SOS ungmenni lætur lífið
Sá hræðilegi atburður átti sér stað í höfuðborg Búrúndí, Bujumbura, þann 22. maí síðastliðinn að SOS ungmenni lést í sprengingu.
Naila Kamariza var tuttugu og fjögurra ára. Hún ólst upp í SOS Barnaþorpinu í Muyinga áður en hún flutti að heiman og fór í háskóla. Hún stundaði nám við Háskólann Great Lakes í Bujumbura og var enn á framfærslu SOS Barnaþorpanna. Naila var stödd á markaði ásamt vinkonu sinni sem ólst upp í sama barnaþorpi, þegar óþekktir aðilar vörpuðu handsprengjum á markaðinn. Naila var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést af sárum sínum. Vinkona hennar slasaðist alvarlega en er á batavegi.
Naila var munaðarlaus þegar hún eignaðist nýtt heimili í SOS Barnaþorpinu og var hún ekki í neinu sambandi við líffræðilega ættingja. Hún var hins vegar í góðu sambandi við SOS fjölskyldu sína sem syrgir hana og er í miklu áfalli vegna atburðarins.
Síðustu vikur hafa mótmæli staðið yfir í Búrúndí sem hafa kostað yfir tuttugu mannslíf. Mótmælin hófust þegar Pierre Nkurunziza forseti landsins ákvað í apríl að bjóða sig fram í þriðja sinn en deilt er um hvort hann hafi til þess lagalegan rétt. Líklegt þykir að sprengingin tengist mótmælunum með einhverjum hætti.
SOS á Íslandi senda samúðarkveðjur til aðstandenda Nailu í Búrúndí.
Nýlegar fréttir

Viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna í Marokkó
Áhersla SOS Barnaþorpanna í framhaldi af hamförunum í Marokkó er á að hlúa að börnum og ungmennum sem hafa misst foreldra eða orðið viðskila við þá, vernda réttindi þeirra, halda fjölskyldum saman og ...

10 milljónir til Marokkó í kjölfar skjálfta
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ákveðið að senda að lágmarki 10 milljónir króna til neyðarastoðar í Marokkó vegna jarðskjálftans sem reið þar yfir föstudagskvöldið 8. september. Íslendingum gefst kostu...