Fréttayfirlit 7. júní 2023

Umbætur hjá SOS í kjölfar rannsóknarskýrslu

Umbætur hjá SOS í kjölfar rannsóknarskýrslu

Árið 2021 greindum við frá því að niðurstöður tveggja óháðra rannsókna hafi leitt í ljós ýmsa misbresti í stjórnun SOS Barnaþorpanna á alþjóðavísu og í einstaka löndum. SOS Barnaþorpin á Íslandi áttu stóran þátt í því að afhjúpa þessi erfiðu mál, einkum sem snéru að vanrækslu og spillingu í efstu lögum samtakanna. Sjá frétt frá 2021.

Í kjölfar rannsóknanna árið 2021 var sett á laggirnar óháð rannsóknarnefnd sem falið var að rannsaka málin í kjölinn. Sú nefnd kallaði eftir ábendingum um brot hvort sem þau vörðuðu ofbeldi, misferli, spillingu, siðareglur eða önnur hugsanleg brot í starfsemi SOS.

Alþjóðaforsetinn og varaforsetinn létu af störfum og nýir voru kosnir í þeirra stað. Þá viku nokkrir háttsettir stjórnendur og alþjóðastjórn SOS var endurnýjuð að stórum hluta.

Nú hefur rannsóknarnefndin skilað sinni lokaskýrslu og er hún aðgengileg á vefsvæði nefndarinnar.

Nefndin staðfestir að mestu niðurstöður fyrri úttekta og rannsókna, en einnig staðfestir hún að miklar umbætur hafi átt sér stað á undanförnum tveimur árum og hrósar nýrri forystu sérstaklega fyrir það umbótastarf sem ráðist hefur verið í. Má þar nefna stofnun umboðsmanna barna í aðildarlöndunum, uppfærðar siðareglur, skýra aðgerðaáætlun til enn frekari umbóta og aukna fræðslu til bæði starfsfólks og skjólstæðinga.

Þrátt fyrir miklar umbætur er enn mikið verk óunnið. Næstu ár munu verða krefjandi fyrir yfirstjórn alþjóðasamtakanna, sem og öll aðildarlönd, enda viljum við og ætlum að vera í fararbroddi barnaverndarsamtaka á heimsvísu, þegar kemur að gæðum og heilindum.

SOS Barnaþorpin á Íslandi vilja þakka öllum styrktaraðilum sínum fyrir það traust og þann stuðning sem þeir hafa sýnt samtökunum á erfiðum tímum. Við ætlum áfram að vera í hópi þeirra aðildarfélaga sem mesta áherslu leggja á góða stjórnarhætti og fagmennsku og veita alþjóðlegum stjórnendum SOS aðhald. Skjólstæðingar okkar og styrktaraðilar eiga það skilið.

Nýlegar fréttir

Viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna í Marokkó
12. sep. 2023 Almennar fréttir

Viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna í Marokkó

Áhersla SOS Barnaþorpanna í framhaldi af hamförunum í Marokkó er á að hlúa að börnum og ungmennum sem hafa misst foreldra eða orðið viðskila við þá, vernda réttindi þeirra, halda fjölskyldum saman og ...

10 milljónir til Marokkó í kjölfar skjálfta
9. sep. 2023 Almennar fréttir

10 milljónir til Marokkó í kjölfar skjálfta

SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að senda að lágmarki 10 milljónir króna til neyðarastoðar í Marokkó vegna jarðskjálftans sem reið þar yfir föstudagskvöldið 8. september. Íslendingum gefst kostu...