SOS sögur 5.desember 2022

Úr fátækt til frama

Úr fátækt til frama

Ingibjörg Steingrímsdóttir fékk óvænt og ánægjulegt símtal árið 2021. Á hinum enda línunnar var Sonam, kona sem hún hafði bundist órjúfanlegum böndum fyrir rúmum 30 árum. Sonam er fyrrverandi styrktarbarn Ingibjargar og ólst upp í SOS barnaþorpi Indlandsmegin við landamæri Tíbet og heimsótti Ingibjörg hana árið 2008. Sonam þakkar Ingibjörgu hversu farsæl hún er í lífi og starfi í dag og alsæl hringdi hún til að deila miklum gleðitíðindum með hinni íslensku „guðmóður sinni.”

Þessi frásögn er úr nýjasta fréttablaði SOS.

Ingibjörg átti erindi á skrifstofu SOS í haust og sagði okkur þá frá símtalinu frá Sonam. Okkur tókst að hafa uppi á Sonam og hún vildi glöð svara nokkrum spurningum fyrir fréttablað SOS á Íslandi. Ingibjörg átti erindi á skrifstofu SOS í haust og sagði okkur þá frá símtalinu frá Sonam. Okkur tókst að hafa uppi á Sonam og hún vildi glöð svara nokkrum spurningum fyrir fréttablað SOS á Íslandi.
Lítil blaðagrein átti eftir að hafa mikil áhrif. Lítil blaðagrein átti eftir að hafa mikil áhrif.

Blaðagrein sem breytti örlögum fjölskyldu

Árið 1989 sá Ingibjörg litla grein í dagblaði um að Íslendingar gætu styrkt barn í SOS barnaþorpum. Ingibjörg valdi að styrkja unga tíbetska stúlku því Tíbet hafði alltaf verið sérstakt í hennar huga. Stúlkan heitir Sonam og bjó í SOS barnaþorpi fyrir börn landflótta Tíbetbúa í bænum Leh sem er á Himalæja hásléttunni. Sonam var fædd og uppalin á þessu afskekkta svæði á Norður Indlandi sem nefnist Ladakh.

Foreldrarnir flúðu fótgangandi frá Tíbet

„Foreldrar mínir fæddust í Tíbet en flúðu fótgangandi yfir landamærin eftir hernám Kínverja og settust að í Ladakh snemma á sjöunda áratugnum,” segir Sonam sem er 37 ára í dag og vildi með glöðu gleði svara nokkrum spurningum fyrir fréttablað SOS á Íslandi. Foreldrar Sonam voru bæði ólæs og gekk illa að fá vinnu. Þau ræktuðu nautgripi og á sumrin fékk pabbi hennar byggingarvinnu en hann hefur alltaf verið mjög handlaginn smiður.

Það getur verið mikil byrði á foreldra að eiga bara dætur og engan son, sérstaklega á Indlandi. Sonam

Níu börn - allt dætur

En foreldrar Sonam gátu ekki séð fyrir grunnþörfum allra barnanna sinna níu sem allt eru dætur. „Það getur verið mikil byrði fyrir foreldra að eiga bara dætur og engan son, sérstaklega á Indlandi. En þau gættu þess að það kæmi ekki niður á okkur og fyrir þeim kom ekki til greina að draga okkur úr skóla til að vinna fyrir heimilinu. Sjálf fengu þau aldrei tækifæri til að ganga í skóla og þau vildu betra líf fyrir börnin sín,” bætir Sonam við.

Það var vendipunktur fyrir fjölskylduna að í Leh er SOS barnaþorp. „Þökk sé SOS barnaþorpinu þá fengum við fría menntun í SOS skólanum. Þetta er það besta sem gat gerst fyrir fjölskylduna því það er alveg ljóst að líf okkar væri allt öðruvísi í dag ef ekki hefði verið fyrir barnaþorpið,” segir Sonam.

Svo fóru að koma nokkur orð til mín á ensku eftir því sem Sonam lærði meira í ensku. Ingibjörg

Hófu samskipti með bréfaskrifum

Þegar Sonam og systur hennar voru komnar í barnaþorpið eignuðust þær styrktarforeldra, (SOS-foreldra). Þeir fá að fylgjast með uppvexti barnanna úr fjarlægð í gegnum upplýsingabréf og myndir. Í lok árs 2022 búa í SOS barnaþorpinu í Leh tíu börn sem eiga SOS-foreldra á Íslandi. Ingibjörg varð SOS-foreldri Sonam árið 1989 og ákvað síðar að skrifa henni bréf. Sonam skrifaði til baka en fyrst aðeins með teikningum.

„Svo fóru að koma nokkur orð til mín á ensku eftir því sem Sonam lærði meira í ensku. Hún virtist ákveðin í að læra og var alltaf ofarlega í sínum árgangi. Hún sagði mér frá lífinu í skólanum og á heimilinu sem hún átti í SOS þorpinu og einnig að hún fengi að fara til foreldra sinna í skólafríum,” segir Ingibjörg sem vildi styrkja Sonam til framhaldsnáms og gerði hún samkomulag við forstöðukonu barnaþorpsins um móttöku peningasendinga frá sér. Peningunum var skipt í þrennt og fengu Sonam, heimili foreldra hennar og barnaþorpið jafnan hlut.

