Veldu dagsetningu
Yfirlit

6. desember

Indverkur Tikka Masala kjúklingur og naan brauð



Í vikunni heimsóttum við tvær stelpur sem búa á Indlandi. Okkur fannst því tilvalið að uppskrift þessa laugardags kæmi frá Indlandi. Hér má finna uppskrift að indverskum tikka masala kjúklingarétti og naan brauði.

Tikka Masala kjúklingur (fyrir 4-6)
4 kjúklingabringur, skornar í teninga
1 sítróna - safinn
1 ½ tsk salt
2 tsk pipar
1 laukur
2 hvítlauksrif
5 cm fersk engiferrót
375 g hreint jógúrt
söxuð steinselja eða ferskt kóríander til að skreyta með

Masala:
75 g smjör
1 laukur í þunnum skífum
1 hvítlauksrif
1 ½ tsk túrmerik
1 ½ tsk chillíduft
1 tsk kanill
fræin úr 20 kardimommum
1 tsk malað kóríander
2 tsk anísfræ

Aðferð:
Setjið niðurskorna kjúklinginn í skál og kreistið sítrónusafa yfir. Kryddið með salti og pipar. Hrærið saman svo blandan dreifist vel yfir kjúklingabitana. Setjið til hliðar. Setjið lauk, hvítlauk og engifer í matvinnsluvél og saxið smátt. Bætið jógúrtinu við blönduna og hrærið vel saman. Hellið svo jógúrtblöndunni yfir kjúklinginn og hrærið vel í. Gott að leyfa kjúklingnum að marínerast í ísskáp í nokkra klukkutíma (gott að útbúa þetta deginum áður og leyfa að marínerast í sólarhring).
Þræðið svo kjúklingabitana upp á spjót. Geymið maríneringuna. Leggið kjúklingaspjótin á heitt grill og grillið í um það bil 6-8 mínútur eða þar til kjötið er rétt eldað í gegn. Mikilvægt er að steikja ekki of mikið. Takið kjötið af spjótunum, geymið.
Á meðan er hægt að útbúa masalað. Bræðið smjörið á wok- eða steikarpönnu, bætið lauknum og hvítlauknum út á pönnuna og steikið í 4-5 mínútur þangað til laukurinn verður mjúkur. Kryddið með túrmerik, chillí og kanil og hrærið vel í. Steikið í um það bil 1 mínútu. Bætið þá kardimommunum, kóríander og anísfræjum við blandið þessu vel saman og steikið í 2 mínútur í viðbót áður en þið setjið maríneringuna út á pönnuna. Blandið öllu vel saman og látið sjóða í smá stund. Bætið kjúklingabitunum út í blönduna og leyfið að malla í 5 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Skreytið með saxaðri steinselju.

 Naanbrauð frá Indlandi (6 brauð)
15 g ferskt ger
½ tsk sykur
2 msk heitt vatn
500 g sjálfreisandi hveiti
1 tsk salt
1 ½ dl volg mjólk
1 ½ dl hreint jógúrt (við stofuhita)
2 msk bráðið smjör eða matarolía

Aðferð:
Setjið gerið í skál með sykri og vatni. Hrærið þangað til gerið byrjar að leysast upp og setjið það á hlýjan stað í 15 mínútur eða þar til það fer að freyða. Sigtið hveiti og salt í stóra skál. Búið til holu í hveitið og hellið gerinu, mjólk, jógúrti og smjöri eða olíu út í. Blandið vel saman þar til deigið verður slétt. Þá má taka deigið upp úr og hnoða vel á borði (gott að setja smá hveiti undir) í um 10 mínútur eða þar til deigið verður mjúkt og teygjanlegt. Setjið deigið í skál, hyljið með plastfilmu og látið hefast á hlýjum stað í 1-1 ½ klst eða þar til deigið hefur tvöfaldast að stærð.
Setjið deigið svo á borð og hnoðið í nokkrar mínútur í viðbót. Skiptið deiginu í 6 hluta. Rúllið hverjum hluta út í kringlótta brauðhleifa. Raðið þeim á heita bökunarplötu og bakið í forhituðum ofni við 240°C í 10 mínútur. Penslið naan-brauðin með smjöri. Berið fram volg.

Gott er að bera réttinn fram með hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu!