Fréttayfirlit 12. desember 2019

Guðrún prjónaði 57 lopapeysur fyrir heilt barnaþorp

Guðrún prjónaði 57 lopapeysur fyrir heilt barnaþorp

Guðrún Kristinsdóttir, kennari á Húsavík, gerði sér lítið fyrir og prjónaði 57 lopapeysur á öll börn og allt starfsfólk í SOS barnaþorpinu í Hemeius í Rúmeníu. Guðrún er SOS-foreldri 17 ára stúlku í þorpinu og í jólabréfi til Guðrúnar á síðasta ári sagði stúlkan henni frá því hversu kalt er í Rúmeníu á veturna. Guðrún lét þá hugmynd sína verða að veruleika um að prjóna peysurnar sem verða afhendar í barnaþorpinu nú fyrir jólin. Þetta viðtal tók Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS, við Guðrúnu þegar hún afhenti peysurnar á skrifstofu SOS á dögunum.

Lítur á Cosminu sem fóstursystur barna sinna

Guðrún og eiginmaður hennar styrkja 17 ára stúlku, Cosminu, og prýðir rammi með mynd af henni vegg á heimili þeirra innan um myndir af fjölskyldumeðlimum. Guðrún talar um Cosminu sem fóstursystur barna sinna. Í bréfi sem Cosmina skrifaði þeim um síðustu jól talaði hún um hversu kalt væri í Rúmeníu og þá datt Guðrúnu í hug að prjóna lopapeysur á öll börnin og starfsfólk í barnaþorpinu.

„Þá fór ég að hugsa að ég gæti kannski gert eitt stórt góðverk á ævinni. Svo varð ég líka að finna mér eitthvað verkefni. Ég var að hætta sem formaður Völsungs eftir sjö ár. Maður verður að hafa eitthvað að gera,“ sagði Guðrún þegar hún kom og afhenti lopapeysurnar á skrifstofu SOS Barnaþorpanna í Kópavogi.

35 sólarhringar af prjónamennsku

Síðasta vetur setti Guðrún sig í samband við SOS á Íslandi sem fékk upplýsingar um peysustærðir allra í þorpinu og hófst hún handa við prjónamennskuna þann 6. febrúar. Í lok nóvember hafði hún prjónað 57 lopapeysur sem hafa nú verið sendar til barnaþorpsins í Rúmeníu þar sem þær verða afhentar nú skömmu fyrir jól.

„Ætli það hafi ekki verið svona 12 peysur sem ég fékk aðstoð við að prjóna hjá vinum, samstarfsfólki og fjölskyldu. Tíminn sem fór í þetta voru samtals 35 sólarhringar í klukkustundum talið. Svo var mér gefinn lopi og ég fékk líka góðan afslátt sem ég er afskaplega þakklát fyrir.“

Vettlingar næst

Guðrún á ennþá til afgang af lopanum og hún íhugar að munda prjónana aftur fyrir barnaþorpið. „Ég hugsa að ég prjóni vettlinga næst. Ætli þeir fari ekki út til Rúmeníu að ári,“ bætti Guðrún við að lokum.

Nýlegar fréttir

Seinna SOS-blað ársins komið út
29. nóv. 2023 Almennar fréttir

Seinna SOS-blað ársins komið út

Seinna SOS-blað ársins er kom­ið út og er það að venju aðgengilegt rafrænt hér á sos.is. Þetta er í annað sinn sem blaðið kemur út með breyttu fyr­ir­komu­lagi á dreif­ingu til styrktarað­ila.

Viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna í Marokkó
21. nóv. 2023 Almennar fréttir

Viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna í Marokkó

Líf þúsunda barna breyttist þegar jarðskjálfti reið yfir Marokkó 8. september sl. og munu afleiðingarnar hafa áhrif á landið um ókomna tíð. Hér má lesa um útfærslu á viðbragðsáætlun SOS Barnaþorpanna ...