16. desember

SOS mamma í 40 ár

Í dag ætlum við aðeins að kíkja á bak við tjöldin. Við fáum að hitta Chandra Kala sem hefur starfað sem SOS mamma í 40 ár. Á þeim tíma hefur hún alið upp 35 börn. Þó það séu líka til SOS pabbar þá eru mömmurnar enn í miklum meirihluta. Hlutverk SOS móður er að annast þau börn sem til hennar koma, veita þeim stuðning, ást og umhyggju og ala þau upp eins og þau væru hennar eigin börn. Til að gerast SOS mamma þarf fyrst að fara í gegnum mikið umsóknarferli og svo í gegnum tveggja ára nám hjá SOS Barnaþorpunum þar sem farið er í gegnum undirstöðuatriði uppeldis, heimilisbókhalds, hreinlætis, næringarfræði og annarra þátta sem skipta máli við rekstur heimilis og uppeldi barna.

Kíkjum til Nepal og hittum Chandra Kala.

Umræðupunktar

  • Hvernig haldið þið að það sé að ala upp 35 börn?
  • Chandra Kala segir að lykillinn að því að vera góð mamma sé að vera hreinskilin, umhyggjusöm og kærleiksrík. Hvaða eiginleika finnst ykkur gott foreldri þurfa að hafa?
  • Á Íslandi þykir okkur sjálfsagt að mömmur jafnt sem pabbar sinni uppeldi barna. Sum lönd eru ekki komin jafn langt á leið í jafnréttisbaráttunni. Hvað finnst ykkur um það?

Stafarugl dagsins

Hvað heitir SOS mamman í myndbandinu? Bókstafur 5 fer í reit nr. 15