Rúrik heimsótti fjölskyldueflingu í Malaví
Rúrik Gíslason kynnti sér nýtt fjölskyldueflingarverkefni sem SOS Barnaþorpin á Íslandi standa að í Malaví á ferð sinni þangað fyrr á árinu. Rúrik er einn af velgjörðasendiherrum SOS á Íslandi og heimsótti styrktarbarn sitt í SOS barnaþorpið í Ngabu í suður Malaví. Skammt frá barnaþorpinu er íbúabyggð þar sem SOS Barnaþorpin á Íslandi starfrækja fjölskyldueflingu sem Rúrik var sérstaklega heillaður af.
„Það er mjög þarft verkefni að hjálpa þessum fjölskyldum. Það var alveg ótrúleg upplifun að heimsækja þetta fátæka svæði í Ngabu. Það sem mér fannst magnaðast af öllu er að sama hversu bágt fólki átt, þá var alltaf gleði í andlitum. Kannski vita þau ekki hvers þau fara á mis við í lífsgæðum. Það er ótrúlegt að sjá við hvaða aðstæður fólk býr þarna. T.d. að þurfa að ganga marga kílómetra á dag eftir vatni. Ég prófaði að bera vatnið sem konurnar bera á höfðinu og það var ekkert grín. Og ég er hraustur karlmaður. Fjölskyldueflingin er mjög flott verkefni,” segir Rúrik.
Meðfylgjandi er myndbrot úr sjónvarpsþættinum Rúrik og Jói í Malaví frá heimsókninni á verkefnasvæði fjölskyldueflingar okkar í Ngabu.
Hætta að líta á sig sem manneskju
Rúrik segir að ferðin hafi að vissu leyti breytt sýn sinni á lífið. „Fólkið þarna er á öðrum hraða en við heima á Íslandi. Við erum alltaf á öðru hundraðinu, að stressa okkur og ætla okkur of mikið. Við erum líka að pirra okkur á hlutum sem í raun skipta engu máli í stóra samhenginu.”
Þegar þú lifir í sárri fátækt hættir fólk að líta á þig sem manneskju. Að lokum hættirðu sjálfur að líta á þig sem manneskju og gefst upp. Þessi fleygu orð sagði framkvæmdastjóri SOS barnaþorpsins í Ngabu. Malaví er eitt af fátækustu löndum heims, í 172. sæti af 182 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Rúrik var að koma til Afríku í fyrsta sinn og hann viðurkennir að þessi heimsókn hafi komið honum gjörsamlega í opna skjöldu. „Menningarsjokkið var mikið. Ég hef séð myndir frá Afríku en að koma þangað og sjá aðstæðurnar sem fólk býr við gerði mig orðlausan."
Sjá líka: Rúrik: Þessi ferð gerði mig eiginlega orðlausan
Kemur í veg fyrir sundrungu í fjölskyldum
SOS Barnaþorpin starfrækja 620 slík forvarnarverkefni um allan heim og ber SOS á Íslandi ábyrgð á þremur þeirra. Markmið fjölskyldueflingar SOS er að hjálpa illa stöddum barnafjölskyldum á fátækustu svæðum heims til sjálfbærni og sjálfstæðis. Fjölskylduefling SOS verður til þess að börnin fá grunnþörfum sínum mætt svo þau verði ekki vanrækt og yfirgefin. Þessi verkefni hafa forðað fjölmörgum illa stöddum barnafjölskyldum frá sundrungu.
Myndir: Jón Ragnar Jónsson
Viðtal: Hans Steinar Bjarnason
Hér fyrir neðan má sjá sjónvarpsþáttinn, Rúrik og Jói í Malaví.
SOS fjölskylduvinur
Gerast SOS fjölskylduvinur
SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.