Fréttayfirlit 27. desember 2019

Þessi tími opnaði augu mín fyrir mikilvægi hjálparstarfs

Þessi tími opnaði augu mín fyrir mikilvægi hjálparstarfs

Svala Davíðsdóttir, 19 ára frá Kópavogi, fór til Katmandú, höfuðborgar Nepal, í byrjun september og dvaldi þar hjá bróður sínum í nærri þrjá mánuði. Tíu SOS-barnaþorp eru í Nepal, þar af þrjú þorp við Katmandú og í þeim sinnti Svala sjálfboðaliðastörfum meðan á dvöl hennar stóð.

Svala ritaði meðfylgjandi pistil um ferðina í fréttablað SOS sem kom út í lok árs, 2019.

Þrír ævintýralegir, þroskandi og gefandi mánuðir eru liðnir og þeir liðu svo hratt að ég trúi því varla að ég sé að kveðja Nepal. Mig hafði lengi dreymt um að fá að leggja hjálparstarfinu í SOS barnaþorpunum lið og ég var svo ótrúlega heppin að fá tækifæri til þess í haust. Fyrsta mánuðinn var ég í barnaþorpinu í Jorpati. Þar búa eingöngu börn sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar. Starf mitt fólst í því að aðstoða í kennslustofunni. Þaðan var förinni heitið í barnaþorpið í Sanothimi. Þar búa um 140 börn og þjálfaði ég þau í fimleikum. Þriðja og síðasta mánuðinn dvaldi ég í barnaþorpinu í Kavre. Starf mitt þar fólst í að aðstoða í skólanum og þjálfa börnin í fimleikum.  Þorpin þrjú eru skammt frá höfuðborginni Katmandú.

Öll þorpin eiga það sameiginlegt að vera full af góðhjörtuðu starfsfólki sem vill allt fyrir börnin gera svo þeim líði sem allra best. Ég kynntist yndislegum börnum sem ég á eftir að sakna.

Nepal er sárafátækt land. Þessi tími opnaði raunverulega augu mín fyrir mikilvægi hjálparstarfs. Börnin í SOS barnaþorpunum geta ekki búið hjá foreldrum sínum og eru ótrúlega lánsöm að fá að alast upp SOS barnaþorpi. Þar fá þau fá tækifæri til að læra að lesa, skrifa og reikna auk fleiri námsgreina. Það er mikið lagt upp úr því að mennta þau svo að þau geti eignast betra líf. Menntun er ekki sjálfgefin í Nepal.

Ég er svo þakklát fyrir þetta tækifæri og óska þess af öllu hjarta að öll börn í heiminum megi búa við öryggi og mennta sig.

Svala Davíðsdóttir, desember 2019.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði