Hvað fer stór hluti af framlaginu mínu í hjálparstarfið?

SOS-foreldrar greiða kr. 3.900 á mánuði og Barnaþorpsvinir kr. 3.400. Að jafnaði fara 85% beint til barnaþorpsins og nýtast til framfærslu barnsins (eða reksturs þorpsins ef þú ert barnaþorpsvinur). 15% af framlaginu þínu nýtast í umsýslu, eftirlit með þorpunum, þjónustu við styrktaraðila á Íslandi og öflun nýrra styrktaraðila.

Að minnsta kosti 80% af styrktarframlagi Fjölskylduvina nýtast í fjölskyldueflingarverkefni SOS. Að hámarki 20% framlagsins er nýtt í umsýslu, þjónustu við Fjölskylduvini og öflun nýrra. Ástæðan fyrir því að umsýslukostnaður er hærri í Fjölskyldueflingunni er sú að þar nær aðstoðin til fleiri barna og eftirlit er flóknara.

Hvort sem framlag þitt er stakt eða mánaðarlegt geturðu verið viss um að, að jafnaði 85% af framlaginu þínu skilar sér í sjálft hjálparstarf samtakanna eða um 850 krónur af hverjum eitt þúsund krónum.

Strangt eftirlit er með fjármálum alþjóðlegra hjálparsamtaka eins og SOS Barnaþorpanna sem lúta lögum alþjóðlegra eftirlitsstofnana. Tækni­fram­far­ir hafa gert okk­ur kleift að rekja fram­lög­in bet­ur en áður, í hvert barna­þorp og til hvers barns.

SOS Barnaþorpin á Íslandi skila ársreikningi sem samþykktur hefur verið af óháðri endurskoðendaskrifstofu. Ársskýrslur eru sendar til SOS Children´s villages. Það sama á við um allar landsskrifstofur SOS Barnaþorpanna. Ársskýrslur og ársreikningar SOS á Íslandi eru aðgengileg rafræn á fjármálasvæðinu hér á heimasíðunni.

Endurgreiðsla frá Skattinum

Þann 1. nóv­em­ber 2021 tóku gildi ný lög sem í stuttu máli þýða að styrktarað­il­ar SOS Barna­þorp­anna fá nú ár­lega end­ur­greiðslu frá skatt­in­um. Hér er átt við skatt­greið­end­ur og þá heild­ar­upp­hæð sem þeir gefa til al­manna­heilla­fé­laga. Lág­marks­fram­lag á ári þarf að vera 10.000 krón­ur til að end­ur­greiðsla fá­ist. Styrktaraðilar SOS Barnaþorpanna lækka skattstofn sinn um þá heildarfjárhæð sem þeir greiða yfir árið.

Sem dæmi má áætla að SOS-foreldri, sem greiðir 3.900 krónur mánaðarlega til framfærslu barns í SOS barnaþorpi, lækkar skattstofn sinn um 46.800 krónur. Þannig má áætla út frá meðaltekjum að þú fáir rúmlega 18 þúsund krónur endurgreiddar ár hvert. Þetta má svo umreikna enn frekar þannig að í raun og veru greiðirðu aðeins 2.400 kr á mánuði með hverju styrktarbarni í stað 3.900 kr. Eftir því sem styrkupphæðin er hærri, því hærri verður endurgreiðslan.

  • Ein­stak­ling­ur get­ur feng­ið skatt­frá­drátt (lækk­un á tekju­skatts­skatt­stofni) allt að 350 þús­und krón­um á ári sam­kvæmt þess­um nýju lög­um.
  • Sam­an­lagt geta hjón eða sam­búð­ar­fólk því lækk­að skatt­stofn­inn sinn um 700 þús­und krón­ur.
  • Sem styrktarað­ili SOS Barna­þorp­anna þarftu ekk­ert að að­haf­ast til að fá þessa end­ur­greiðslu því fram­lög þín eru for­skráð á skatt­fram­tal­ið þitt.
  • Lág­marks­fram­lag á ári þarf að vera 10.000 krón­ur til að end­ur­greiðsla fá­ist.

Þú sérð nánari upplýsingar um endurgreiðslu frá Skattinum hér.

