Viðbótarstuðningur vegna neyðaraðgerða í Malaví
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa með stuðningi Utanríkisráðuneytisins veitt tæplega þriggja milljóna króna viðbótarfjármagn til SOS Barnaþorpanna í Malaví vegna náttúruhamfara. Fjármagninu verður varið í neyðaraðgerðir á verkefnasvæði okkar í Ngabu þar sem hitabeltisstormurinn Freddy gekk yfir í mars og olli manntjóni og gríðarlegri eyðileggingu.
Yfir þúsund manns fórust í hamförunum í suður Malaví, nærri 600 er saknað og um 660 þúsund manns misstu heimili sín og eru á vergangi. Um 2,3 milljónir manna, þar af 1,3 milljónir barna, hafa orðið fyrir einhverskonar tjóni svo sem skemmdum á húsnæði og hafa misst alla sína uppskeru sem ógnar fæðuöryggi fólksins.
Tjón á íslenska verkefnasvæðinu
Í Ngabu er starfrækt íslenskt verkefni í fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna og hafa margir skjólstæðingar þess farið illa út úr hamförunum. Fjölskylduefling SOS kemur í veg fyrir að börn verði foreldralaus. Við tökum fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð.
25% heimila í okkar verkefni hafa orðið fyrir tjóni. Hús hafa eyðilagst og fjölskyldur misst alla sína uppskeru. Liður í neyðaraðgerðum SOS á svæðinu er að tryggja matvælaöryggi og veita fjölskyldum fjárstuðning.
Annað áfallið á rúmu ári
Matvælaóöryggi var mikið fyrir á þeim svæðum þar sem Freddy fór yfir því þessi sömu héruð misstu alla uppskeru áður vegna fellibyls sem reið þar yfir í janúar á síðasta ári. Hér fyrir neðan má sjá brot úr sjónvarpsþættinum Rúrik og Jói í Malaví þar sem við heimsóttum verkefnasvæðið okkar í Ngabu, þremur dögum fyrir umræddan fellibyl í janúar 2022. Sama svæði og sama fólk varð svo fyrir fellibylnum Freddy nú í mars 2023.
Verkefni Íslands nær til yfir 15 þúsund barna
Íslenska fjölskyldueflingin í Ngabu nær beint til 1500 barna og ungmenna í 400 fjölskyldum sem fá ekki grunnþörfum sínum mætt vegna bágra aðstæðna foreldra þeirra eða forráðamanna. 15 þúsund skólabörn af 500 heimilum njóta einnig óbeint góðs af verkefninu sem styður við afar veikbyggða innviði samfélagsins.
Verkefni okkar í Ngabu er fjármagnað að stærstum hluta af Utanríkisráðuneytinu en einnig SOS-fjölskylduvinun, mánaðarlegum styrktaraðilum.
Viðbótarframlag SOS Barnaþorpanna á Íslandi og Utanríkisráðyneytisins til neyðaraðgerða SOS í Malaví nemur 19.000 evrum, tæpum þremur milljónum króna.
SOS fjölskylduvinur
Gerast SOS fjölskylduvinur
SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.