15. desember

Allir hjálpast að

Stundum þurfum við að takast á við verkefni sem eru krefjandi og erfið og þá er gott að eiga góða að. Í dag heimsækjum við Tu Tho og fjölskyldu hennar. Tu Tho er 15 ára og hún hefur verið dugleg að hjálpa til við heimilisstörfin eftir að mamma hennar missti sjónina. Í sumum löndum fá einstaklingar með fötlun ekki þá þjónustu sem þeir þyrftu á að halda til að geta séð um sig og fjölskyldur sínar og þá lendir það oft á börnunum að hjálpa til. Tu Tho lætur það þó ekki trufla skólagöngu sína enda stefnir hún á að verða lögreglukona. Hún á góða vinkonu sem hjálpar henni á hverjum degi en einnig koma góðir nágrannar til hjálpar.

En þó foreldrar geti ekki unnið vegna fötlunar eru þeir alveg jafn góðir foreldrar. Þeir þurfa bara á aðstoð að halda og þess vegna hjálpa SOS Barnaþorpin slíkum fjölskyldum svo börnin geti búið hjá foreldrum sínum, farið í skóla og liðið vel. Kíkjum til Víetnam.

Umræðupunktar

  • Er hægt að passa upp á að allir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast? Hvers vegna ekki?/Hvernig?
  • Eruð þið dugleg að hjálpa öðrum?
  • Hvernig getum við aðstoða með heimilisverkin án þess að það trufli okkar skólagöngu?
  • Stelpurnar fóru í skemmtilegan leik með 5 litlum steinum, hafið þið séð þennan leik áður? Væri gaman að prófa hann?
  • Í myndbandinu sáum við að margir hjálpuðu fjölskyldunni, hvers vegna er mikilvægt að við hjálpumst að og látum okkur aðra varða?

Stafarugl dagsins

Hvað langar Tu Tho að verða þegar hún verður stór? Bókstafur 1 fer í reit nr. 2