18. desember

Dagur í lífi Ana

Þetta er hún Ana*. Hún er 13 ára og býr í Juliaca í Perú með mömmu sinni Sonia og fjögurra ára bróður sínum, Tomasi. Þau eru hluti af fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna sem er verkefni fyrir bágstaddar fjölskyldur. Nú fáum við að fylgjast með degi í lífi hennar.

Kl. 06:00   Ana er morgunhani sem vaknar snemma. Mamma hennar er þegar farin í vinnuna sína og Ana á að passa bróður sinn og hjálpa til í húsinu. Þó að það sé sumar þá er mjög kalt í Juliaca, Ana sefur með húfu og fimm teppi.

Kl. 07:00   Ana býr til morgunmat á meðan Tomas bróðir hennar gerir sig klárann.

Kl. 07:30   Ana og Tomas borða morgunmat saman. Litli bróðir hennar hefur verið blóðlítill og Ana passar því upp á að hann fái næringarríkan mat. Í morgunmat borða þau kínóa og kiwicha fræ sem eru stútfull af næringarefnum, með mjólk og hveitikexi.

Kl. 12:00   Mamman er á leið heim frá markaðnum og börnin fara til að taka á móti henni. Á sumrin er rigningartímabil í Juliaca. Erfitt er að keyra vörurnar heim á vagninum á drullugum vegunum en saman tekst Ana og mömmu hennar að keyra hann heim. Venjulega vilja börnin hjálpa mömmu sinni á markaðnum en út af Covid-19 þurfa börnin að vera heima.

Kl. 12:30   Góður handþvottur er mikilvægur. Ana ætlar að hjálpa mömmu sinni að útbúa hádegismatinn.

Kl. 13:30   Á meðan börnin bíða eftir því að maturinn verði klár, leika þau sér við kettlingana. Mamma þeirra segir að kettlingarnir verði að fá nýtt heimili.

Kl. 15:00   Eftir matinn hvíla mamma hennar og litli bróðir sig. Ana slappar af og sinnir heimavinnunni. Ana er í 7. bekk en skólinn er lokaður út af kórónuveirunni. Þau eru ekki með internet en í staðinn fær hún hálftíma kennslu í sjónvarpinu. Ana segir að það sé erfitt að fylgjast með í stærðfræðitímum í sjónvarpinu því hún getur ekki spurt kennarann eða fengið aðstoð.

Kl. 18:00   Kominn tími fyrir kósýkvöld. Þá fá þau kvöldsnarl og fá að horfa á sjónvarpið í mömmu rúmi. Allir elska að horfa á bíómyndir og teiknimyndaseríur.

* Nöfnum hefur verið breytt vegna persónuverndar