Hvað gera SOS-foreldrar?

Þegar þú ákveður að gerast SOS-foreldri barns verður þú nokkurs konar frændi eða frænka þess í fjarlægu landi sem lætur sig varða velferð þess.

Sumir SOS-foreldrar vilja skrifa börnunum og jafnvel heimsækja þau. Aðrir skrifa aldrei. Þú ræður alveg hvernig þú hagar samskiptum við þitt styrktarbarn.

En allir SOS-foreldrar eiga eitt sameiginlegt: Þeir vilja sjá til þess að barn sem ekki getur búið með sinni eigin fjölskyldu fái upplifað öryggi í SOS fjölskyldu, fái tækifæri til mennta, starfsþjálfun og góðan almennan undirbúning fyrir lífið.

Margir SOS-foreldrar styðja barnið alla leið til sjálfstæðis en ef þú þarft að hætta fyrr af einhverjum ástæðum þarftu ekki að hafa áhyggjur af barninu - við ábyrgjumst áframhaldandi velferð þess og finnum því nýtt styrktarforeldri.

Hvers vegna SOS-foreldrar?

Í stuttu máli: Vegna þess að þeir bjarga mannslífum og gefa von.

Með því að gerast SOS-foreldri leiðir þú illa statt barn í gegnum æskuárin og sérð til þess að það fái tækifæri sem það annars ætti enga möguleika á. Þú kynnist barninu, færð af því myndir og fréttir og átt þess kost að skrifa því, gefa því gjafir og jafnvel heimsækja það.

Barnið fær að vita að þú hjálpar því og stuðlar að betra lífi þess og þú færð kjörið tækifæri til að segja því frá Íslandi í máli og myndum - ef þú vilt.

Með því að gerast SOS-foreldri barns stígur þú mikilvægt skref. Þetta skref mun breyta lífi barns úti í heimi til hins betra og það mun án efa einnig veita þér ánægju.

Hversu lengi er maður SOS-foreldri?

Hugmyndin með SOS-foreldra og Barnaþorpsvini er að þeir taki þátt í því með SOS Barnaþorpunum að veita börnum í neyð langvarandi hjálp. Hins vegar geta þeir hætt stuðningi hvenær sem þeir óska. Þeim sem vilja gefa tímabundið eða óreglulega er bent á að gerast SOS Fjölskylduvinir eða gefa frjáls framlög.

Flest ungmennin flytja úr barnaþorpunum á bilinu 18-20 ára en sum síðar. Þegar ungmenni fer að huga að því að flytja úr þorpinu fær styrktarforeldri bréf þar sem því er tilkynnt um ástæður brottfarar. Eins er klippt á stuðning SOS-foreldra þegar ungmennið er orðið 23 ára, þó það búi enn í barnaþorpinu og fái stuðning frá SOS. Í bréfinu er SOS-foreldrinu boðið annað barn og er beðið um að láta vita ef það vill ekki halda áfram eða styrkja barn í öðru landi.

Þegar barnið yfirgefur þorpið

SOS Barnaþorpin eru almennt ábyrg fyrir börnunum í þorpunum þar til þau hafa lokið menntun og geta séð um sig sjálf. Þegar börnin vilja og eru tilbúin til, þá flytja þau að heiman. Yfirleitt flytja börnin úr þorpunum á aldrinum 16-23 ára.

Þar sem svokölluð SOS ungmennaheimili eru til staðar flytja börnin þangað á unglingsárum. Þá búa nokkrir unglingar saman í heimili en njóta leiðsagnar starfsfólks SOS og læra smám saman að fóta sig í lífinu án hjálpar SOS Barnaþorpanna.

Þegar barnið þitt yfirgefur ungmennaheimili eða sjálft barnaþorpið færð þú bréf um það. Flestir SOS-foreldrar vilja taka að sér nýtt barn við slík tímamót og því færð þú tilboð um að taka að þér nýtt barn sem vantar SOS-foreldra. Það er að sjálfsögðu þitt að ákveða hvort þú takir barnið eða ekki, en kjósir þú að taka ekki að þér barnið hefurðu samband við skrifstofu SOS Barnaþorpanna á Íslandi og lætur vita.

