Fréttayfirlit 19. ágúst 2025

Snerpa styrkir íþróttaiðkun barna í SOS Barnaþorpunum í Bosníu



Íslenska fótboltaakademían Snerpa coaching hefur skrifað undir samning við SOS Barnaþorpin á Íslandi þess efnis að akademían styrkir íþróttaiðkun barna hjá SOS Barnaþorpunum í Bosníu.

Samstarfið felur í sér að hluti af því fjármagni sem kemur inn í gegnum verkefni Snerpu rennur í stuðning við íþróttaiðkun barna og ungmenna hjá SOS Barnaþorpunum í Bosníu. Með þessum stuðningi vill akademían ekki aðeins styðja við ungt íþróttafólk hér heima, heldur einnig ungt íþróttafólk sem býr ekki við sömu tækifæri annarsstaðar í heiminum.

Frá vinstri: Þjálfarar og meðeigendur Snerpu, Gísli Martin, Mirza framkvæmdastjóri og Haukur Leifur ásamt Ragnari Schram, framkvæmdastjóra SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Frá vinstri: Þjálfarar og meðeigendur Snerpu, Gísli Martin, Mirza framkvæmdastjóri og Haukur Leifur ásamt Ragnari Schram, framkvæmdastjóra SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

SOS Barnaþorpin í Bosníu eru með um 190 börn á sínu framfæri, ýmist í hefðbundnum SOS fjölskyldum eða í fósturfjölskyldum. Mörg þessara barna æfa íþróttir og mun stuðningur Snerpu standa straum af kostnaði við æfingagjöld þeirra barna.

SOS Barnaþorpin eru alþjóðleg barnahjálparsamtök sem veita munaðarlausum og yfirgefnum börnum staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst. Frá stofnun SOS árið 1949 hafa samtökin komið upp öflugu menntakerfi og öllum börnum á framfæri samtakanna er tryggð menntun. 

Það gleður okkur sérstaklega að sjá hvernig starfsemi Snerpu leggur áherslu á að búa börn undir framtíðina, enda er það einmitt einn af lykilþáttunum í okkar starfi. Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi
Drengjalið SOS barnaþorpsins í Sarajevo varð heimsmeistari fótboltaliða fósturbarna, Hope for Mundial. Drengjalið SOS barnaþorpsins í Sarajevo varð heimsmeistari fótboltaliða fósturbarna, Hope for Mundial.

Þjálfarinn ólst upp í barnaþorpi

Það er til marks um öflugt íþróttastarf hjá SOS Barnaþorpunum í Bosníu að drengjalið SOS barnaþorpsins í Sarajevó stóð uppi sem sigurvegari á Hope for Mundial, heimsmeistaramóti fósturbarna sem fram fór í Póllandi á síðasta ári.

Þjálfari liðsins er Emir Piric sem sjálfur ólst upp í SOS barnaþorpi. Hann er útskrifaður íþróttafræðingur, fyrrverandi knattspyrnumaður og farsæll frumkvöðull í upplýsingatæknigeiranum. Emir er frábær fyrirmynd og íþróttaþjálfari. Árangur hans með drengjalið SOS barnaþorpsins í Sarajevó sýnir að þegar börn njóta leiðsagnar og umönnunar eru þeim allir vegir færir.

Mirza, stofnandi Snerpu, skrifar undir samstarfssamninginn við SOS Barnaþorpin. Mirza er fæddur í Sarajevó en ólst upp á Íslandi. Mirza, stofnandi Snerpu, skrifar undir samstarfssamninginn við SOS Barnaþorpin. Mirza er fæddur í Sarajevó en ólst upp á Íslandi.

Starfar með föður sínum í Snerpu

Mirza Hasecic fékk hugmyndina að stofnun Snerpu í háskólanámi í Bandaríkjunum. Það er vel við hæfi að SOS Barnaþorpin í Bosníu njóti góðs af þessu samstarfi. Mirza á djúpar rætur að rekja til Bosníu enda er hann fæddur þar, í Sarajevó árið 1997, en hann ólst upp á Íslandi.

Faðir Mirza kemur einnig að starfseminni sem yfirþjálfari. Nihad Hasecic flutti til Íslands frá Bosníu árið 1997 og hefur starfað sem þjálfari hér á landi í yfir 27 ár, meðal annars hjá Sindra, Grindavík og Keflavík.

„Frá upphafi hefur markmiðið verið að byggja upp faglegt og langtímamiðað þjálfunarumhverfi sem hjálpar ungum leikmönnum að ná fram sínu besta – en um leið hefur þetta alltaf verið leið mín til að gefa til baka til míns heimalands, Bosníu,“ segir Mirza sem rekur akademíuna í nánu samstarfi við meðeigendur sína og þjálfara, Hauk Leif og Gísla Martin.

Rímar vel við áherslur SOS

Lykiláhersla í starfi SOS Barnaþorpanna er að börn alist upp við umhyggju og leiðsögn því öll börn þurfa á einhverjum að halda sem er ekki sama um þau - einhverjum sem stendur með þeim skilyrðislaust. Þetta rímar vel við stefnu Snerpu í íþróttaþjálfun barna.

„Æfingarnar okkar byggja á litlum hópum, aðeins 14 leikmönnum í senn, sem er skipt niður í tvo minni hópa til að tryggja að hver og einn fái raunverulega athygli og markvissa leiðsögn,“ segir Mirza.

Nýlegar fréttir

500 dagar frá dramatískri rýmingu barnaþorpsins á Gaza
24. júl. 2025 Almennar fréttir

500 dagar frá dramatískri rýmingu barnaþorpsins á Gaza

Í dag eru sléttir 500 dagar liðnir síðan SOS Barnaþorpin í Palestínu þurftu að rýma SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza. Frá árinu 2000 höfðu yfirgefin og munaðarlaus börn fengið þar nýtt heimili, fjölskyl...

Ný fjölskylduefling í Úganda
16. júl. 2025 Fjölskylduefling

Ný fjölskylduefling í Úganda

Ný fjölskylduefling er hafin í Úganda sem fjármögnuð er af SOS Barnaþorpunum á Íslandi og styrktarðilum hér á landi, SOS-fjölskylduvinum. Í Úganda hjálpum við barnafjölskyldum út úr sárafátækt og vinn...