Fréttayfirlit 23. desember 2019

Lopapeysurnar afhentar í Rúmeníu

Lopapeysurnar afhentar í Rúmeníu


Börnin, ungmennin, starfsfólkið og SOS mömmurnar í SOS barnaþorpinu í Hemeius í Rúmeníu réðu sér vart fyrir kæti þegar þau fengu afar veglega gjöf frá Íslandi nú skömmu fyrir jól. 57 lopapeysur sem Guðrún Kristinsdóttir á Húsavík prjónaði fyrir alla í barnaþorpinu voru afhendar með viðhöfn á ungmennaheimili barnaþorpsins.

Ungmennin opnuðu kassana með peysunum þar sem einnig blöstu við myndabók um Húsavík og nágrenni, bréf frá Guðrúnu og þvottaleiðbeiningar fyrir lopapeysurnar. Cosmina, SOS dóttir Guðrúnar, býr einnig á ungmennaheimilinu en hún gat ekki verið viðstödd úthlutunina vegna vinnu. Hún hefur nú fengið sína peysu afhenda og yngstu börnin líka.

SOS Barnaþorpin í Rúmeníu útveguðu SOS á Íslandi stærðarnúmer allra barna, ungmenna, SOS-mæðra og starfsfólks í barnaþorpinu og allir voru hæstánægðir. Fyrstu úthlutanirnar fóru fram á tveimur heimilinum á ungmennasvæðinu og eru meðfylgjandi myndir þaðan. Þegar allir voru komnir í peysur fóru ungmennin út í garð að skreyta jólatré og daginn eftir var farið í peysunum á skautasvell.

Ungmennin eru nýflutt í nýtt húsnæði í borginni Bacau skammt frá þar sem aðstæður eru mun betri en á gamla staðnum. Á ungmennaheimilinu búa táningar sem hafa alist upp í barnaþorpinu en eru nú að búa sig undir fullorðinsárin og að standa á eigin fótum. Þau fá aukna ábyrgð og hugsa meira um sig sjálf.

SOS Barnaþorpin vilja færa DHL á Íslandi innilegar þakkir fyrir að veita samtökunum ríflegan afslátt af sendingargjaldinu fyrir lopapeysurnar.

Fjallað var um afhendinguna í fréttum Ríkissjónvarpsins.

Nýlegar fréttir

Skrifstofan opnar aftur
2. nóv. 2025 Almennar fréttir

Skrifstofan opnar aftur

Skrifstofa SOS Barnaþorpanna í Hamraborg 1 í Kópavogi opnar aftur mánudaginn 3. nóvember. Reykskemmdir urðu á skrifstofu okkar af völdum eldsvoða í byggingunni og þurftum við af þeim völdum að loka sk...

39 þolendur fengu stuðning og sex gerendur voru kærðir
22. okt. 2025 Almennar fréttir

39 þolendur fengu stuðning og sex gerendur voru kærðir

Verkefni SOS Barnaþorpanna í Tógó sem fjármagnað er af Íslendingum, „Efling baráttunnar gegn kynferðislegri misnotkun á börnum í Ogou-héraði“, hefur skilað áþreifanlegum árangri. 39 þolendur fengu stu...