SOS sögur 28.apríl 2021

Kjörin Húsvíkingur ársins eftir einstakt framtak í þágu SOS

Kjörin Húsvíkingur ársins eftir einstakt framtak í þágu SOS

Guðrún Kristinsdóttir á Húsavík er hrærð yfir viðbrögðum sem hún fékk frá fólki um allt land eftir að hún prjónaði 57 lopapeysur fyrir SOS barnaþorp í Rúmeníu. Hún var í kjölfarið kjörin Húsvíkingur/Þingeyingur ársins. Guðrún lét ekki staðar numið við lopapeysurnar því hún prjónaði 60 pör af vettlingum sem væntanlegir eru til sama barnaþorps í byrjun maí 2021.

Mitt markmið með peysunum var að gera eitt stórt og gott góðverk og vekja fólk í leiðinni til umhugsunar... Von mín er að fleiri fjölskyldur styrki börn hjá SOS Barnaþorpunum. Guðrún
Þetta einstaka framtak Guðrúnar í þágu SOS vakti mikla athygli og í kjölfarið var hún kjörin Húsvíkingur ársins. Þetta einstaka framtak Guðrúnar í þágu SOS vakti mikla athygli og í kjölfarið var hún kjörin Húsvíkingur ársins.

Guðrún setti sig í samband við skrifstofu SOS á Íslandi snemma árs 2019 og viðraði þá hugmynd að prjóna lopapeysur á öll börnin og starfsfólk í barnaþorpinu í Hemeius þar sem hún átti SOS-dóttur. Þegar fyrir lágu fjöldi og stærðir allra í barnaþorpinu hófst Guðrún handa við prjónaskapinn. Peysurnar bárust barnaþorpinu skömmu fyrir jól 2019 og sló þessa hlýlega jólagjöf frá Íslandi rækilega í gegn.

Uppátækið vakti verðskuldaða athygli hér á landi eftir umfjöllun í sjónvarpsfréttum RÚV. „Viðbrögðin sem ég fékk við þessu uppátæki mínu voru ótrúleg og frá fólki um allt land. Í janúar var ég valin Húsvíkingur/Þingeyingur ársins 2020 sem var mikill heiður og þar hafði lopapeysuverkefnið mikil áhrif. Mér hafa borist margar fallegar og góðar kveðjur eftir þetta allt saman og fyrir það er ég mjög hrærð og þakklát. Það gefur okkur mikið að geta veitt verkefnum SOS Barnaþorpanna stuðning með þessum hætti,“ segir Guðrún.

Í frétt RÚV sem sjá má hér fyrir neðan var rætt við Guðrúnu og sýnt frá afhendingu peysanna í Rúmeníu. Þessi hlýlega gjöf frá Íslandi sló rækilega í gegn hjá börnunum og ungmennunum í barnaþorpinu.

RÚV fjallaði tvisvar um prjónaskapinn og heimsótti Guðrúnu fyrst í október 2019 þegar hún var á lokasprettinum að klára síðustu peysurnar í kappi við tímann. Hér má sjá sjónvarpsfrétt RÚV við það tilefni.

Sagt var frá kjörinu á manneskju ársins á netfréttamiðlinum 640.is á Húsavík. Þar mátti m.a. sjá eftirfarandi umsagnir um Guðrúnu sem fylgdu atkvæðunum sem hún fékk í kjörinu.

Myndir af SOS börnum Guðrúnar og Ingólfs 
prýða myndavegg fjölskyldunnar. Myndir af SOS börnum Guðrúnar og Ingólfs prýða myndavegg fjölskyldunnar.

Ákveðin í að styrkja barn þegar þeirra börn flyttu að heiman

Guðrún er fædd og uppalin í Hafnarfirði en flutti til Húsavíkur árið 1986 með eiginmanni sínum Ingólfi Freyssyni. Þau eru bæði íþróttakennarar og ásamt því að kenna hafa þau bæði starfað mikið innan Íþróttafélagsins Völsungs, bæði við þjálfun og félagsstörf. Þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn auk þess að hafa styrkt tvö börn í SOS barnaþorpum sem eru þeim afar kær.

