Áður var vonleysi en nú er von
Verkefnisstjóri í fjölskyldueflingunni í Eþíópíu, sem SOS á Íslandi fjármagnar, segir að barnafjölskyldurnar sem við hjálpum í verkefninu sjái nú von eftir að hafa áður upplifað vonleysi. Mikil breyting hefur orðið á lífi fólksins og það sér fram á bjartari framtíð.
Á svæðinu Tullu Moye/Iteya í Eþíópíu eru SOS Barnaþorpin á Íslandi með þróunaraðstoð sem heitir SOS-fjölskylduefling. Þar hjálpum við 560 foreldrum og 1562 börnum þeirra að komast upp fyrir fátæktarmörk með því markmiði að þessar barnafjölskyldur geti staðið á eigin fótum. Þannig drögum við úr hættunni á aðskilnaði og eflum foreldrana svo þeir geti hugsað um börnin og þau stundað nám.
Þökk sé framlögunum frá Íslandi
Verkefnið hófst snemma árs 2018 og átti því að ljúka í lok þessa árs en það hefur nú verið framlengt til loka árs 2023. Tadesse Abebe stýrir þessu verkefni á staðnum og í þessu viðtali lýsir hann því hvernig stuðningurinn frá Íslandi hefur hjálpað barnafjölskyldum upp úr sárafátækt.
„Við höfum séð mikla breytingu á lífi barnanna og foreldra þeirra. Fjölskyldurnar sem búa undir fátæktarmörkum eru að tileinka sér breytt hugarfar og nýtt líf með öllum þeim úrræðum sem í boði eru. Margt fólk sem upplifði algert vonleysi er nú að upplifa von. Börnin sem áður gátu ekki farið í skóla eru nú byrjuð í skóla. Skólana skorti áður alla nauðsynlega innviði en ekki lengur. Allir nauðsynlegir innviðir eru nú til staðar, s.s. þjálfun, allt þetta hefur verið hægt að uppfylla, þökk sé framlögunum frá Íslandi."
Tadesse bætir við að margir foreldrar sjái nú fram á bjarta framtíð vegna fjölskylduflingarinnar. „Við sjáum t.d. að margir sem voru ekki að leggja fé til hliðar, hafa nú tileinkað sér þá venju að spara. Og foreldrar sem kunnu ekki að veita börnum sínum jákvætt uppeldi hafa nú tileinkað sér betri uppeldisaðferðir. Mér finnst þessir þættir og aðrir hafa verið að breytast," segir Tadesse.
Viðtal: Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS. Tekið í vettvangsferð til Iteya í febrúar 2020 en birt hér á heimasíðunni í september 2021.
Utanríkisráðuneytið styrkir 80% af kostnaði fjölskyldueflingarinnar í Eþíópíu en SOS-fjölskylduvinir 20%.
Nýlegar fréttir
SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.