„Þetta voru engar upphæðir að mér fannst en kæmu kannski að einhverju gagni," segir Ingibjörg sem minnir að heildarupphæðin yfir árin hafi ekki náð eitt hundrað þúsund krónum. Fjárhæðin átti þó eftir að gerbeyta lífi Sonam og fjölskyldu hennar. Nú á dögum nýta SOS foreldrar sér þó frekar möguleikann að greiða inn á framtíðarreikning hjá SOS til að auka möguleika barnanna í framtíðinni. Sá sjóður rennur óskiptur til barnanna þegar þau fara að standa á eigin fótum.

Móðir Sonam fyrir framan húsið sem foreldrarnir gátu endurbætt fyrir gjafafé Ingibjargar. Móðir Sonam fyrir framan húsið sem foreldrarnir gátu endurbætt fyrir gjafafé Ingibjargar.

Mundi ekki afmælisdaginn sinn fyrr en Ingibjörg sendi köku

Sonam segir að sterk tengsl hafi myndast milli þeirra eftir að hún fór að fá bréf og pakka frá Íslandi. „Ég man svo skýrt eftir því þegar ég var mjög ung að það bárust reglulega pakkar og bréf frá Ingibjörgu. Ég varð rosalega spennt þegar bréfin bárust frá henni og ég gat ekki beðið eftir að skrifa henni til baka en það gerði ég í enskutímum í skólanum,” segir Sonam og rifjar einnig upp að Ingibjörg sendi sér afmælisköku sem Ingibjörg segir að hún hafi sent í álboxi í pósti.

„Sem barn úr fátækri fjölskyldu þá gerði þetta mig svo hamingjusama. Ég hélt aldrei upp á afmælisdaginn minn en Ingibjörg missti aldrei af honum og sendi mér afmælisköku á hverju ári. Þannig fór ég að muna eftir mínum eigin afmælisdegi og hlakka til hans,” segir Sonam sem deildi kökunni með skólafélögum. „Íslenska kakan var gerð úr valhnetum og bragðaðist svo vel. Auk þess var hún gerð af ást sem gerir hana ennþá sérstakari.” 

Sonam gifti sig árið 2019. Eiginmaður hennar er lyfjafræðingur og sonur þeirra verður tveggja ára í desember. Sonam gifti sig árið 2019. Eiginmaður hennar er lyfjafræðingur og sonur þeirra verður tveggja ára í desember.

Heimsótti Sonam eftir andlát eiginmannsins

Árið 2003 varð Ingibjörg fyrir miklu áfalli þegar eiginmaður hennar lést eftir skammvinn veikindi. Ingibjörg hafði borið þann draum innra með sér í mörg ár að heimsækja Sonam. Eftir fráfallið fannst Ingibjörgu hún verða að láta þennan draum rætast og byrjaði að safna fyrir draumaferðinni sem samt virtist óraunhæf því Ladakh er ekki beint í alfaraleið Íslendinga. En þá sá Ingibjörg auglýsta ferð á vegum ferðaskrifstofu bænda fyrir maraþonhlaupara til Ladakh sumarið 2008.

„Þó ég sé enginn hlaupari kannaði ég hvort ég gæti keypt mig í hópferðina án þess að fara í maraþon. Það var samþykkt með þeim skilyrðum að ég tæki þátt í öllu öðru,” segir Ingibjörg og heimsókn til Sonam var skipulögð með milligöngu SOS á Íslandi.

„Sonam kom hlaupandi og það urðu fagnaðarfundir með okkur. Ferðafélagar mínir urðu himinlifandi fyrir mína hönd og vorum við myndaðar í bak og fyrir,” segir Ingibjörg. „Sonam kom hlaupandi og það urðu fagnaðarfundir með okkur. Ferðafélagar mínir urðu himinlifandi fyrir mína hönd og vorum við myndaðar í bak og fyrir,” segir Ingibjörg.

Fagnaðarfundir

Sonam man skýrt þegar henni var sagt frá yfirvofandi heimsókn Ingibjargar. „Ég ætlaði ekki að trúa því. Ég hafði ekki orðið svona ánægð áður og ég var svo glöð að vera búin að læra ensku. Ég bjóst aldrei við að sá dagur rynni upp að við hittumst og þetta var sem draumur hefði ræst,” segir Sonam og Ingibjörg gleymir aldrei augnablikinu þegar þær loks hittust.

„Sonam kom hlaupandi og það urðu fagnaðarfundir með okkur. Ferðafélagar mínir urðu himinlifandi fyrir mína hönd og vorum við myndaðar í bak og fyrir," segir Ingibjörg sem eyddi mörgum stundum með Sonam meðan á dvölinni stóð og foreldrum hennar líka. „Mér var tekið sem væri ég drottningin af Íslandi og ég vissi ekki hvernig ég átti að vera því í ljós kom að fyrir þessar fáu krónur sem ég hafði sent gat pabbi hennar Sonam gert endurbætur á húsinu þeirra og í því gisti ég eina nótt,” rifjar Ingibjörg upp með stolti.

