ásamt því að sinna frumkvöðlakennslu, ungmennaheimilum og heilsugæslustöðvum. Þá starfrækja samtökin auk þess að sinna ýmis umbótaverkefni og neyðar- og mannúðaraðstoð. Allt í þágu barna.

Árið 2023 náði starf SOS Barnaþorpanna til nærri þriggja milljóna barna, ungmenna og fullorðinna.

(Uppfært 19. apríl 2024)

Starfseiningar Fjöldi Börn og ungmenni
SOS barnaþorp 544 35.200
Önnur umönnun 297 13.900
Sjálfstæð búseta undir eftirliti 484 19.900
Samtals 1.325 69.000
     
Menntun Fjöldi Nemendur
Leikskólar 218 30.300
Skólar á barna- og unglingastigi 187 174.400
Verkmenntaskólar 170 34.200
     
Heilbrigðisþjónusta Starfseiningar Einstaklingar
Þjónustustöðvar 60 122.900
Fæðingarheimili í Sómalíu 1 531.700
Samtals 61 654.600
     
  Fjöldi verkefna Einstaklingar
Mannúðaraðstoð 93 1.385.800
SOS fjölskylduefling 676 541.500
Samfélagsefling 32 8.300
Önnur verkefni 80 95.500
     
Samtals árið 2023   2.993.600

Alls 103,500 fjölskyldur nutu góðs af fjölskyldueflingu SOS á árinu.

...

Fjölskylduefling SOS

Auk þess að reka barnaþorp og sjá börnum fyrir öðrum umönnunarúrræðum standa SOS Barnaþorpin fyrir umfangsmiklu forvarnarstarfi sem kallast Fjölskylduefling SOS. Skjólstæðingar Fjölskyldueflingar eru illa staddar barnafjölskyldur og er þeim hjálpað að koma undir sig fótunum og mæta grunnþörfum barnanna. Markmiðið er að börnunum líði vel og koma í veg fyrir aðskilnað þeirra og foreldranna.

Heimsmarkmiðin

SOS Barnaþorpin vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Um er að ræða framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar en með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um heim allan.

Ljóst er að útrýming fátæktar í öllum sínum myndum og umfangi, að meðtalinni sárafátækt, er stærsta verkefnið á heimsvísu og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir sjálfbærri þróun. Markmið sjálfbærrar þróunar eru alls 17 og þar að auki 169 undirmarkmið. Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim.

Í gegnum margþætt starf á heimsvísu stuðla SOS Barnþorpin að framgangi átta Heimsmarkmiða SÞ (1,3,4,5,8,10,16 og 17). Þar af eru fimm Heimsmarkmið miðlæg í starfi samtakanna, þ.e. markmið um enga fátækt, menntun fyrir alla, góða atvinnu, aukinn jöfnuð og frið og réttlæti.

Upphaf SOS Barnaþorpanna

Einu sinni var ungur drengur í austurrísku Ölpunum. Hann hét Hermann Gmeiner. Móðir hans var látin og elsta systir hans gekk honum í móðurstað. Hermanni gekk vel í skóla og ákvað að hefja nám í læknisfræði. En svo skall síðari heimsstyrjöldin á.

Hermann fór í herinn og var sendur til Rússlands. Þar kynntist hann hörmungum stríðsins og við stríðslok blasti við
mikill fjöldi munaðarlausra barna. Neyð þeirra fór ekki framhjá Hermanni.

Hann átti sér þann draum að gera eitthvað varanlegt fyrir þessi börn. Sjálfur var hann staurblankur en með aðstoð góðra manna sem höfðu trú á hugmyndum hans stofnaði hann samtökin SOS Barnaþorpin árið 1949 og sama ár hófust framkvæmdir við fyrsta SOS Barnaþorpið í Imst í Austurríki.

Fjöldi fólks var tilbúið að gefa 1 skilding á mánuði svo draumurinn um móður og góð heimili fyrir umkomulaus börn gæti orðið að veruleika.

Hermann lagði mikla áherslu á móðurina. Hann hafði jú sjálfur misst móður sína ungur að árum og vissi hve mikilvæg móðirin er í uppvexti barna.

Í dag eiga 69.200 umkomulaus börn og ungmenni SOS foreldra, systkini og gott heimili í 533 SOS barnaþorpum um allan heim og í annarri umönnun. Auk þeirra njóta um tvær og hálf milljón manns annars stuðnings SOS.

