Djúpt snortin yfir því að íslenska þjóðin tók þátt í leitinni
Þegar Ambika var lítil stúlka í SOS barnaþorpi á Indlandi bárust henni reglulega póstkort frá Íslandi – frá SOS foreldrinu Hafdísi. Póstkortin sýndu norðurljósin og kveiktu draum um Ísland sem lifði í hjarta hennar. Áratugum síðar ákvað Ambika að leita að Hafdísi sem fannst að lokum með aðstoð almennings á Íslandi. Ambika segir hér frá leitinni að Hafdísi, hvernig var að alast upp í barnaþorpi og áskorunum sem styrktu hana fyrir fullorðinsárin.
Ég hélt lengi að SOS móðir mín væri kynmóðir mín. Ég fann aldrei fyrir neinum mun. Ambika.
Það var kaldur desembermorgunn á Indlandi árið 1993 þegar lítil stúlka var vafin í handklæði og lögð í fang SOS-móður sinnar í barnaþorpi nærri Nýju Delí. Hún hét Ambika og var rauð á höndum af kulda og nýkomin af sjúkrahúsi.
„Ég hef heyrt söguna aftur og aftur frá SOS-systkinum mínum og móður minni. Þetta er mín fyrsta minning, þó að hún sé ekki mín eigin. Það er sú mynd sem ég hef alltaf haft af upphafi lífs míns,“ segir Ambika í samtali við okkur fyrir SOS blaðið á Íslandi, 32 árum síðar.
Ambika hugsar oft til Hafdísar og póstkortanna frá henni með mynd af norðurljósunum á Íslandi. Ambika stefnir nú á Íslandsferð til að hitta Hafdísi og sjá norðurljósin.
Ambika ólst upp í SOS barnaþorpinu, þar sem hún lærði að lífið getur verið fullt af hlýju, þrátt fyrir erfitt upphaf. Hún var yngst á heimilinu og naut mikillar umhyggju. „Ég hélt lengi að SOS móðir mín væri kynmóðir mín. Ég fann aldrei fyrir neinum mun. Við áttum saman hlýtt og ástríkt samband. Einu skiptin sem hún skammaði mig var þegar ég sinnti lærdómnum ekki nógu vel,“ segir Ambika og brosir.
Hún lítur upp til móður sinnar og ber ómælda virðingu fyrir henni. „Hún var kennari úr góðri fjölskyldu, en ákvað að helga líf sitt SOS til að hugsa um börn eins og mig. Hún er ástæðan fyrir því að ég er sú sem ég er í dag. Ég elska hana af öllu hjarta.“
Dagarnir í barnaþorpinu voru hefðbundnir: skóli, leikur, kvöldmatur og stundum smá rifrildi milli systkina. „Það var líf fullt af gleði,“ segir hún. „Við áttum leiksvæði, fallega garða og öll tækifæri til að læra og þroskast. Ég var umkringd ást og umhyggju.“
Ég skáldaði jafnvel upp föðurnafn þegar vinir spurðu – bara til að vera eins og hin börnin. Ambika
Hvar er pabbi minn?
En þegar Ambika varð eldri fór hún að átta sig á því að líf hennar var öðruvísi en hjá öðrum börnum. „Á foreldradögunum í skólanum sá ég vini mína koma með bæði mömmu sinni og pabba. Ég byrjaði að spyrja: „Hvar er pabbi minn? Ég skildi þá ekki að við í SOS barnaþorpinu höfðum bara mæður. Ég skáldaði jafnvel upp föðurnafn þegar vinir spurðu – bara til að vera eins og hin börnin.“
Það var sársaukafullt tímabil. „Ég fann stundum til reiði og sorgar en það stóð stutt yfir. Ég hafði svo margt að vera þakklát fyrir. Þegar ég fór í háskóla og þurfti að sjá um mig sjálf, áttaði ég mig á hversu mikið SOS hafði gefið mér – öryggi, menntun, fjölskyldu og ást. Mín gæfa var ekki sjálfsögð. Ég er þakklát kynforeldrum mínum, hvar sem þau eru í dag, fyrir að veita mér þetta tækifæri á betra lífi.“
Ambika þakkar SOS móður sinni og uppeldi sínu í barnaþorpinu hversu gott líf hún á í dag.
Erfitt að sjá sum börn koma í barnaþorpið
Það skiptir miklu máli hvernig tekið er á móti börnum þegar þau koma í barnaþorpin. Ambika sá síðar með eigin augum hversu slæmum aðstæðum sum börnin höfðu verið í áður en þau komust í öryggi barnaþorpsins.
