16. desember

Ísak og Samúel frá Eþíópíu

Tvíburarnir hans Kalla

Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga börn sem ekki njóta umönnunar fjölskyldu sinnar rétt á því að um þau sé hugsað af fólki sem ber virðingu fyrir trúarskoðunum þess, menningu, tungumáli og öðru sem varðar líf barnsins. Það eru mörg börn um allan heim sem af einhverri ástæðu geta ekki búið með fjölskyldu sinni og því er mikilvægt að hægt sé að finna öruggan stað fyrir þau þar sem þau fá að búa við ást og umhyggju umsjónaraðila.

Árið 2012 var Íslendingurinn Karl Jónas Gíslason eða Kalli, að störfum í Eþíópíu þegar til hans kemur gömul kona með 4 daga gamla tvíbura sem hún vildi að hann tæki að sér því enginn í fjölskyldunni eða þorpinu vildi annast þá. Kalli var hins vegar bara staddur tímabundið í Eþíópíu og þurfti því að finna varanlegt heimili fyrir strákana tvo. Upp hófst mikið ævintýri sem endaði sem betur fer vel og strákarnir tveir búa nú ásamt SOS mömmu sinni og fleiri systkinum í SOS Barnaþorpi í Hawassa.

Börn eru viðkvæmur hópur sem þarfnast sérstakrar verndar. Nýfædd börn eru algjörlega háð umönnun fullorðinna aðila til þess að lifa af. Þó amman hafi ekki þorað að annast og ala upp tvíburana vegna hræðslu við bölvun þá vildi hún koma þeim í öruggar hendur svo þeir fengju tækifæri til að lifa.

Umræðupunktar

  • Hvers þarfnast nýfædd börn?
  • Hafið þið einhvern tímann passað eða aðstoðað við að passa lítil börn (yngri systkini eða frændsystkini)?
  • Hvernig haldið þið að Kalla hafi liðið þegar hann fékk tvíburana í fangið?
  • Hvernig haldið þið að tvíburunum líði í dag?

Stafarugl dagsins

Hvað heitir höfuðborg Eþíópíu? Bókstafur 1 fer í reit nr. 9