Búa öll börnin í barnaþorpum?

Flest já, en alls ekki öll. Barnaþorpin eru þó grunnstarfsemi samtakanna og í dag búa um 68.000 börn í 539 barnaþorpum eða sambærilegri umönnun um heim allan. Tölur yfir fjölda barnaþorpa og barna í þeim hafa lækkað frá árinu 2018 en það kemur til vegna fjölbreyttari úrræða við umönnun barnanna.

SOS Barnaþorpin hafa þróað starf sitt í gegnum árin með það í huga að hjálpa sem flestum börnum á sem bestan hátt. Samtökin leggja mikla áherslu á aðstoð við foreldra og fylgdarlaus börn en einnig þau sem eru í hættu á að verða það. Þar sem samtökin starfa í 138 löndum er mikilvægt að vera sveigjanleg en þó einnig staðföst í þeim ólíku nálgunum sem samtökin standa frammi fyrir þegar kemur að umönnun barna.

En hver sem nálgunin er setja SOS Barnaþorpin hagsmuni barnanna alltaf í forgang og hvert tilvik er metið fyrir sig.

Þau úrræði sem SOS Barnaþorpin eru með fyrir börn sem þurfa á tímabundinni eða langtíma umönnun að halda eru eftirfarandi:

Barnaþorp: Börn búa í fjölskyldum í barnaþorpum. Í hverri fjölskyldu er SOS foreldri og fjögur til tíu börn og búa þau saman á heimili. Um er að ræða einingu sem líkist hefðbundinni fjölskyldu að öllu leyti.

Fósturheimili: Þetta úrræði er algengt í löndum þar sem SOS Barnaþorpin hafa stigið inn í fósturkerfið, líkt og í Evrópu. Stundum er það lögum samkvæmt að börn þurfa að vera í fóstri og í þeim tilvikum verða SOS mæðurnar eða -feðurnir fósturforeldrar barnanna. Í öðrum tilvikum þjálfa samtökin fósturforeldra á vegum ríkisins, útvega heimili fyrir fjölskyldurnar og fleira, allt í þeim tilgangi að börnin fái gott heimili.

Tímabundin heimili: Börn sem munu sameinast fjölskyldum sínum aftur eða eru á leið í önnur úrræði (t.d. SOS barnaþorp) fá tímabundið heimili hjá SOS.

Neyðarskýli: Tímabundið úrræði sem samtökin reka þar sem neyðaraðstoð er í gangi. Um er að ræða afar mikilvægt úrræði, t.d. í stríðshrjáðum löndum eða þar sem náttúruhamfarir verða.

Heimili fyrir mæður og börn: Tímabundið úrræði þar sem mæður geta búið með börn sín og fengið viðeigandi aðstoð.

Fjölskylduefling: Börn búa hjá líffræðilegri fjölskyldu en fá aðstoð frá SOS Barnaþorpunum.

Hvaða börn vantar SOS-foreldra?

SOS Barnaþorpin taka við þeim börnum sem misst hafa foreldra sína eða geta ekki búið hjá foreldrum sínum af einhverjum ástæðum. Mörg þessara barna hafa gengið í gegnum hræðilega hluti áður en þau koma til SOS og eru í mikilli þörf fyrir ást, þolinmæði og stuðning fagfólks á borð við sálfræðinga til að lækna sárin.

Barnið fær SOS móður (stundum föður líka) sem annast það eins og það væri hennar eigið. SOS móðirin mætir þörfum barnsins fyrir ástúð og umhyggju og leiðir það í gegnum æskuárin og til sjálfstæðis. Jafnvel eftir að „börnin“ eru flogin úr hreiðrinu og hafa stofnað sínar eigin fjölskyldur snúa þau reglulega aftur „heim“ í barnaþorpið til að heilsa upp á SOS mæður sínar og „ömmur“ barna sinna.

Hvað kostar að styrkja barn?

SOS-foreldrar greiða kr. 3.900 á mánuði fyrir að styrkja eitt ákveðið barn.

Hvað kostar að styrkja barnaþorp?

Barnaþorpsvinir greiða kr. 3.400 á mánuði fyrir að styrkja eitt ákveðið barnaþorp.

