Fréttayfirlit 28. maí 2018

SOS Barnaþorpin á Íslandi leita að fræðslufulltrúa

SOS Barnaþorpin á Íslandi auglýsa nú til umsóknar starf fræðslufulltrúa í 50% starf. Við leitum að öflugum einstaklingi í sterka liðsheild á skrifstofu okkar í Kópavogi. Við eigum í góðu samstarfi við fjölda leik- og grunnskóla auk þess að vera með ungmennaráð sem fundar reglulega og kemur að kynningum, fjáröflunum o.fl. Fræðslufulltrúi heldur utan um þennan hluta starfseminnar í hálfu starfi.

Helstu verkefni:

  • Samstarf við leikskóla. Fræðslufulltrúi heldur utan um verkefnið Sólblómaleikskólar. Í því felst að afla efnis, útbúa, þýða og staðfæra fræðsluefni, halda utan um öll samskipti við leikskóla og bjóða fleiri leikskólum að slást í hóp Sólblómaleikskóla. Þá skipuleggur fræðslufulltrúi svokallaða sólblómahátíð einu sinni á ári þar sem Sólblómaleikskólar koma saman til uppskeruhátíðar. Fræðslufulltrúi á í samskiptum við systursamtök SOS í öðrum löndum vegna þessa verkefnis.
  • Samstarf við grunnskóla. Fræðslufulltrúi heldur utan um samskipti við grunnskóla. Samstarfið felst einkum í utanumhaldi á Öðruvísi jóladagatali þar sem grunnskólum býðst að fá fræðsluefni frá SOS á aðventunni. Fræðslufulltrúi sér um að útbúa, þýða og staðfæra efni fyrir skólana. Fræðslufulltrúi á í samskiptum við systursamtök SOS í öðrum löndum vegna þessa verkefnis.
  • Framhaldsskólar. Fræðslufulltrúi heldur utan um ungmennaráð SOS sem heldur reglulega fundi og stendur fyrir kynningum, fjáröflunum og viðburðum.
  • Þá sinnir fræðslufulltrúi kynningum í skólum eftir þörfum í samráði við upplýsingafulltrúa.

Hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun og/eða reynsla sem nýtist í starfinu. Hér kemur sér sérstaklega vel að hafa starfað í skólastofnun eða annars staðar með börnum og ungmennum.
  • Framúrskarandi íslensku- og enskukunnátta. Norðurlandamál kemur sér einnig vel. Fræðslufulltrúi þarf að geta komið frá sér rituðu efni á mjög góðri íslensku ásamt því að þurfa að þýða efni úr öðru tungumáli (t.d. norsku eða ensku) ásamt því að eiga í samskiptum við systursamtök SOS í öðrum löndum.
  • Öguð vinnubrögð, skipulagshæfni, frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt. Fræðslufulltrúi starfar undir stjórn framkvæmdastjóra en vinnur mikið sjálfstætt og þarf því að skipuleggja sig vel og vera vinnusamur. Þá er mikið svigrúm til frumkvæðis og nýrra hugmynda í samstarfi við skóla.

Starfshlutfall er 50% og vinnutími er sveigjanlegur. Fræðslufulltrúi hefur vinnuaðstöðu á skrifstofu samtakanna við Hamraborg 1 í Kópavogi.

Nánari upplýsingar hjá framkvæmdastjóra Ragnari Schram í síma 564 2910.

Umsóknir sendist á netfangið umsokn@sos.is fyrir lok maí 2018.

SOS Barnaþorpin eru alþjóðleg hjálparsamtök sem hafa séð munaðarlausum og yfirgefnum börnum um allan heim fyrir fjölskyldu og heimili síðan 1949. Auk þess hjálpa samtökin fátækum barnafjölskyldum til sjálfshjálpar, sinna neyðaraðstoð o.fl. Starfsemi samtakanna á Íslandi miðar að því að afla styrktaraðila fyrir hjálparstarf samtakanna í yfir 100 löndum í Mið- og S-Ameríku, Afríku, Asíu og A-Evrópu. Einnig er þjónusta við styrktaraðila stór og mikilvægur þáttur í starfseminni hér á landi.

Nýlegar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS
15. maí 2024 Almennar fréttir

Ingibjörg og Anna Bjarney kjörnar í stjórn SOS

Aðalfundur SOS Barnaþorpanna á Íslandi var haldinn mánudaginn 13. maí og urðu þá breytingar á stjórn samtakanna. Ingibjörg E. Garðarsdóttir og Anna Bjarney Sigurðardóttir voru kjörnar í stjórnina til ...

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn
14. maí 2024 Almennar fréttir

SOS eru einu samtökin eftir á Gaza sem taka að sér fylgdarlaus börn

Ástandið á Gaza er sérstaklega viðkvæmt núna og SOS Barnaþorpin eru einu hjálparsamtökin eftir á svæðinu sem taka að sér fylgdarlaus börn. Þessi frétt er uppfærð reglulega með nýjustu fréttum frá SOS ...