Skólasókn barna í Malaví hefur aukist um 227%

Fjölskylduefling okkar í Malaví hefur gengið vonum framar og barnafjölskyldur í viðkvæmri stöðu hafa orðið sjálfbjarga í meira mæli en væntingar stóðu til um. Þetta er niðurstaða óháðrar úttektar sem framkvæmd var fyrir utanríkisráðuneytið á verkefninu okkar sem unnið er í bæjarfélaginu Ngabu í Chikawawa héraði í suðurhluta Malaví.
Verkefnið hófst árið 2022 og á því að ljúka í lok þessa árs, 2025. Það snýst meðal annars um að veita börnum og ungmennum umönnun og vernd, bæta aðgengi þeirra að menntun og styðja samfélög í að veita þessum börnum og ungmennum viðunandi bakland. Lokamarkmið fjölskyldueflingar SOS er að halda fjölskyldum saman svo börn standi ekki eftir ein og yfirgefin.
Þetta myndskeið frá verkefnasvæðinu okkar í Ngabu er í sjónvarpsþættinum Rúrik og Jói í Malaví frá árinu 2022.
Skólasókn jókst um 227%
Um 320 foreldrar og aðrir umönnunaraðilar fengu þjálfun í jákvæðu foreldrahlutverki og 93,3% þeirra beita nýrri þekkingu til að bæta umönnun og vernd barna. Umtalsverður árangur hefur náðst við að bæta aðgengi að menntun fyrir börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu enda jókst skólasókn á verkefnasvæðinu úr 296 við upphaf verkefnis árið 2022 í 969 nemendur árið 2024. Það gerir 227% aukningu á skólasókn barnanna frá því að þetta íslenska verkefni hófst í Ngabu.
Framlag SOS Barnaþorpanna rímar enn fremur vel við annan stuðning Íslands í Malaví en landið er eitt það fátækasta í álfunni. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra
„Það er ánægjulegt að sjá haldbæran árangur í verkefninu þrátt fyrir áföll á borð við fellibylinn Freddy sem dunið hafa yfir á verkefnatímanum. Framlag SOS Barnaþorpanna rímar enn fremur vel við annan stuðning Íslands í Malaví en landið er eitt það fátækasta í álfunni. Aukinn viðnámsþróttur og sjálfbærni er algjört lykilatriði í verkefnum sem styðja við viðkvæma hópa,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Sjá einnig:

Spornað við snemmbærum hjónaböndum og ofbeldi gegn börnum
Fjallað er um úttektina á vef utanráðuneytisins og þar kemur m.a. fram að verkefnið sé metið sjálfbært og líkur á því að jákvæð áhrif þess muni vara áfram. Fjölskyldueflingin hefur gengið vonum framar þegar kemur að því að auka viðnámsþrótt samfélaga, bæði hvað varðar náttúruhamfarir eða efnahagsleg áföll. Alls hafa 322 fjölskyldur notið góðs af smálánaáætlun, geitabúskap, skógrækt og ræktunar korns af ýmsu tagi.
Tvö staðbundin grasrótarsamtök fengu þjálfun í vernd barna og var hlutverk barnaverndanefnda og mæðrahópa styrkt í því hlutverki að fara með mál sem varða snemmbær hjónabönd og ofbeldi gegn börnum. Samfélög eru því betur í stakk búin að fást við ofbeldismál, þó enn sé þörf á aukinni þjálfun í meðferð mála og kærum til yfirvalda.

SOS-fjölskylduvinir og Utanríkisráðuneytið
Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna í Malaví er fjármögnuð af SOS Barnaþorpunum á Íslandi. Það er gert að stærstum hluta með stuðningi Utanríkisráðuneytisins og er sá stuðningur hluti af opinberri þróunaraðstoð Íslands.
SOS Barnaþorpin á Íslandi greiða mótfamlag til verkefnisins og er það fjármagnað með stuðningi íslensku styrktaraðilanna SOS-fjölskyldvina.
SOS fjölskylduvinur
SOS fjölskylduvinur

SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.