„Barn dettur úr hreiðri sínu. Við sjáum því fyrir móður, systkinum og heimili. Gæti ekki verið einfaldara.“ – Hermann Gmeiner stofnandi SOS Barnaþorpanna.

SOS Barnaþorpin á Íslandi frá 1989

Ulla Magnússon var fyrsti formaður og starfsmaður samtakanna á Íslandi og var starfandi stjórnarformaður allt þar til í apríl 2016, skömmu fyrir andlát hennar.

Undir lok níunda áratugarins sendu SOS Barnaþorpin i Danmörku fulltrúa sína til Íslands í því skyni að stofna samtökin hér á landi. Þeir fengu ábendingar um aðila í Reykjavík sem mögulega gætu aðstoðað, líkt og forystumenn í viðskiptalífi og fólk sem menntað var frá Danmörku. Meðal þessa fólks var ung íslensk blaðakona sem þekkti til Ullu Magnússon sem fædd var í Danmörku, átti danska móður en íslenskan föður og bað hana um að mæta á fund. Ulla ólst að mestu upp á Íslandi eftir að foreldrar hennar fluttu hingað til lands þegar hún var níu ára gömul.

Á undirbúningsfundi um málefni SOS Barnaþorpanna í Reykjavík kom í ljós að þeir Íslendingar sem mættu voru velviljaðir málefninu en vildu þó ekki taka að sér forystu um stofnun samtakanna hér á landi. Ulla var aldrei þekkt fyrir annað en að taka við áskorunum og úr varð að hún tók að sér forystuna en hún hafði starfað víða í viðskipta- og atvinnulífinu og bjó yfir mikilli reynslu á því sviði. Hún hafði meðal annars mikið unnið að markaðsmálum fyrir Álafossverksmiðjuna en var ekki föst í stórum verkefnum á þessum tíma.

Hófst nú Ulla handa af sínum alkunna dugnaði og skipulagshæfileikum að koma SOS Barnaþorpunum á fót hér á landi. Margir af þeim sem komu að samtökunum í upphafi drógu sig smám saman í hlé en Ulla stóð ávallt vaktina. Hún safnaði saman öflugum stjórnar- og stuðningsmönnum en sjálf var hún fjárhagslega sjálfstæð og gat fórnað verkefninu miklum tíma. Fyrst og fremst kom þó í ljós hve miklum skipulagshæfileikum, heiðarleika, trausti og dugnaði Ulla var búin. Með öflugum stuðningi SOS Barnaþorpanna í Danmörku sem bæði lögðu fram þekkingu og fjármuni á fyrsta stigi, tókst Ullu að markaðssetja hugsjónina undir íslenska kjörorðinu: Við söfnum foreldrum.

Ulla vakti mikla athygli hjá alþjóðasamtökum SOS Barnaþorpanna fyrir skýran og einarðan málflutning er hún kvaddi sér þar hljóðs, enda djörf og óhrædd að standa fyrir máli sínu á erlendum vettvangi. Í því samhengi má nefna að Ulla var lengst af bæði stjórnarformaður og framkvæmdastjóri samtakanna hér á landi og þótti starfsfólki alþjóðasamtakanna það heldur óvenjulegt að sami aðili gegndi báðum störfum. Árið 2009 var Ulla sæmd heiðursorðu alþjóðasamtakanna fyrir framúrskarandi störf í þágu samtakanna.

Með árunum stækkaði starfsemi SOS Barnaþorpanna hratt á Íslandi og á árinu 2023 eiga yfir 9 þúsund börn í SOS barnaþorpum SOS-foreldra á Íslandi. Ulla varð hið trausta andlit samtakanna en hún lagði alla tíð áherslu á að halda fremur lágum og traustum prófíl í málefnum SOS Barnaþorpanna fremur en að eyða peningum í miklar auglýsingar. Þá gætti hún þess einnig vel að borga sjálfri sér sem allra lægstu laun. Þannig skapaði hún samtökunum traust um að framlögin skiluðu sér í réttar hendur.

Fyrst og fremst er velgengni SOS Barnaþorpanna fagurri mannúðarhugsjón, dugnaði og útsjónarsemi Ullu að þakka. Hún var frá upphafi potturinn og pannan í starfsemi SOS Barnaþorpanna á Íslandi.