Fréttayfirlit 17. september 2025

Svör við algengum spurningum styrktaraðila vegna Gaza

Svör við algengum spurningum styrktaraðila vegna Gaza


Í ringulreiðinni sem ríkir á Gaza í Palestínu starfar þaulreynt starfsfólk SOS Barnaþorpanna fyrir fylgdarlaus börn og barnafjölskyldur í neyð. Þúsundir Íslendinga hafa sl. tvö ár styrkt neyðaraðgerðir SOS Barnaþorpanna í Palestínu sem SOS neyðarvinir, ýmist með mánaðarlegum eða stökum framlögum.

Þá eru hundruð Íslendinga að styrkja beint rekstur SOS barnaþorpanna tveggja í Palestínu sem mánaðarlegir styrktaraðilar, þ.e.SOS foreldrar barnanna sem þar eru í fjölskylduumönnun.

Svör við algengum spurningum

Íslenskir styrktaraðilar vilja eðlilega vita hvort og hvernig framlög þeirra eru að nýtast í þeim aðstæðum sem ríkja á Gaza. Að venju viljum við halda Íslendingum upplýstum um nýtingu á framlögum þeirra og höfum við hér tekið saman svör frá SOS Barnaþorpunum í Palestínu við algengustu spurningunum.

Getið þið útvegað helstu nauðsynjar eins og mat, vatn og skjól eins og staðan er núna?

Við sjáum í fréttum að hungursneyð ríki á Gaza vegna þess að erfiðlega gengur að koma hjálpargögnum inn á svæðið. Hvað þýðir það fyrir börnin í okkar umsjá?

Reem Alreqeb, verkefnastjóri SOS Barnaþorpanna á Gasa, segir að vöruskorturinn leiði af sér að verð á vatni og matvælum hafi rokið upp úr öllu valdi. SOS Barnaþorpin geta í krafti styrktaraðila keypt helstu nauðsynjar.

„Við gerum allt sem við getum, en aðgengi að helstu nauðsynjum er enn afar takmarkað. Matarframboð er mikið áhyggjuefni – markaðir eru nær tómir og það er erfitt að finna nægilega mikið af fersku grænmeti eða nauðsynlegum matvörum til að útbúa næringarríkar máltíðir. Við treystum á það sem er fáanlegt á staðnum, oft í ófyrirsjáanlegu magni og á miklu hærra verði."

„Vatn til þvotta fáum við úr brunni inni í tjaldbúðunum, og við notum rafstöð til að dæla því upp. Drykkjarvatnið fáum við úr vatnstönkum sem eru fylltir vikulega af staðbundnum birgi. Skjól er einnig af skornum skammti – við búum í tjöldum og viðarkofum sem veita litla vörn gegn veðri og vindum.

Aðstæður gera það nánast ómögulegt að fá læknisaðstoð. Mataraðstoð utan frá, eins og frá samfélagseldhúsum, hefur verið af lélegum gæðum og börnin hafna henni oft. Við reynum að bæta hana með því grænmeti sem við getum fundið, til að gera máltíðirnar bæði viðráðanlegri og næringarmeiri,“ segir Reem.

Nýtist söfnunarfé meðan hjálpagögn berast ekki inn á Gasa?

Já það gerir það svo sannarlega.  SOS Barnaþorpin geta í krafti styrktaraðila keypt helstu nauðsynjar sem eingöngu eru fáanlegar á uppsprengdu verði á Gaza. Þá eiga framlög styrktaraðila áfram eftir að skipta miklu máli því fyrirsjáanlegt er að börnin á Gasa þurfi langvarandi aðstoð til framtíðar.

Ástandið á Gasa hefur hins vegar lítil sem engin áhrif á framlög SOS foreldra sem styrkja stök börn eða barnaþorpin í Palestínu. Rekstur SOS í Palestínu fer fram á Vesturbakkanum og starfsfólk er bæði þar og á Gaza að sjá um umönnun barnanna.

Í hvað fer styrktarfé SOS-foreldra og SOS-neyðarvina á Gaza?

Svona er framlögum Íslendinga varið

Fjölmargir Íslendingar styrkja starfsemi SOS Barnaþorpanna á Gaza, bæði með stökum og mánaðarlegum framlögum. Langflestir eru SOS foreldrar barna á Gaza og er mánaðarlegum framlögum þeirra varið í framfærslu þeirra barna sem eru á framfæri barnaþorpsins sem stóð í Rafah. Öðrum framlögum er varið í neyðaraðgerðir samtakanna á Gaza.

Mannúðaraðstoð

  • Reiðufé, inneign í stafræn veski og efnislega aðstoð: matur, hreinlæti, húsaskjól.

  • Barnavernd: umönnun munaðarlausra og fylgdarlausra barna, barnvæn rými með sálfélagslegum stuðningi og leik.

  • Sálfélagslegur stuðningur (MHPSS): ráðgjöf, tilvísanir, aðstoð við fjölskyldur.

  • Menntun í neyð: tímabundin kennsla, aukakennsla, skólapakkar, formlegt og óformlegt nám.

