1. desember

Babu

Við höfum mörg heyrt söguna af Palla sem var einn í heiminum. Hann vaknaði einn morguninn og enginn var til í heiminum nema hann. Hann gat gert allt sem hann langaði án þess að fá skammir fyrir. Hann komst þó fljótt að því að það er ekki gaman að vera aleinn og sem betur fer var þetta bara draumur.

Það er ekki eftirsóknarvert að vera aleinn í heiminum. Öll börn þarfnast umönnunar. Þess vegna segir í Barnasáttmálanum að börn sem njóti ekki umönnunar foreldra sinna eigi rétt á sérstakri vernd og aðstoð.

Í sumum heimshlutum er mjög hættulegt að vera barn, sérstaklega foreldralaust barn. Myndbandið sem við horfum á í dag segir frá Babu. Babu bjó á hættulegu svæði í dreifbýli Nepal. Þegar foreldrar hans dóu var hann einn eftir.

Umræðupunktar

  • Hvernig haldið þið að Babu hafi liðið þegar hann var aleinn?
  • Mennirnir sem tóku Babu ætluðu að selja hann. Hvað var það sem Babu gerði sem kom í veg fyrir það? (Babu hafði verið mjög hugrakkur, hann þorði að hrópa og kalla og búa til hávær hljóð svo aðrir myndu heyra í honum. Þess vegna vissi lögreglan að það væri ekki allt með felldu).
  • Hvernig haldið þið að Babu líði í dag? Hvers vegna?

Stafarugl dagsins

Hvað heitir strákurinn í myndbandinu?
Bókstafur 1 fer í reit nr. 3