„Ég sá hversu erfitt líf sumra var á því augnabliki. Sum voru alvarlega vannærð, önnur með sár eða veikindi. En ég sá líka hvernig hjúkrunarfræðingar og starfsfólk SOS tóku á móti þeim – með hlýju, lækningu og virðingu. Þau fengu annað tækifæri í lífinu. Ef ekki væri fyrir SOS, væri ég kannski bara lítil stelpa á götuhorni að selja blöðrur. Í staðinn fékk ég menntun, fjölskyldu og tækifæri til að verða sú manneskja sem ég er í dag.“
Ambika eignaðist ekki bara systkini í barnaþorpinu heldur líka framtíðarvini, innan þess og utan. „Þau hafa alltaf verið til staðar fyrir mig og eru mín raunverulega fjölskylda og samfélagsnet.“
Ef ekki væri fyrir SOS, væri ég kannski bara lítil stelpa á götuhorni að selja blöðrur. Ambika
Mamma ströngust þegar kom að náminu
Frá unga aldri var Ambika ákveðin í að læra. Hún segir að móðir hennar hafi ekki sætt sig við léleg próf. „Hún var strangari en kennararnir! En í dag sé ég hvað það hefur gert fyrir mig.“ Ambiku dreymdi lengi um að verða vísindamaður en rifjar hlæjandi upp að það hafi ekki verið raunhæfur draumur.
„Svo komu eðlisfræðin og efnafræðin og þá ákvað ég að breyta um stefnu,“ segir Ambika sem lærði hjúkrun og vann um stund sem hjúkrunarfræðingur en fann sig að lokum í öðru. Hún tók MBA-gráðu í mannauðsstjórnun og starfar nú hjá frönsku fyrirtæki í Bangalore.
„Ég er ánægð og þakklát fyrir hvar ég er í dag,“ segir Ambika og bætir við að eldri systkini hennar úr barnaþorpinu hafi einnig náð mjög langt í lífinu og séu hátt sett í virtum fyrirtækjum.
Ambika er mikill dýravinur og tekur að sér flækingshunda og -ketti auk þess að hjálpa fleiri dýrum.
Póstkortin frá Íslandi og leitin að Hafdísi
Á barnsaldri byrjaði Ambika að fá póstkort frá Íslandi. Þau komu frá styrktarforeldri hennar, konu að nafni Hafdís. „Ég var í sjöunda eða áttunda bekk þegar ég byrjaði að skrifa henni til baka,“ segir Ambika. „Ráðgjafarnir hjálpuðu mér að skrifa á ensku. Ég man sérstaklega eftir póstkortunum með myndum af norðurljósunum. Ég geymdi þau öll.“
Þegar árin liðu hættu kortin að berast. Ambika flutti úr barnaþorpinu, fór í háskóla, giftist og lífið hélt áfram. En póstkortin héldu áfram að fylgja henni. „Einn daginn var ég að taka til og sýndi eiginmanni mínum póstkortin. Hann sagði: „Af hverju reynirðu ekki að finna hana?’“ Þau leituðu á samfélagsmiðlum, en án árangurs.
Ambika geymir ennþá öll póstkortin og myndirnar frá Hafdísi.
Loks höfðu þau samband við SOS Barnaþorpin á Íslandi með aðeins eitt nafn: Hafdís. Þær upplýsingar dugðu ekki til að finna hina réttu Hafdísi vegna hertra reglna um geymslu persónuupplýsinga um börnin í barnaþorpunum. Nafn Ambiku var nefnilega ekki lengur í tölvukerfi SOS á Íslandi eftir öll þessi ár og því var ekki hægt að leita að styrktarforeldri hennar á Íslandi útfrá nafni Ambiku.
Starfsfólk SOS á Íslandi tók sig því til og birti færslu á Facebook í þeirri von að einhver myndi kannast við söguna. Færslan fór á mikið flug, varð að fjölmiðlafári á Íslandi og að lokum var þjóðin farin að taka þátt í leitinni að „Hafdísi“.
Facebook færsla um leitina að Hafdísi fór á mikið flug og varð að fjölmiðlafári.
Dolfallin yfir samtakamætti Íslendinga
Ekki tók langan tíma þar til allt small saman. Hafdís var ekki fornafnið — heldur millinafn. SOS-foreldrið hét Guðrún Hafdís og í gögnum SOS kom fram að sú kona hafði einmitt styrkt barn í þessu sama barnaþorpi.
„Þegar ég heyrði það trúði ég því varla,“ segir Ambika. „Að allt Ísland skyldi hafa tekið þátt í leitinni að Hafdísi – mér fannst það ótrúlegt og dásamlegt og undirstrikar að fólk um allan heim getur sameinast í góðverki.“
Hafdís geymir enn allar myndirnar og bréfin sem hún fékk frá SOS barnaþorpinu á árum áður.