  • Skjól: neyðarhúsnæði í búðum SOS.

Uppbygging

  • Félags- og efnahagslega endurreisn: atvinnusköpun, frumkvöðlastarf, fræ fjárhagslegs sjálfstæðis.

  • Þjálfun félagasamtaka á sviði barnaverndar og sálfélagslegs stuðnings.

  • Barnvæn rými: vitundarvakning um barnavernd, jafnrétti kynja og vernd gegn misnotkun.

  • Jafningjastuðningur, tómstundastarf, sumarbúðir.

Hvernig getum við verið viss um að ekkert af framlögum til SOS fari í spillingu?

Fagmennska í mannúðarstarfi skiptir öllu máli og lúta SOS Barnaþorpin ströngu eftirliti alþjóðasamtaka SOS Children´s Villages sem hlotið hafa hina alþjóðlegu CHS vottun sem neyðarhjálparsamtök með tilheyrandi ströngum verkferlum og eftirliti [Core Humanitarian Standard (CHS) certification].

SOS Barnaþorpin í Palestínu lúta ströngum reglum alþjóðasamtaka SOS í öllum rekstri og á það jafnt við um barnaþorpin, fjölskyldueflingu og neyðaraðgerðir.

  • Allir skattar sem tengjast starfsfólki og birgjum eru greiddir til lögmætra palestínskra stjórnvalda sen staðsett eru á Vesturbakkanum.
  • SOS Barnaþorpin í Palestínu eiga engin fjármálaleg tengsl við yfirvöld á Gaza.
  • Allir sem koma að ákvörðunum um hverjir fá aðstoð gangast undir athugun og mega t.d. ekki vera á alþjóðlegum refsiaðgerðarlistum.

  • Refsiaðgerðarprófanir eru einnig framkvæmdar á söluaðilum og birgjum sem sjá um greiðslur og birgðir.

Hvað hafa SOS Barnaþorpin hjálpað mörgum á Gaza?

Starf SOS Barnaþorpanna á Gaza

  • 53.000 manns hafa fengið stuðning frá upphafi stríðsins í október 2023.
  • 197 manns búa í búðum sem SOS Barnaþorpin hafa komið upp í Khan Younis. Barnaþorpið í Rafah eyðilagðist í sprengjuárásum.
  • 65 börn eru í búðunum, þar af 60 fylgdarlaus og aðskilin börn og 5 börn í varanlegri umönnun.
  • 45 fylgdarlaus og aðskilin börn hafa verið sameinuð fjölskyldum sínum aftur.
  • 30.632 manns hafa fengið áfallahjálp og þjónustu á sviði geðheilbrigðis frá SOS Barnaþorpunum á Gaza.
  • 16.632 manns hafa fengið fjárhagsaðstoð til að tryggja mat, nauðsynjar og hreinlætisaðstöðu. Það er gert með millifærslum á svokölluð stafræn veski (e-wallets) og hefur þessi leið reynst mjög vel.
  • 1.300 börn hafa fengið menntun og 4.500 námsgagnasettum hefur verið dreift.
  • Alls hafa 31.192 börn notið góðs af starfsemi SOS Barnaþorpanna í Gaza.
Hvar eru SOS barnaþorpin í Palestínu?

SOS Barnaþorpin reka tvö barnaþorp í Palestínu, eitt í Bethlehem á Vesturbakkanum og hitt í Rafah á Gaza en það var rýmt í mars 2024 og síðar eyðilagt í sprengjuárásum. Flest börnin voru flutt í barnaþorpið í Bethlehem en önnur urðu börn eftir á Gaza og búa þau nú í tímabundnum búðum SOS í Khan Younis. Beggja megin eru SOS mæður og annað starfsfólk sem hugsa vel um börnin, halda þeim í rútínu og gæta að andlegri heilsu þeirra.

Reem Alreqeb, verkefnastjóri SOS Barnaþorpanna á Gaza. Reem Alreqeb, verkefnastjóri SOS Barnaþorpanna á Gaza.

Svör við algengum spurningum

Við fengum líka Reem Alreqeb, verkefnastjóra SOS Barnaþorpanna á Gaza, til að svara fleiri spurningum styrktaraðila.

1. Hvar eruð þið og börnin stödd núna?

Við erum nú í flóttamannabúðum í Khan Younis á Gasa. Við fluttumst hingað eftir að við urðum að yfirgefa barnaþorpið Rafah átakanna. Búðirnar voru settar upp sem bráðabirgðaskýli í neyð.

2. Hvernig er daglegt líf ykkar?

Hver dagur er barátta fyrir lífi. Við byrjum á að meta helstu þarfir, tryggja öryggi barnanna, reyna að útvega nægan mat og hreint vatn, og bregðast við heilsufars- eða sálrænum neyðartilfellum. Stór hluti dagsins fer í að leita að nauðsynjum eins og grænmeti eða brauði, oft á uppsprengdu verði, og sinna velferð barnanna í mjög streituvaldandi aðstæðum. Við lifum við stöðugan kvíða, fylgjumst stöðugt með öryggisástandinu á meðan sprengingar og fréttir af innrásum nálgast landið í kringum okkur.

