Upplifði félagslega útskúfun vegna fátæktar
Zemzem var aðeins 16 ára þegar hún giftist og er í dag fjögurra barna móðir í bænum Iteya í Eþíópíu. Hún varð barnshafandi þegar hún var í tíunda bekk og neyddist til að hætta í skóla. Tekjur eiginmannsins dugðu engan veginn fyrir grunnþörfum fjölskyldunnar og hjónin reyndu að afla aukatekna en þær dugðu skammt.
Zemzem ákvað því eins og margir í hennar stöðu að reyna fyrir sér í farandverkavinnu í arabalöndum en þegar þangað var komið stóðst hún ekki læknisskoðun og fékk þar af leiðandi ekki atvinnuleyfi. Hún sneri þá aftur heim til Iteya þar sem við tók áframhaldandi líf í sárafátækt en það var ekki eina áskorunin sem mætti henni. Zemzem segist aldrei gleyma þeirri sáru tilfinningu að upplifa útskúfun í samfélaginu vegna fátæktar sinnar.
Til þess eins að geta lifað af vorum við háð fjölskyldu eiginmanns míns. Við vorum byrði á öðrum og misstum félagslega viðurkenningu i samfélaginu. Zemzem í viðtali við íslenska SOS blaðið.
Fátækir útskúfaðir
Við þessi orð varð greinarhöfundi hugsað til samtals sem hann átti við Artúr, framkvæmdastjóra SOS barnaþorpsins í Ngabu í Malaví. SOS Barnaþorpin á Íslandi eru þar í bæjarfélaginu með fjölskyldueflingu þar sem barnafjölskyldur í sárafátækt fá betra líf, líkt og í Iteya þar sem Zemzem býr.
Sjá einnig: Rúrik heimsótti fjölskyldueflingu í Malaví
Þegar þú lifir í sárafátækt hættir fólk að líta á þig sem manneskju. Að lokum hættirðu sjálfur að líta á þig sem manneskju. Artúr, framkvæmdastjóri SOS barnaþorpsins í Ngabu í Malaví.
Fátækir geta sparað
Slæm staða Zemzem varð til þess að hún var valin í hóp þátttakenda í fjölskyldueflingu SOS árið 2018 sem fjámögnuð er með stuðningi Íslendinga. Þessi verkefni felast í því að barnafjölskyldur í sárafátækt fylgja langtímaáætlun sem miðar að því að foreldrarnir standa að lokum á eigin fótum og geta séð fyrir börnum sínum. Þá fóru hjólin loks að snúast hjá Zemzem. Til að byrja með varð hún meðlimur í sparnaðar- og lánahópi sem veitti henni aðgang að lágvaxta láni til að opna litla verslun.
„Ég rek litla sjoppu fyrir framan heimilið mitt og rækta lítinn landskika hér skammt frá. Maðurinn minn hafði í fyrstu enga trú á sjoppurekstrinum en snerist svo hugur,“ segir Zemzem sem hlaut þjálfun í gerð fjárhagsáætlana og sótti ýmis fleiri námskeið.
Á núna allt til alls
„Börnin mín fengu líka styrk fyrir námsgögnum og skólagöngu þar til ég útskrifaðist úr verkefninu,“ sagði Zemzem sem í dag á nóg fyrir sig og sína og getur loks sent öll börnin sín í skóla. Hún sér fyrir sér að geta komið börnunum sínum alla leið í háskóla og hefur auk þess sjálf tekið upp þráðinn í sínu námi þar sem frá var horfið.
Zemzem er frábær sönnun þess að fátækir geta sparað eins og lagt er upp með í fjölskyldueflingunni. Hún á sparnað bæði fyrir sig og börnin, hefur tekjur af landbúnaði og alifuglum og er að byggja annað húsnæði sem hún hyggst hafa leigutekjur af.
Áður en ég gekk inn í fjölskyldueflinguna var ég í hræðilegri stöðu en síðan hefur orðið stórkostleg breyting á högum okkar. Zemzem
360 barnafjölskyldur útskrifuðust
Þessari fjölskyldueflingu okkar lauk um sl. áramót með þeim góða árangri að 360 barnafjölskyldur losnuðu úr viðjum sárafátæktar og standa nú á eigin fótum. Nýtt verkefni er hafið í Arba Minch í sunnanverðri Eþíópíu og tvö önnur verkefni eru vel á veg komin í Malaví og Rúanda. Þá er nýtt verkefni á lokametrum undirbúnings í Úganda.
Sjá einnig: 360 barnafjölskyldur í Eþíópíu lausar úr viðjum sárafátæktar
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.