„Við vorum alltaf ákveðin í því að þegar yngsta barnið flytti að heiman myndum við taka að okkur eitt barn og styrkja það til betra lífs. Þegar við stóðum svo frammi fyrir þessari ákvörðun fórum við að lesa okkur til um SOS Barnaþorpin og skoða hvernig þau vinna að því að hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra.“

Fylgdust með uppvexti Cosminu

Þau sóttu um að styrkja barn og var þeim úthlutað ungri stúlku í Rúmeníu, Cosminu, sem var fædd árið 2002. „Á þeim tíma var ég einmitt að kenna krökkum, fæddum á því ári, sem var mjög skemmtilegt og ég leyfði þeim að fylgjast aðeins með. Tvisvar á ári höfum við fengið bréf frá þorpinu og fréttir af Cosminu, hvernig henni gengi í skólanum og því sem hún tók sér fyrir hendur. Þessar upplýsingar skipta miklu máli því þarna nær maður tengingu og áttar sig á því hvernig lífið gengur í þorpinu.“

Þessi hlýlega jólagjöf frá Íslandi sló svo sannarlega í gegn hjá börnunum og ungmennunum í SOS barnaþorpinu í Hemeius. Þessi hlýlega jólagjöf frá Íslandi sló svo sannarlega í gegn hjá börnunum og ungmennunum í SOS barnaþorpinu í Hemeius.

Vildi vekja athygli á SOS með því að prjóna

Það var einmitt í einu bréfanna um Cosminu fyrir jólin 2018 sem fram kom að mikill vetrarkuldi væri í Hemeius og þá kviknaði hugmyndin um að prjóna lopapeysurnar. „Fyrst hugsaði ég um að prjóna bara á Cosminu en þegar ég hugsaði meira um það fannst mér að það væri ósanngjarnt gagnvart hinum börnunum," segir Guðrún sem ákvað því að prjóna lopapeysur á öll börnin og starfsfólkið líka. En hún lét ekki staðar numið þar. Hún átti afgangslopa eftir peysurnar og prjónaði 60 pör af lopavettlingum sem verða send til barnaþorpsins í Rúmeníu á næstu dögum.

„Ég prjónaði þessa vettlinga á árinu 2020 milli þess sem ég var að prjóna fyrir börnin, tengdabörnin og barnabörnin. Ég hef mikla ánægju af því að prjóna eða gera eitthvað í höndunum. Mitt markmið með peysunum var að gera eitt stórt og gott góðverk og vekja fólk í leiðinni til umhugsunar um að margt smátt gerir eitt stórt. Von mín er að fleiri fjölskyldur styrki börn hjá SOS Barnaþorpunum.“

Við gripum Guðrúnu í örstutt myndbandsviðtal fyrir heimasíðu SOS þegar hún mætti með lopapeysurnar á skrifstofu SOS í Kópavogi í nóvember 2019.

Það verður mjög skrítin tilfinning að fá ekki lengur fréttir af Cosminu en myndin af henni verður áfram á fjölskylduveggnum. Guðrún

Styrkja nú annað barn eftir að Cosmina flutti

Cosmina varð 19 ára 12. febrúar sl. og hefur flutt úr þorpinu og er í vinnu. Hún er að leigja íbúð með aðstoð og undir eftirliti barnaþorpsins sem fylgir henni úr hreiðrinu. „Cosmina er ákveðin og dugleg stelpa sem vill standa á eigin fótum og það er von okkar að hún eigi eftir að lifa gæfusömu lífi. Það verður mjög skrítin tilfinning að fá ekki lengur fréttir af henni en myndin af henni verður áfram á fjölskylduveggnum.“

Guðrún og Ingólfur ákváðu að halda áfram að styrkja barn og eiga þau núna stúlku sem er fædd 2017  sem heitir Zlata og býr í þorpi við Minsk í Hvíta-Rússlandi. „Þar er hún ásamt fjórum systkinum. Myndin af henni er komin upp á vegg við hliðina á Cosminu, lítil og sæt stúlka sem verður gaman að fá að fylgjast með,“ segir Guðrún að lokum.

Viðtal: Hans Steinar Bjarnason
Myndir: Hafþór Hreiðarsson, 640.is
Myndir frá Rúmeníu: Ionut Gighileanu

Sjá einnig:
Guðrún prjónaði 57 lopapeysur fyrir heilt barnaþorp
Lopapeysurnar afhentar í Rúmeníu

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði