Súdanir eygja von í mestu mannúðarkrísu í heimi

Rúm tvö ár eru liðin síðan borgarastyrjöld braust út í Súdan. Milljónir fjölskyldna eru enn á vergangi og lifa við erfiðar og ótryggar aðstæður. Þær hafa verið hraktar frá heimilum sínum og glíma við takmarkað aðgengi að mat, hreinu vatni, heilbrigðisþjónustu og menntun.
Eins og ávalt í stríðsátökum eru börn meðal þeirra verst settu — mörg þeirra hafa nú eytt tveimur árum æsku sinnar á vergangi, svipt öryggi, stöðugleika og skólagöngu. SOS Barnaþorpin á Íslandi sendu 15 milljónir króna til neyðaraðgerða SOS í Súdan í haust. Fjölmargir Íslendingar hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar í því samhengi með því að gerast SOS-neyðarvinir.
RÚV: Mesta mannúðarkrísa í heimi í Súdan
Sneru aftur heim með aðstoð SOS
Til að bregðast við þessari langvinnu krísu hafa SOS Barnaþorpin í Súdan, í nánu samstarfi við velferðaryfirvöld í Rauðahafs-fylki, aðstoðað 510 einstaklinga á vergangi, börn þeirra á meðal, við að snúa aftur heim til sín. Þótt átök haldi áfram í sumum hlutum Súdan, hefur borgin Wad Madani — þangað sem fjölskyldurnar snúa aftur — verið lýst örugg.
„Fyrir margar þessara fjölskyldna var lífið á vergangi ákaflega erfitt,“ segir Limia Ahmed, aðstoðarframkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Súdan. „Þau höfðu búið í yfirfullum neyðarskýlum eða tímabundnum búðum í meira en ár, þar sem börn þeirra voru stöðugt í hættu og kvíðin fyrir framtíðinni. Með því að hjálpa fjölskyldunum að snúa heim til sín aftur á öruggan hátt erum við ekki aðeins að endurvekja vonir þeirra heldur einnig að halda fjölskyldum saman. Nærvera foreldra er mikilvægasta vörn barnsins.“

Viðkvæmt ástand við heimkomu
Þrátt fyrir að öryggi hafi aukist í sumum hlutum Al Jazirah-fylkis og gert sjálfviljuga endurkomu mögulega, eru margar hindranir eftir. Félagsleg kerfi í Súdan hafa orðið fyrir miklum skaða í átökunum. Heilbrigðisþjónusta, skólar og atvinnumöguleikar hafa lamast og heimkomnar fjölskyldur þurfa að byrja upp á nýtt.
„Það er enn langt í land fyrir þessar fjölskyldur,“ segir Ahmed. „Mörg svæði skortir grunnþjónustu og félagslegt öryggiskerfi landsins er annaðhvort rofið eða virkar ekki. Fjölskyldurnar reiða sig að miklu leyti á mannúðaraðstoð og samhug samfélagsins,“ bætir hún við.
Stærsta flóttakreppa heims
Þessi heimflutningur fólksins á sér stað í skugga stærstu flóttakreppu heims sem íbúar Súdan glíma við um þessar mundir. Yfir 12 milljónir manna hafa verið hraktar frá heimilum sínum. Þó að heimflutningar þessa fámenna hóps til Al Jazirah séu vísbending um von, er heildarmyndin enn mjög óstöðug.
Sum svæði í Súdan eru farin að upplifa stöðugleika, sem gerir fáum fjölskyldum kleift að snúa sjálfviljugar heim. En fyrir milljónir annarra er það enn ekki mögulegt. Við verðum að muna eftir þeim. Limia Ahmed, aðstoðarframkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Súdan.
SOS Barnaþorpin hvetja alþjóðasamfélagið eindregið til að auka fjárstuðning og aðstoð til mannúðarstarfs í Súdan — ekki aðeins til að bregðast við bráðaþörfum heldur einnig til að fjárfesta í langtímaviðspyrnu og friðaruppbyggingu.
„Endurflutningur þessara 510 einstaklinga sýnir hvað er hægt þegar mannúðarsamtök, stjórnvöld og samfélög vinna saman,“ segir Ahmed. „En þetta er aðeins byrjunin. Börn í Súdan eiga rétt á meiru en að lifa af — þau eiga rétt á framtíð sem byggist á öryggi, menntun og tækifærum,“ bætir hún við að lokum.
Sjá einnig:
SOS neyðarvinur
SOS neyðarvinur

SOS Neyðarvinir styrkja neyðaraðgerðir SOS fyrir börn og fjölskyldur þeirra í stríði og á öðrum hamfarasvæðum. Neyðaraðgerðir sem SOS á Íslandi tekur nú þátt í að fjármagna eru í Palestínu, Líbanon Úkraínu og Súdan. Ef þú vilt velja eitt þeirra landa til að styrkja skrifar þú nafn landsins í athugasemdadálkinn hér neðar. Þú getur annað hvort gefið stakt framlag eða gerst mánaðarlegur neyðarvinur.