Veldu dagsetningu
Yfirlit

14. desember

Vernd gegn mismunun

Reglur dagsins fjalla um að börn eigi rétt á að þeim sé ekki mismunað, það á að koma vel fram við öll börn. Það skiptir ekki máli hver þú ert, hvar þú býrð, hvaða tungumál þú talar, hvaða trú þú hefur, hvort þú ert með fötlun eða hefur framið glæp og ert í fangelsi. Öll börn eiga sömu réttindi. Við ætlum að kíkja til Norður Makedóníu og hitta Oliviu en hún og fjölskylda hennar eru Rómafólk.

Spurning dagsins

  • Hvers vegna er mikilvægt að koma vel fram við alla og að bera virðingu hvert fyrir öðru?

Verkefni dagsins

  • Í Barnasáttmálnum stendur að öll börn séu jöfn og ekki megi mismuna þeim að neinu leyti. Bekkurinn getur útbúið veggspjald með texta og myndum til að vekja athygli á þessari reglu. Veggspjaldið má svo hengja upp innan veggja skólans svo aðrir nemendur skólans verði meðvitaðir um þessa grein sáttmálans.

Greinar dagsins

Grein 2 – Partur af rauða þræðinum. Fjallar um að reglur Barnasáttmálans gildi fyrir öll börn.

Grein 23 – Fjallar um að börn með fötlun eigi rétt á því að lifa við aðstæður sem gerir þeim kleift að lifa eins góðu lífi í samfélaginu og völ er á. Stjórnvöld eiga að fjarlægja hindranir svo öll börn geti orðið sjálfstæð og tekið þátt í samfélaginu með virkum hætti.

Grein 26 – Fjallar um að börn sem búi við fátækt eigi rétt á aðstoð og skuli stjórnvöld tryggja þann rétt.

Grein 30 – Fjallar um að börn eigi rétt á að iðka eigin trú, tala sitt tungumál og viðhalda menningu sinni.

Grein 37 – Fjallar um að börn sem eru sökuð um að brjóta lög megi ekki lífláta, pynta, koma grimmilega fram við eða fangelsa til lífstíðar eða með fullorðnum.

Grein 40 – Fjallar um að börn sem hafa brotið lög eiga rétt á lögfræðiaðstoð og réttlátri málsmeðferð.

Lesið nánar um barnasáttmálann hér.

Í myndbandi dagsins er notast við myndir frá Wikimedia Commons.