Duga 3.900 kr. fyrir öllu uppihaldi?

SOS Barnaþorpin vilja ekki kasta til hendinni heldur vanda þau til verka og leggja áherslu á að börnin fái góða og varanlega hjálp. Á það við um byggingar, menntun og annað í lífi barnanna.
Framfærslukostnaður eins barns er því nokkuð hærri en kr. 3.900 og þurfa fleiri en einn styrktaraðili að standa að baki hverju barni. Það væri til lítils að bjarga börnum úr fátækt ef við ætluðum að viðhalda örbirgð þeirra - en einstaklingur er talinn búa við sára fátækt hafi hann minna en $ 1.25 á dag til að lifa af.

Þó svo að barn geti átt fleiri en eitt styrktarforeldri er aðeins eitt íslenskt styrktarforeldri með hvert barn, nema sýrlensk börn, þau geta haft tvo íslenska SOS-foreldra.

Hvenær flytja börnin úr SOS barnaþorpunum?

Það er ekkert aldurstakmark í SOS Barnaþorpunum. Samtökin eru ábyrg fyrir börnunum þar til þau hafa lokið menntun, eru byrjuð að vinna og geta séð um sig sjálf. Þegar börnin vilja og eru tilbúin til, þá flytja þau að heiman. Yfirleitt flytja börnin úr þorpunum á aldrinum 17-23 ára.

Þar sem svokölluð SOS ungmennaheimili eru til staðar flytja börnin þangað á unglingsárum til þess að læra smám saman að fóta sig í lífinu. Þar búa nokkrir unglingar saman á heimili og njóta leiðsagnar starfsfólks SOS. Ungmennaheimilið er staðsett í SOS Barnaþorpinu eða skammt frá og ungmennin eru enn á framfærslu SOS og í nánum samskiptum við SOS foreldra sína.

Er hægt að velja sér barn eftir útliti?

SOS Barnaþorpin virða rétt skjólstæðinga sinna til persónuverndar og því er ekki hægt að skoða myndir á heimasíðu okkar af börnum í neyð og velja sér styrktarbarn eftir útliti. Við birtum heldur ekki nöfn þeirra barna sem þarfnast stuðnings.

Hvað fæ ég gamalt barn?

Styrktarforeldrar geta átt von á að fá börn á aldrinum 0-14 ára. Liggi sérstakar ástæður að baki geta væntanlegir styrktarforeldrar lagt fram óskir um aldur barns.

Eru börnin alin upp í ákveðinni trú?

SOS Barnaþorpin taka ekki afstöðu til ólíkra trúarbragða. Það þýðir þó ekki að samtökin hafni trúarbrögðum. Hvert barn er alið upp í þeirri trú sem foreldrar þess tilheyra/tilheyrðu. Ef upplýsingar um trúarbrögð foreldra liggja ekki fyrir eru börnin alin upp í samræmi við það sem algengast er í landinu eða á landssvæðinu. Í mörgum barnaþorpum má finna börn og SOS foreldra sem aðhyllast ólík trúarbrögð.

Bréf og upplýsingar frá barnaþorpum

SOS-foreldrar fá bréf tvisvar á ári frá barnaþorpinu. Fyrra bréfið er yfirleitt sent út á tímabilinu júní – september. Í bréfinu eru upplýsingar um barnið ásamt almennum upplýsingum um barnaþorpið.

Síðla árs fá svo SOS-foreldrar jólakveðju úr barnaþorpinu ásamt fréttum af því helsta sem gerðist í þorpinu það árið ásamt upplýsingum um önnur verkefni samtakanna á staðnum. Í flestum tilvikum fylgir kveðjunni ný mynd af barninu hafi hún ekki borist fyrr á árinu.

Auk ofangreindra bréfa fá SOS-foreldrar fréttablað SOS Barnaþorpanna á Íslandi tvisvar á ári líkt og aðrir styrktaraðilar samtakanna.

Börnunum sjálfum er frjálst að skrifa styrktarforeldrum sínum og sum þeirra (einkum þau eldri) nýta sér þann möguleika.

Undanfarið hafa persónuverndarréttindi barnanna orðið mun strangari en áður og við látum börnin aldrei skrifa styrktarforeldrum sínum ef þau treysta sér ekki til þess. Sum barnanna vilja skrifa eða teikna mynd handa styrktarforeldrum en börnin eru eins misjöfn og þau eru mörg og við vitum ekki fyrirfram hver vilji hvers barns er. Slíkar persónulegar bréfaskriftir eru í raun undir börnunum sjálfum komið, hvort þau vilji það eða ekki.

Að skrifa barni

SOS-foreldrum er velkomið að skrifa börnum sínum og þykir börnunum alltaf gaman að fá bréf frá útlöndum. Ekki er þó hægt að senda þeim tölvupóst. Hér eru nokkrar hagnýtar upplýsingar viljir þú senda barni þínu í SOS Barnaþorpi bréf.

  • Þegar þú gerðist SOS-foreldri fékkst þú sendar upplýsingar um barnaþorpið og þar kemur fram á hvaða tungumáli bréfið skal vera og hver utanáskriftin er (einnig er hægt að nálgast utanáskriftina inni á Mínum síðum).
  • Nafn styrktarbarnsins má ekki rita utan á pakkann heldur skal setja nafnið á miða inn í pakkann. Á þeim miða þarf að vera SOS-númer barnsins og tilvísunarnúmer styrktarforeldris ásamt eftirnafni, með enskum stöfum. SOS-númerið og tilvísunarnúmerið eru í upplýsingamöppunni.
  • Mikilvægt er að skrifa nafn sendanda aftan á umslagið. Póstþjónusta er misgóð í heiminum og stundum þarf að endursenda póstsendingar.
  • Best er að hafa bréfin stutt og á einföldu máli.
  • Þú getur skrifað um daglegt líf á Íslandi, fjölskylduna þína, áhugamál og það annað sem þú heldur að barnið gæti haft áhuga á.
  • Hafðu í huga að menningarheimur barnsins er gjörólíkur þínum (í flestum tilvikum). Gildismat, hefðir og lífsgæði á því svæði sem barnið býr á geta því verið mjög frábrugðin því sem Íslendingar eiga að venjast og biðjum við þig að taka tillit til þess.
  • Gaman er fyrir barnið að fá myndir af þér, fjölskyldu þinni, heimili og umhverfi. Hafðu þó í huga að sums staðar geta myndir af fólki í léttum sumarfatnaði virkað illa á fólk.
  • Barnið getur sent þér bréf ef það vill. Þrátt fyrir að sum börn hafi gaman af því að skrifa styrktarforeldrum sínum bréf á það ekki við um öll börn og biðjum við styrktarforeldra að sýna því skilning.

Landsskrifstofa SOS í hverju landi sér um að samræma starf barnaþorpanna og sér til þess að starfsemi þeirra sé í samræmi við alþjóðlegar reglur samtakanna. Landsskrifstofurnar eru tengiliðir þorpanna við styrktaraðila og sjá um þýðingar á bréfum. Þannig minnkum við álag á starfsfólk barnaþorpanna til mikilla muna.

Pakkar til barnanna

Við ráðleggjum þeim SOS-foreldrum sem vilja senda börnum sínum gjafir að gefa peningagjöf á framtíðarreikning og leggja þannig grunn að fjárhagslegu sjálfstæði barnsins þegar það yfirgefur þorpið. En viljir þú senda pakka til barnsins þá mælum við með litlum gjöfum sem komast fyrir í umslag, s.s. límmiða, hárspennur, ritföng, fatnað o.þ.h.

Það hefur sýnt sig að stórar og dýrar gjafir sem sendar eru með pósti skila sér síður til barnanna. Mörg SOS Barnaþorp eru í löndum þar sem póstþjónustan er dræm og algengt er að pakkar skemmist eða „týnist“. Þá eru víða lagðir háir tollar á slíkar sendingar og kostnaðurinn við að leysa sendinguna út getur orðið meiri en verðmæti innihaldsins. SOS Barnaþorpin hafa ekki tök á að reyna að hafa uppi á póstsendingum sem ekki skila sér í þorpin.