14 ára gömul gjöf kemur að góðum notum í dag

Við kveðjustund ákvað Ingibjörg að gefa foreldrum Sonam fjallgöngustafina sína sem minjagripi. Nú 14 árum síðar koma stafirnir þeim enn að góðum notum. „Heilsu þeirra hefur hrakað vegna mikillar erfiðisvinnu í kulda á yngri árum. Þau nota stafina núna daglega sem göngustafi. Þau segja að þetta sé einstök gjöf frá einstakri manneskju.”

Nýleg mynd af foreldrum Sonam. Ingibjörg gaf þeim fjallgöngustafi árið 2008 sem þau nota nú daglega sem göngustafi. Nýleg mynd af foreldrum Sonam. Ingibjörg gaf þeim fjallgöngustafi árið 2008 sem þau nota nú daglega sem göngustafi.
Foreldrar mínir eru svo stoltir af mér. Ég væri ekki á þessum stað í dag ef ekki væri fyrir Ingibjörgu. Sonam

Úr fátækt til frama

Sonam hefur komið langan veg frá fátæktinni sem fjölskylda hennar var eitt sinn í og náð undraverðum frama. Hún útskrifaðist úr menntaskóla á Indlandi árið 2005 og fékk svo vinnu sem gerði henni kleift að styrkja þrjár yngri systur sínar fjárhagslega. Tvær þeirra luku framhaldsskólaprófi og sú yngsta lauk hjúkrunarfræðinámi. Árið 2013 kláraði Sonam kennaragráðu og varð grunnskólakennari. Svo kom að stóra starfinu árið 2017. Þá flutti Sonam til borgarinnar Dharamshala við Himalæjafjallgarðinn þar sem hún var ráðin til starfa hjá *menntamálaráðuneyti Tíbet sem hefur yfirumsjón með 60 tíbetskum skólum á Indlandi og í Nepal.

„Hans heilagleiki, Dalai Lama, býr hér í Dharamshala. Það eru mikil forréttindi og heiður að vinna fyrir tíbetsk yfirvöld. Foreldrar mínir eru svo stoltir af mér. Ég væri ekki á þessum stað í dag ef ekki væri fyrir Ingibjörgu.

*Til einföldunar á frásögn. Hér er lagalega átt við menntanefnd CTA (Central Tibetan Administration), sem oftast er nefnd „tíbetska ríkisstjórnin í útlegð".

Sonam á skrifstofunni í menntamálaráðuneyti Tíbet. Sonam á skrifstofunni í menntamálaráðuneyti Tíbet.
Sonam hringdi í Ingibjörgu 13 árum síðar til að tilkynna henni þau gleðitíðindi að hún hefði eignast son. Sonam hringdi í Ingibjörgu 13 árum síðar til að tilkynna henni þau gleðitíðindi að hún hefði eignast son.

Hringdi í Ingibjörgu 13 árum síðar

Þegar 13 ár voru liðin frá heimsókn Ingibjargar til Leh fékk hún óvænt og ánægjulegt símtal frá Sonam sem hún hafði ekki heyrt frá í mörg ár. Sonam vildi deila þeim gleðitíðindum með Ingibjörgu að hún hefði eignast son. „Hún var svo hamingjusöm og vildi deila hamingjunni með mér. Henni fannst þetta svo merkilegt í ljósi þess að foreldrar hennar eignuðust níu börn, allt dætur,” sagði Ingibjörg og það er auðséð hvernig hún samgleðst Sonam sem gifti sig árið 2019. Eiginmaður Sonam er lyfjafræðingur og sonur þeirra verður tveggja ára í desember.

Dreymir um að heimsækja Ísland og hitta Ingibjörgu einu sinni enn

„Ég lít á Ingibjörgu sem guðmóður mína. Hún fjármagnaði skólagöngu mína og ég á henni að þakka velgengni mína í dag,” segir Sonam sem hugsar alltaf hlýlega til Ingibjargar. „Hún er gjafmild og góðhjörtuð. Vegna einstakra tengsla okkar fletti ég Íslandi oft upp á netinu og les mér til um landslagið, náttúruna, fólkið og menninguna. Mig dreymir um að heimsækja Ísland og hitta Ingibjörgu einu sinni enn. Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka SOS Barnaþorpunum fyrir að tengja okkur saman. Það breytti lífi mínu,” segir Sonam að lokum.

Viðtal við Ingibjörgu var birt í fréttablaði SOS árið 2008 eftir heimsókn hennar til Sonam. Viðtalið er nú hægt að lesa hér á sos.is.

Draumurinn sem rættist

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og veitir því fjölskyldu á kærleiksríku heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Styrktaraðilar SOS fá endurgreiðslu frá Skattinum!

Styrkja eitt barn 3.900 ISK á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 ISK á mánuði