20. desember
Piragi - Beikonfylltir hálfmánar
Síðastliðinn miðvikudag heimsóttum við Valdir sem býr í Lettlandi. Honum finnst gott að teikna þegar honum líður illa. Í glugga dagsins bíður okkar uppskrift frá Lettlandi. Um er að ræða beikonfyllta hálfmána, Piragi.
Beikonfylltur hálfmáni (Piragi)
450-500 grömm hveiti
2,5 dl mjólk eða vatn
25 gr ger eða 2 tsk þurrger
75 gr smjör, við stofuhita
25 gr sykur
1 tsk salt
1 egg
Fylling:
350 gr beikon skorið í bita
50 gr saxaður laukur
Pipar
Aðferð:
Hitið mjólkina/vatnið. Bætið gerinu út í og leyfið því aðeins að vakna. Blandið sykrinum, saltinu, egginu og smjörinu við. Bætið hveiti við og hnoðið. Látið deigið hefast í tæpan klukkutíma. Skiptið svo deiginu í 30 litla hluta. Rúllið hverjum bita fyrir sig í kúlu og leyfið henni að liggja í 15 mínútur. Steikið lauk og beikon á pönnu og piprið að vild. Pressið þá hverja deigkúlu fyrir sig og setjið fyllinguna í miðjuna. Svo er deigið togað yfir fyllinguna svo hálfmáni myndist og aðeins þjappað saman.
Hálfmánarnir eru svo settir á bökunarpappír, penslaðir með eggi og inn í ofn í 7-10 mínútur við 225 gráður (án blásturs). Fylgist vel með því ofnar geta verið mismunandi. Þegar hálfmánarnir eru bakaðir eru þeir teknir út og penslaðir með bræddu smjöri (má sleppa).
Verði ykkur að góðu!