Ungmenni streyma á vinnumarkaðinn í Sómalíu og Sómalílandi
116 ungmenni í Sómalíu og Sómalílandi hafa nú lokið þjálfun á fyrsta ári í atvinnueflingunni The Next Economy (TNE) sem fjármögnuð er af SOS Barnaþorpunum á Íslandi og Utanríkisráðuneytinu. Ungmennin streyma nú út á atvinnumarkaðinn, 59 stúlkur og 57 piltar. 200 ungmenni hafa lokið tveimur af þremur fösum þjálfunarinnar.
SOS á Íslandi og Utanríkisráðuneytið fjármagna annan hluta verkefnisins sem hófst í byrjun árs 2019 og lýkur 31. desember 2021.
ÍSLENDINGAR HJÁLPA UNGMENNUM Í SÓMALÍU OG SÓMALÍLANDI AÐ FÁ VINNU
16 þessara ungmenna fengu strax lærlingsstöður og fleiri fylgdu í kjölfarið. Þar að auki hafa 52 ungmenni haldið áfram á næsta stig þjálfunarinnar og nema nú frumkvöðlafræði. Ungmennin eru með viðskiptahugmyndir sem þau vinna með þjálfurum verkefnisins og þegar þær eru fullmótaðar er efnt til hópfjármögnunar.
Ætlar að opna blómabúð
Mohamud Abdisalan hefur safnað $900 dollurum fyrir viðskiptahugmynd sína. Hann ætlar að opna blómabúð sem selur lifandi blóm og gjafavöru í Mogadishu. „Hugmyndin kviknaði út frá því að útskriftarnemar vilja allir hafa blóm í útskriftarveislunum sínum en hér eru eingöngu fáanleg gerviblóm,“ segir Mohamud.
Fjöldi fyrirtækja býður lærlingsstöður
TNE verkefninu er stýrt af SOS Barnaþorpunum og fer þjálfunin fram í höfuðborgunum Hargeisa í Sómalílandi og Mogadishu í Sómalíu. Þátttakendur sækja bæði um á almennum vinnumarkaði að þjálfun lokinni og hjá samstarfsfyrirtækjum sem veita lærlingsstöður. Vel gengur að fá fyrirtæki til samstarfs, bæði opinber og úr einkageiranum og hafa 40 ný fyrirtæki bæst við á verkefnistímanum sem fjármagnaður er af SOS á Íslandi.
Ungu fólki gengur illa að fá vinnu
Þrátt fyrir uppgang í efnahag Afríku undanfarin 15 ár virðast atvinnutækifærin ekki rata í hendur stórs hluta 420 milljóna ungmenna álfunnar. Sómalska þjóðin er enn að ná sér á strik eftir áratuga ófrið og óstöðugleika og helmingur þjóðarinnar lifir undir fátæktarmörkum. Einn þriðji hluti barna í landinu býr við sárafátækt og mikið atvinnuleysi er meðal ungmenna sem fyrir vikið leiðast auðveldlega út á glæpabraut. Tilgangur SOS með TNE verkefninu er m.a. að leggja sitt af mörkunum til að bæta þar úr.
64 milljónir frá Íslandi
Heildarkostnaður við annan hluta verkefnisins sem fjármagnaður er af Íslendingum er 64,4 milljónir króna. Heildarframlag utanríkisráðuneytisins er kr. 51.525.788.- og heildarframlag SOS Barnaþorpanna á Íslandi kr. 12.881.447.
Nýlegar fréttir
SOS blaðið 2024 komið út
SOS-blað ársins er komið út og er það aðgengilegt öllum rafrænt hér á vefsíðu okkar. Í blaðinu er viðtal við hina tíbetsku Sonam Gangsang sem ólst upp í SOS barnaþorpi á Indlandi og heimsótti fyrrvera...
Fulltrúi íslenskra yfirvalda sat viðburð SOS hjá Sameinuðu þjóðunum
Alþjóðlegri herferð SOS Barnaþorpanna, „Stappað fyrir friði“, var hrundið af stað á þriðjudaginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í aðdraganda 35 ára afmælis Barnasáttmálans. Íslensk börn ...