SOS sögur 14.október 2019

Úr „ræsinu“ á toppinn

Úr „ræsinu“ á toppinn

Lífið í SOS barnaþorpum er skiljanlega mjög fjarlægt í hugum okkar Íslendinga enda eru hér engin slík þorp. Margir styrktaraðilar SOS á Íslandi nýttu sér sjaldgæft tækifæri í sumar til að hitta 43 ára Keníamann sem ólst upp í SOS barnaþorpi, Samburu Wa-Shiko. Hann var orðinn táningur þegar hann gerði sér í fyrsta sinn grein fyrir að SOS-móðir hans var ekki blóðmóðir hans.

Samburu er frábært dæmi um barn í neyð sem fékk nýtt tækifæri hjá SOS Barnaþorpunum og hefur náð langt í lífinu. Eftir að hafa hlotið góða menntun starfaði Samburu fyrir virtar stofnanir og er í dag yfirráðgjafi hjá Gates foundation, sjóði Bill og Melindu Gates sem er stærsti einkarekni góðgerðarsjóður í heimi.

Missti foreldrana 2 ára

Samburu og systir hans, sem er tveimur árum eldri, misstu foreldra sína þegar hann var 2 ára og ólust eftir það upp í SOS barnaþorpinu í Mombasa í Kenía. „Það sem er mér minnistæðast frá því ég man fyrst eftir mér er hvað við vorum umvafin mikilli ást og umhyggju SOS mömmu okkar, Lydiu. Ég þekkti ekki aðra móður en hana. Ég skynjaði þessa ást líka frá SOS systkinum mínum á heimilinu,“ segir Samburu sem man fyrst eftir sér í leikskóla í barnaþorpinu um þriggja ára aldur.

Kom aldrei fram við okkur eins og fósturbörn

Samburu var kominn fram á miðjan táningsaldur þegar hann gerði sér grein fyrir því að Lydia var ekki blóðmóðir hans en hann segir að það hafi aldrei skipt sig neinu máli. „Hún kom aldrei fram við okkur eins og fósturbörn. Þetta var allt eðlilegt og náttúrulegt. Við komum öll fram við hvert annað eins og hefðbundin fjölskylda og gerum enn.“

SOS börn vilja vita að öðrum sé ekki sama

Samburu kom hingað til lands í sumar á vegum SOS á Íslandi og átti ánægjulega kvöldstund með styrktaraðilum SOS á Grand hótel. Þar lagði hann mikla áherslu á mikilvægi styrktarforeldra. Samburu segist hafa verið mjög meðvitaður um styrktarforeldra sína og minnist sérstaklega eins frá Noregi og tveggja frá Þýskalandi.

„Önnur fjölskyldan frá Þýskalandi er mér sérstaklega kær því hún kom reglulega í heimsókn til Kenía og hitti okkur. Við hlökkuðum alltaf mikið til heimsókna þeirra. Ég held að það sem skipti börnin í þorpunum einna mestu máli er að fá þá tilfinningu að einhver úti í heimi láti sig velferð þeirra varða. Að öðrum sé ekki sama um þau.“

Samburu er mjög hlýtt til móðurinnar í þýsku fjölskyldunni sem hann lítur á sem guðmóður sína í dag, heldur reglulegu sambandi við og hefur heimsótt tvisvar.

Úr „ræsinu" á toppinn

Menntun átti mjög vel við Samburu sem nýtti sér alla þá menntun sem í boði var í gegnum sterkt menntanet SOS Barnaþorpanna. Þetta gerði honum kleift að uppfylla metnaðarfulla atvinnudrauma. „Ég hef unnið fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða efnahagsráðið. Hvern hefði grunað að einhver eins og ég, sem kom nánast úr ræsinu, hefði átt eftir að vinna fyrir þessar virtu stofnanir? Ég á það SOS Barnaþorpunum að þakka.“

(Viðtalið birtist í fréttablaði SOS Barnaþorpanna, 2. tbl. 2019. Myndir: Kristinn Magnússon)

Sjá einnig:

Samburu undirstrikar mikilvægi styrktarforeldra

Afrísk börn skortir tækifæri, ekki hæfileika

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði