14. desember

Dýrmæt vinátta

Í 31. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna stendur að öll börn eigi rétt á hvíld, leik, tómstundum og að taka þátt í menningarlífi. Þessi réttindi fjalla aðallega bara um að barn hafi rétt á að vera barn. Barn sem vinnur allan daginn hefur engan tíma til að leika sér. Barn sem fær of lítið að borða hefur ekki orku til að leika sér. Barn sem elst upp eitt, án foreldraumsjár eða við mikla fátækt, á ekki leikföng. Það er mikilvægt fyrir þroska barna og heila þeirra að þau hafi einhvern sem gætir þeirra en það er líka mikilvægt að börn fái að hreyfa sig og leika sér. Þið munið kannski einhver eftir Maju frá því í dagatalinu í fyrra. Í frítíma sínum elskar Maja að dansa. Það finnst bestu vinkonu hennar, Pamelu, líka skemmtilegt að gera. Stelpurnar tvær eru nágrannar og þegar þær eru ekki að dansa finnst þeim gaman að leika sér saman.

Umræðupunktar

  • Hvað finnst ykkur skemmtilegt að leika með?
  • Hvaða leiki finnst ykkur skemmtilegt að fara í með öðrum? En ef þið eruð bara ein?
  • Hvers vegna er mikilvægt að hafa einhvern til að leika við?
  • Er mikilvægt að eiga marga vini, eða er kannski gott að eiga einn mjög góðan vin?
  • Þarf maður bara að leika við vini sína eða getur maður líka leikið við systkini, foreldra, ömmu og afa eða einhvern annan?
  • Notið þið allt dótið sem þið eigið heima? Hvað þarf maður eiginlega að eiga mikið af dóti?
  • Hvað getum við gert við dótið sem við erum hætt að nota? (selt það, gefið einhverjum...)
  • Takið þið þátt í einhverjum tómstundum? Hvaða tómstundum?
  • Sum börn geta kannski ekki tekið þátt í tómstundum því það kostar svo mikið. Hvað finnst ykkur um það? Hvað væri hægt að gera til þess að öll börn hafi kost á því að vera með vinum sínum í tómstundum?

Stafarugl dagsins

Hvað heitir besta vinkona Maju? Bókstafur 3 fer í reit nr. 10