Fólk var að stoppa mig úti í Kringlu og úti í búð. Þá bjóst fólk við að hún væri bara að koma til Íslands strax. Hafdís
Tók Hafdísi langan tíma að meðtaka að Ambika væri að leita að sér
Hafdís viðurkennir að það hafi komið sér úr jafnvægi þegar SOS Barnaþorpin höfðu samband við hana í sumar til að láta hana vita að Ambika væri að leita að henni. „Það tók mig svolítinn tíma að meðtaka þetta, að hún væri raunverulega að leita að mér núna. Mér þótti mjög vænt um það og ég er búin að meðtaka það núna og fá yndislegar myndir af henni.“
Leitin að Hafdísi bar árangur á þjóðhátíðardaginn 17. júní og Hafdís fann vel fyrir athyglinni. „Fólk var að stoppa mig úti í Kringlu og úti í búð. Þá bjóst fólk við að hún væri bara að koma til Íslands strax. Þá fannst mér svolítið erfitt að segja að hún kæmi ekki alveg strax.“
Hjartalæknirinn spurði um Ambiku
Ambika var nefnilega búin að skipuleggja ferð til Íslands áður en Hafdís fannst en þau hjónin fengu ekki vegabréfsáritun í tíma og ætla að reyna aftur næsta vor. „Það verður yndislegt að sjá hana,“ segir Hafdís sem finnur enn fyrir athyglinni vegna málsins, tæpu hálfu ári síðar.
„Bara síðast í gær hjá hjartalækninum mínum. Hún hafði séð umfjöllunina í sumar og svo fór bara góður tími af viðtalinu í að tala um þetta, áður en hún fór að tala um heilsuna mína,“ segir Hafdís hlæjandi.
Ambika og Hafdís eru farnar að skrifast aftur á. Hér er Hafdís með mynd sem Ambika teiknaði fyrir hana og sendi henni í haust.
„Ég var alltaf að kíkja í póstkassann“
Ambika og Hafdís hafa nú endurvakið samband sitt eftir öll þessi ár og eru farnar að skrifast á aftur. Ambika hyggst heimsækja Ísland áður en norðurljósin hætta að sjást næsta vor. „Mig hefur alltaf dreymt um að sjá norðurljósin með eigin augum. Það var fyrsta myndin sem ég sá frá Íslandi – og vonandi get ég loksins séð þau í raun.“
Ambika er að sjálfsögðu spennt fyrir því að hitta Hafdísi eftir allan þennan tíma. Hún handskrifaði Hafdísi bréf í haust og sendi henni mynd sem hún teiknaði enda hefur Ambika alltaf verið listræn og teiknað fallegar myndir. Hafdís vissi að von væri á bréfinu og eftirvæntingin var mikil.
Ambika hyggst heimsækja Ísland áður en norðurljósin hætta að sjást næsta vor.
Mér finnst alger draumur að halda á bréfi sem er frá henni. Hafdís
„Ég var alltaf að kíkja í póstkassann. Ég bjóst við litlu bréfi en varð svo hissa þegar ég sá hvað umslagið var stórt. Mér finnst alger draumur að halda á bréfi sem er frá henni. Bréfin frá árum áður voru oftast skrifuð af mömmu hennar en svo hafði Ambika skrifað smáræði og teiknað litlar myndir sem voru settar með,“ segir Hafdís sem af heilsufarsástæðum getur ekki horft á tölvuskjá og því ekki notað Internetið. Hafdís kann því vel við að eiga í þessum bréfaskriftum í dag á gamla mátann.
Ambika segir að hún sé lifandi sönnun þess að stuðningur SOS foreldra skipti raunverulegu máli.
Skilaboð Ambiku til styrktaraðila SOS á Íslandi
„Heimurinn er að breytast,“ segir Ambika að lokum og beinir orðum sínum til Íslendinga sem styrkja SOS Barnaþorpin. „Traust er orðið sjaldgæfara. Ég veit að margir velta fyrir sér hvort framlög þeirra skipti raunverulega máli eða hvort þetta sé bara enn eitt svindlið. En ég er lifandi sönnun þess að þau skipta máli. Ég er hér í dag vegna þess að einhver, einhvers staðar í fjarlægu landi, trúði á barn sem hann hafði aldrei hitt og það breytti öllu fyrir mig.“
Gömul spakmæli standa upp úr sem stærsti lærdómur Ambiku á hennar stuttu lífsleið. „Þegar þú deyrð, geturðu ekkert tekið með þér – ekki eignir, ekki peninga, ekki titla. Það eina sem lifir áfram er minningin um það hvernig þú snertir líf annarra. Það er sönn arfleifð.“
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.