Í upplýsingamöppunni sem styrktarforeldrarar fá eftir skráningu eru upplýsingar um heimilisfang barnaþorpsins. Nafn styrktarbarnsins má ekki rita utan á pakkann heldur skal setja nafnið á miða inn í pakkann. Á þeim miða þarf að vera SOS-númer barnsins og tilvísunarnúmer styrktarforeldris ásamt eftirnafni, með enskum stöfum. SOS-númerið og tilvísunarnúmerið eru í upplýsingamöppunni.

Peningagjafir til barnanna

SOS-foreldrar geta gefið börnum sínum peningagjafir fyrir utan föstu mánaðarlegu greiðslurnar. Margir senda börnum sínum slíkar gjafir þegar þau eiga afmæli, þegar skóla lýkur eða í tengslum við hátíðir, t.d. jól.

SOS-foreldrar geta haft samband við skrifstofu barnaþorpanna og fengið senda heim gjafagíróseðla sem greiða má í heimabanka eða næsta bankaútibúi.

Einnig má leggja gjafir til barnanna inn á reikning 0334-26-51092, kt. 500289-2529. Mikilvægt er að kennitala SOS-foreldris komi fram svo rétt barn fái gjöfina.

Þær peningagjafir sem greiddar eru með gjafaseðlunum fara óskiptar til viðkomandi barns. Peningarnir eru lagðir inn á sparireikning í viðkomandi landi á nafni barnsins og fær barnið svo peninginn þegar það yfirgefur þorpið og fer að standa á eigin fótum.

Þegar SOS-barni er gefin peningagjöf fær SOS-foreldri sent þakkarbréf frá skrifstofu SOS Barnaþorpanna þar sem staðfest er að gjöfin hafi borist. Bréfið er sent í tölvupósti ef styrktarforeldri er með skráð netfang hjá SOS, annars er bréfið sent í bréfpósti.

Vinsamlegast sendið börnunum ekki peninga í pósti.

Heimsókn í SOS barnaþorp

SOS-foreldrar geta heimsótt barnið sitt í þorpið. Það er stór dagur í lífi hvers barns þegar SOS-foreldrar þess koma í heimsókn. SOS-foreldrar eru þó beðnir um að taka eins mikið tillit til barnsins, fjölskyldu þess og allra í þorpinu og kostur er þegar þeir heimsækja þorpið.

Undirbúningur heimsóknar

Mikilvægt er fyrir alla aðila að heimsókn SOS-foreldra í þorpið takist sem best. Því biðjum við SOS-foreldra sem huga á heimsókn að láta skrifstofu SOS Barnaþorpanna á Íslandi vita um fyrirhugaða heimsókn með minnst 6 vikna fyrirvara.

Skrifstofan veitir þér svo allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir heimsóknina og sér til þess að barnið sé í þorpinu þegar þú kemur og að tekið verði á móti þér. Þú munt einnig fá leiðsögn um þorpið og túlk ef þess þarf. Viljir þú taka með þér gjöf til barnsins eða barnaþorpsins mun skrifstofan afla upplýsinga um hvort einhverjar gjafir séu sérstaklega æskilegar eða óæskilegar.

Vinsamlegast athugið:

  • SOS-foreldri má ekki yfirgefa þorpið með barninu.
  • SOS-foreldri getur ekki gist í barnaþorpi. Skrifstofa SOS í viðkomandi landi getur bent á gistimöguleika í nágrenni þorpsins.
  • Starfsfólk barnaþorpsins getur ekki liðsinnt SOS-foreldrum eftir að heimsókn lýkur.
  • Barn í SOS Barnaþorpi getur ekki heimsótt SOS-foreldra sína í útlöndum.
  • SOS Barnaþorpin mega ekki taka á móti skipulögðum ferðum ferðaskrifstofa í þorpin.

Hér má sjá reglur fyrir gesti í SOS Barnaþorpum sem þeir þurfa að samþykkja fyrir heimsóknina.

Hvað er SOS-fjölskylduvinur?

