270 fjölskyldur lausar úr viðjum fátæktar
270 barnafjölskyldur í Eþíópíu sem voru ósjálfbjarga í sárafátækt fyrir fjórum árum eru nú í lok árs 2022 útskrifaðar úr fjölskyldueflingu SOS og farnar að standa á eigin fótum, þökk sé stuðningi frá Íslandi. Þetta er afrakstur fjölskyldueflingar SOS sem fjármögnuð er af okkur Íslendingum.
Verkefnasvæðið er í bænum Eteya og nágrenni sem nefnt er Tulu-Moye. Verkefnið hófst árið 2018 og á að ljúka í lok árs 2023. Ósjálfbjarga fjölskyldur í sárafátækt voru valdar af verkefnastjórn á staðnum, alls 566 foreldrar og 1611 börn. 270 fjölskyldur eru útskrifaðar og stefnt er að 360 fjölskyldur með 900 börnum verði í heildina útskrifaðar fyrir verkefnislok í lok árs 2023.
Samfélagslegt stuðningsnet
Foreldrarnir eru umvafðir víðtæku samfélagslegu stuðningsneti sem gerir það að verkum að þeir fara að afla sér tekna og fjölskyldurnar verða sjálfbærar. Börnin fá því grunnþörfum sínum mætt og þau geta haldið áfram námi. Foreldrarnir hafa tileinkað sér heilbrigðar uppeldisaðferðir með því að sækja námskeið þar að lútandi og hefur vitund foreldra stóraukist um öryggi og vernd barna.
Vítahringurinn rofinn
Þetta er einmitt lykillinn að framtíðinni fyrir börnin, að þau geti búið áfram hjá foreldrum sínum og stundað nám. Það er svona sem við rjúfum vítahring sárafátæktar, að vera til staðar fyrir þessar fjölskyldur og fylgjast með þeim taka framtíðina í sínar hendur, fara að afla sér tekna og verða sjálfbærar. Þetta eru mikil gleðitíðindi.
Eflir líka nærsamfélagið
Verkefnið eflir ekki bara fjölskyldurnar sem í því eru heldur líka innviðina í nærsamfélaginu. Opnaður var leikskóli sem nýtist 223 börnum foreldra í krefjandi aðstæðum og börn í fátækum fjölskyldum fengu námsgögn. Fjölskyldueflingin stóð af sér Covid-19 og náði að lágmarka áhrif faraldursins á fjölskyldurnar á svæðinu.
Verðbólga hægir á árangri
En erfiðar áskoranir blasa líka við fólkinu. Há verðbólga er í Eþíópíu sem hefur hægt á árangri verkefnisins. Stríðið í Úkraínu og þurrkar á Horni Afríku hafa þar mikil áhrif. Stjórnlausar verðhækkanir eru á nauðsynjavöru svo SOS hefur veitt mataraðstoð og brugðist við vannæringu barna. Lánastofnanir fjölskyldueflingarinnar veita vaxtalaus lán en verðbólgan hefur gert foreldrunum erfitt fyrir með sparnað sem seinkar endurgreiðslu lánanna. Fólkið fær þó áfram stuðning frá lánafyrirtækjunum.
Fjölskylduefling SOS í Eteya og Tylu-Moye er fjármögnuð af SOS Barnaþorpunum á Íslandi með stuðningi SOS-fjölskylduvina og Utanríkisráðuneytisins.
Nýlegar fréttir
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.
Yfir 19 milljónir barna í Súdan ganga ekki í skóla
Framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Súdan segir neyðarástandið í landinu eiga eftir að skilja eftir ör á sál landsmanna. Milljónir eru á flótta vegna borgarastríðs og daglega verða yfir hundrað manns...