Fréttayfirlit 12. júlí 2016

Ungmenni sameinast leiðtogum heimsins til að binda enda á ofbeldi gegn börnum

Í dag tóku börn þátt í opnun nýs samstarfs í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Samstarfið ber titilinn Alþjóðlasamstarf til að enda ofbeldi gegn börnum (e. Global Partnership to End Violence Against Children) og sameinar ríkisstjórnir, stofnanir, Sameinuðu þjóðirnar, borgarasamfélag, háskólasamfélag, einkageirann og ungmenni. Markmiðið er að knýja fram átak til að ná heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að enda misnotkun, mansal og öll form af ofbeldi og pyndingum gegn börnum fyrir árið 2030.

„Á hverjum degi, í öllum löndum og samfélögum, eru börn fórnarlömb ofbeldis og allt of oft er þaðofbeldi viðurkennt sem eðlilegt, leyfilegt eða sem einkamál,“ sagði Susan Bissell, framkvæmdastjóri alþjóðasamstarfsins.  „Ofbeldi gegn börnum er ekki óhjákvæmilegt, en við þurfum að krefjast breytinga á því ríkjandi ástandi sem skaðar líf og framtíð svo margra barna. Öll börn hafa rétt á að vera frjáls frá ofbeldi í uppeldi sínu og við þurfum öll að vinna saman til að gera það að veruleika.“

Samkvæmt Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna urðu milljarður barna á heimsvísu fyrir líkamlegu, kynferðislegu eða andlegu ofbeldi á árinu 2015. Eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum er þolandi líkamlegs ofbeldis. Nánast ein af hverjum fimm stúlkum verður fyrir kynferðislegu ofbeldi að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Á hverjum fimm mínútum deyr barn vegna ofbeldis.

„Ofbeldi gegn börnum er vandamál sem finna má í öllum samfélögum þannig að lausninni verða samfélög einnig að deila,“ sagði Anthony Lake sem situr í stjórn Alþjóðasamstarfsins. „Þegar við verndum börn frá ofbeldi erum við ekki aðeins að hindra einstaka tilfelli og styðja þroska og vöxt barna. Við erum einnig að styðja við styrk og stöðugleika samfélaga þeirra.“

Á opnunarviðburðinum skuldbundu stjórnvöld Svíþjóðar, Mexíkó, Indónesíu og Tansaníu sig til að þróa áætlanir sem munu berjast gegn ofbeldi á börnum. Áætlanirnar fela í sér að takast á við hegðun og hefðir sem styðja við ofbeldi, gera skóla og stofnanir öruggar fyrir börn og styrkja gagnaöflun um ofbeldi gegn börnum.

Einnig var gjafasjóður fjölda ríkja stofnaður til stuðnings við verkefni er stuðla að aðgerðum í málefninu. Gjafasjóðurinn var stofnaður í samstarfi við WePROTECT, alþjóðasamstarf til að binda enda á kynferðislegri misnotkun á börnum á netinu, og Bretland mun verja 40 milljónir punda sérstaklega í það málefni. Að auki stofnaði Alþjóðasamstarfið sjö stefnuliði að nafni INSPIRE sem vinna gegn ofbeldi á börnum. Stefnuliðirnir fela í sér stuðningsverkefni við foreldra og forráðamenn, þjálfun í lífskunnáttu, framkvæmd og framfylgd laga og þjónustu við þolendur ofbeldis. Stefnuliðirnir voru stofnaðir í samstarfi við fjölda stofnanna og eru byggðir á margra ára rannsóknum.

Hægt er að skoða samstarfið á heimasíðu þess, end-violence.org/.

 

Nýlegar fréttir

Bersýnilegur árangur af íslensku verkefni fyrir þolendur í Tógó
26. feb. 2024 Almennar fréttir

Bersýnilegur árangur af íslensku verkefni fyrir þolendur í Tógó

Bersýnilegur árangur hefur náðst í íslensku verkefni gegn kynferðislegri misnotkun á börnum í Tógó. Verk­efn­ið hef­ur náð til 257 stúlkna sem eru þo­lend­ur kyn­ferð­is­brota, fjölgað slíkum málum á ...

Fékkstu sím­tal frá SOS?
20. feb. 2024 Almennar fréttir

Fékkstu sím­tal frá SOS?

Nú í febrúar 2024 eru SOS Barnaþorpin á Íslandi að hringja í fólk og óska eftir stuðningi við neyðaraðgerðir samtakanna á Gaza í Palestínu. Haf­ir þú hins veg­ar feng­ið sím­tal „frá okk­ur" sem þér f...