Veldu dagsetningu
Yfirlit

1. desember

Rauði þráðurinn

Í dag fáum við að kynnast Veru. Vera ætlar að fara með okkur yfir allar greinar Barnasáttmálans í jóladagatalinu í ár. Fyrsti gluggi dagsins er tileinkaður rauða þræðinum í Barnasáttmálanum eins og greinar dagsins eru stundum kallaðar. Við fáum líka að sjá brot úr þeim myndböndum sem verða í dagatalinu í ár.

Spurning dagsins

• Hvers vegna er mikilvægt að til séu sérstök réttindi, bara fyrir börn?
• Hver ætli að sé munurinn á réttindum og forréttindum?

Verkefni dagsins

  • Jóladagatalinu í ár fylgir veggspjald með 42 reitum, fyrir 42 greinar Barnasáttmálans. Í hverjum þætti mun Vera tengja saman nokkrar reglur innan sáttmálans, sem fjalla um svipað málefni, og gefa þeim sama lit.
  • Gaman væri ef bekkurinn eða hver nemandi myndi prenta út veggspjaldið og lita reglur hvers dags í sama lit og í dagatalinu.
  • Eftir síðasta glugga dagatalsins blasir við litríkt veggspjald sem sýnir ykkur alla flokkana sem við erum búin að fjalla um í desember.

Greinar dagsins

Grein 2 – Öll börn eru jöfn og eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru með fötlun, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.

Grein 3 – Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir þau. Stjórnvöld eiga að tryggja að foreldrar verndi börn sín og gæti þeirra eða aðrir í þeirra stað þegar þörf er á. Stjórnvöld eiga einnig að tryggja að fólk sem er ábyrgt fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi.

Grein 6 – Öll börn eiga rétt á því að lifa og þroskast og skulu stjórnvöld tryggja það.

Grein 12 – Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.

Lesið nánar um barnasáttmálann hér.