Fjölskylduvinir styrkja ekki eitt ákveðið barn heldur fjölskyldueflingu erlendis sem SOS á Íslandi fjármagnar.  Fjölskylduefling SOS gengur út á að hjálpa barnafjölskyldum í sárafátækt að koma undir sig fótunum. SOS á Íslandi fjármagnar eitt slíkt verkefni í Eþíópíu.

Fjölskylduvinir greiða mánaðarlegt framlag og ákveða sjálfir upphæðina. Algeng upphæð er 1.500 kr. á mánuði en þó aldrei lægri en 1000 kr.

Persónuvernd og persónuupplýsingar

SOS Barnaþorpin leggja mikla áherslu á réttindi barna og persónuvernd. Við getum ekki gefið SOS-foreldrum upp allar upplýsingar um börnin og biðjum SOS-foreldra að sýna því skilning. Þær upplýsingar sem SOS-foreldrar fá um börnin eru eingöngu ætlaðar þeim og þeirra nánustu. Við biðjum SOS-foreldra að miðla þeim upplýsingum ekki til þriðja aðila eða opinbera á netinu eða á annan hátt.

SOS Barnaþorpin virða persónuverndarlög og vernda því persónulegar upplýsingar SOS-foreldra og SOS barna. Í persónuverndaryfirlýsingunni okkar kemur fram hvers vegna við öflum, notum og geymum persónuupplýsingar.

SOS Barnaþorpin búa yfir persónuupplýsingum um styrktarforeldra. Um er að ræða símanúmer, netföng og aðrar þær upplýsingar sem auðvelda okkur að koma framlögum þínum til skila og veita þér þjónustu. Nöfn SOS-foreldra eru send bæði landsskrifstofu SOS í viðkomandi landi og alþjóðaskrifstofunni í Vínarborg í Austurríki, en slíkt er nauðsynlegt til að halda utan um hið mjög svo stóra styrktarkerfi SOS Barnaþorpanna.

Frá og með ágúst 2022 geyma SOS Barnaþorpin á Íslandi ekki lengur greiðslukortanúmer styrktaraðila. Þau eru aðeins vistuð samkvæmt öryggisreglum hjá greiðslukortafyrirtækum.

Samfélagsmiðlar

Fjölmargir SOS-foreldrar og sum SOS ungmenni nota samskiptamiðilinn Facebook en börnum yngri en 13 ára er bannað að vera á FB skv. reglum FB. Í ljósi síbreytilegs samskiptamynsturs fólks eru SOS Barnaþorpin stöðugt að leita leiða til að nýta tæknina til samskipta og miðlunar upplýsinga án þess að það bitni á persónuvernd barna og styrktarforeldra. En einmitt af slíkum persónuverndarástæðum hafa samtökin ekki opnað fyrir samskipti styrktarforeldra og –barna á Facebook.

SOS-foreldrar eru hvattir til að huga að eigin persónuvernd (t.d. hvað varðar heimilisfang og símanúmer) til að hindra óæskileg samskipti (t.d. óskir um gjafir og stuðning frá SOS börnum, vinum þeirra eða ættingjum).
SOS-foreldrum sem vilja vera í sambandi við SOS-börn sín er bent á að senda þeim bréf eða jafnvel heimsækja þau ef aðstæður leyfa (sjá ofar á síðunni).

SOS-foreldrar mega setja myndir af SOS-börnum sínum á samfélagsmiðla en eru beðnir um að birta ekki nöfn barnanna. Þá mega þeir ekki ræða trúarskoðanir, kynhneigð, heilsu eða bakgrunn SOS-barna sinna.

Sjálfboðaliðar

SOS Barnaþorpin á Íslandi senda enga sjálfboðaliða út en við höfum haft milligöngu um sjálfboðaliðastörf undir vissum kringumstæðum. Í þeim tilfellum hafa viðkomandi einstaklingar skipulagt ferðir sínar og gistingu sjálfir til áfangastaðar í nágrenni SOS barnaþorps. Þeir geta tekið þar að sér sjálfboðaliðaliðastörf ef þeir búa yfir einhverri kunnáttu eða þekkingu sem nýtist börnunum í þorpinu að mati yfirmanna þar. Fyrir frekari upplýsingar er þér velkomið að senda tölvupóst á upplýsingafulltrúa SOS, hans@sos.is.