3. Hve mörg börn eru undir ykkar umsjón og hvað eru þau gömul?

Við sjáum nú um 46 börn, allt frá nokkurra mánaða aldri og upp í 17 ára. Sum þeirra voru á flótta með okkur, en öðrum var vísað til okkar, þar á meðal börn sem hafa misst alla fjölskyldu sína eða voru aðskilin í rýmingum.

4. Hvers konar umönnun veitið þið þessum börnum?

Við veitum alhliða umönnun: skjól, næringu eftir fremsta megni með þeim úrræðum sem við höfum (ásamt kærleiksríkum umönnunaraðilum), sálræna skyndihjálp og tilfinningalegan stuðning. Við reynum einnig að skapa daglega rútínu með skipulögðum leik- og námsstundum – jafnvel undir tjaldi – því stöðugleiki skiptir miklu fyrir tilfinningalegan bata barnanna. Í teyminu okkar eru umönnunaraðilar, sálfræðingar og félagsráðgjafar sem leggja sig alla fram þrátt fyrir afar takmarkaðar bjargir. Við leitum einnig uppi ættingja barnanna og vinnum að fjölskyldusameiningu þar sem það er mögulegt.

5. Hverjar eru stærstu áskoranirnar sem börnin standa frammi fyrir núna?

Matarskortur og sálræn áföll eru brýnustu málin. Skortur á næringarríkum mat er mjög alvarlegur, sérstaklega fyrir yngri börn. Mörg sýna einkenni vanlíðanar, martraða, einangrunar og tilfinningalegs dofa. Þau hafa misst heimili sín, fjölskyldur og öryggistilfinningu. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er einnig nánast ekkert.

6. Hverjar verða helstu áskoranir barnanna í framtíðinni?

Fyrir utan að lifa stríðið af verður stærsta áskorunin að endurreisa líf sitt – finna ættingja, komast aftur í nám og jafna sig á áfallinu. Fyrir þau sem eiga enga fjölskyldu er óvissan um framtíðarumönnun og vernd mikið áhyggjuefni. Afleiðingar andlegra áfalla verða langvarandi og flóknar.

7. Hefurðu áhyggjur af framtíð þeirra barna sem hafa enga ættingja til að annast þau? Hver væri besti kosturinn fyrir þau?

Já, ég hef miklar áhyggjur. Þetta er eitt það erfiðasta við aðstæður okkar. Sum þessara barna fæddust utan hjónabands, önnur hafa misst alla ættingja í stríðinu. Þau eiga enga að sem geta gripið þau og framtíð þeirra er óviss.

Fyrir þau börn sem eiga einhverja ættingja vinnum við náið með Félagsmálaráðuneytinu að því að meta aðstæður áður en fjölskyldusameining fer fram. Við tryggjum að umhverfið sé öruggt og að umönnunaraðilar geti sinnt börnunum. Eftir að börn eru sameinuð fjölskyldum sínum fylgjum við þeim áfram eftir og grípum inn ef þörf krefur.

Fyrir börn fædd utan hjónabands hefur ráðuneytið heimilað fóstur fyrir þau sem vilja. Við aðstoðum við það ferli, og besti mögulegi kosturinn er að hvert barn fái öruggt og kærleiksríkt heimili þar sem réttindi þess eru virt og tilfinningalegum og þroskalegum þörfum þess sinnt.

8. Hvers konar áskorunum standið þið frammi fyrir við að sameina börn aftur fjölskyldum sínum?

Stríðið hefur gert leitina að ættingjum mjög erfiða. Margir hafa sjálfir verið á flótta eða búa á svæðum sem við náum ekki til. Jafnvel þegar við finnum ættingja er efnahagsástandið svo slæmt að þeir ráða illa við að annast barn. Við reynum að styðja þessar fjölskyldur með nauðsynjum og sálfélagslegum stuðningi í gegnum frændsemisverkefni til að gera fjölskyldusameiningu mögulega.

9. Er eitthvað fleira sem þú vilt að fólk viti um aðstæður ykkar og barnanna sem þið annist?

Þessi börn eru ekki bara fórnarlömb – þau eru seig, skörp og full af möguleikum. En seigla dugar ekki ein og sér. Þau þurfa brýna aðstoð núna – mat, hreint vatn, sálrænan stuðning – og þau þurfa langvarandi vernd og stöðugleika. Við gerum allt sem við getum, en án alþjóðlegs stuðnings og athygli eigum við á hættu að tapa heilli kynslóð til áfalls og vanrækslu. Þetta miskunnarlausa stríð verður að stöðva, og öll börnin eiga rétt á að fá allar grunnþarfir sínar uppfylltar.

SOS foreldri barna á Gaza

SOS foreldri barna á Gaza

SOS foreldri barna á Gaza

Sem SOS foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem eru á framfæri barnaþorpsins og fer þeim nú fjölgandi.

Mánaðarlegt framlag
4.500 kr