Fréttayfirlit 19. september 2021

Fyrstu fjölskyldurnar útskrifaðar í Eþíópíu

Fyrstu fjölskyldurnar útskrifaðar í Eþíópíu

Á Tullu Moye svæðinu í Eþíópíu hjálpum við 560 foreldrum og 1562 börnum þeirra að komast upp fyrir fátæktarmörk með SOS-fjölskyldueflingu. Markmiðið er að þessar barnafjölskyldur geti staðið á eigin fótum. Þannig drögum við úr hættunni á aðskilnaði og eflum foreldrana svo þeir geti hugsað um börnin og þau stundað nám.

Fyrstu fjölskyldurnar útskrifaðar

Við hjá SOS á Íslandi sinnum eftirliti með verkefninu og upplýsum SOS-fjölskylduvini reglulega um framgang þess svo þeir geti kynnt sér hvernig framlagið þeirra gerir gagn. Það er okkur því mikil ánægja að geta tilkynnt að fyrstu 50 fjölskyldurnar útskrifuðust úr fjölskyldueflingunni á fyrri hluta þessa árs. Nánar tiltekið 51 fjölskylda af þessum 560 getur nú framfleytt sér án aðstoðar fjölskyldueflingarinnar. 160 fjölskyldur til viðbótar eru að undirgangast lokamat fyrir útskrift í lok október. Þessi árangur er framar vonum og í raun örlítið óvæntur í ljósi þess bakslags sem varð vegna Covid-19.

Skólahald lá niðri í 10 mánuði

Vegna heimsfaraldursins féll skólahald niður í 10 mánuði og eiga áhrif þess eftir að koma í ljós. Nemendur í skólum á svæðinu voru færðir upp um bekki án þess að taka lokapróf. Fleiri áskoranir bíða handan við hornið því verðlag heldur áfram að hækka sem undirstrikar mikilvægi þess að verkefnið var framlengt. Á móti hafa gæði menntunar aukist mikið á skömmum tíma undanfarið og samrýmist það markmiðum verkefnisins.

Samfélagsleg arðsemi

Þetta hefur ekki bara jákvæð áhrif á skjólstæðinga okkar því börn og ungmenni á öllu svæðinu sækja skólana sem SOS hefur verið að efla. Samfélagsleg arðsemi verkefnisins er því mikil og eins og við höfum áður greint frá 66-faldast framlög frá Íslandi á þessu svæði í Eþíópíu. Þá höfum við sífellt verið að auka og auðvelda aðgengi að neysluvatni á svæðinu.

Vaxtalaus lán

Lánastarfsemi er mikilvægur liður í fjölskyldueflinunni. Foreldrarnir geta tekið vaxtalaus lán, fengið fjármálaráðjöf, lært að spara, borga af lánunum og fengið aðstoð við bókhald og fjármálaáætlanir, t.d. til að setja á laggirnar lítinn rekstur. Með þessu móti hefur okkur tekist að hjálpa fjölskyldunum að afla sér aukinna tekna og með tímanum að standa á eigin fótum. Ákveðið var að efla þessa þjónustu til muna á árinu, m.a. með aukinni þjálfun starfsfólks.

Tullu Moye er nefni yfir smábæinn Iteya og nágrenni sem þú getur skoðað á Google maps hér. Framlög ykkar SOS-fjölskylduvina á Íslandi fjármagna 20% af verkefninu en 80% eru styrkt af Utanríkisráðuneytinu.

Framlengt um tvö ár

Fjölskyldueflingin okkar í Eþíópíu var sett á laggirnar á fyrri hluta árs 2018 og átti því að ljúka nú í loks árs 2021. Nú á dögunum var tekin ákvörðun um að framlengja verkefnið um tvö ár eða út desember 2023 til að hámarka árangurinn. Hætt er við að mikil vinna og árangur hefðu farið í súginn ef við hefðum látið staðar numið nú í árslok. Þrátt fyrir bakslag vegna Covid-19 náðu fjölskurnar að jafna sig hraðar en útlit var fyrir í fyrstu. 

Styrkur Utanríkisráðuneytisins fyrir framlengingunni er um 44,5 milljónir króna en mótframlag SOS á Íslandi er rúmar 11 milljónir króna og er sá hlutur fjármagnaður með framlögum ykkar fjölskulduvina.

Allar helstu fréttir og sögur af skjólstæðingum fjölskyldueflingar okkar í Eþíópíu má finna á sérstöku fjölskylduvinasvæði hér á heimasíðunni.

SOS fjölskylduvinur

Gerast SOS fjölskylduvinur

SOS fjölskylduvinur

SOS-fjölskylduvinir styrkja fjölskyldueflingu SOS. Sem SOS-fjölskylduvinur kemurðu í veg fyrir að börn verði vanrækt og yfirgefin. Í fjölskyldueflingu SOS tökum við fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Þú ákveður styrktarupphæðina og færð reglulega uppýsingapóst um verkefnin sem við fjármögnum.

Mánaðarlegt framlag
1.500 kr 2.500 kr 5.000 kr 7.500 kr