Fréttayfirlit 11. september 2025

Fjárstuðningur í stafræn veski reynist vel á Gaza



SOS Barnaþorpin eru ein af mörgum hjálparsamtökum sem starfa á Gaza í Palestínu og er gott samstarf þeirra á milli. SOS Barnaþorpin gegna þarna lykilhlutverki við umönnun munaðarlausra barna í fjölskylduumhverfi, að verja og styðja við börn sem hafa orðið fyrir áföllum auk þess að veita neyðaraðstoð.

SOS Barnaþorpin hafa starfað í Palestínu síðan 1968 og eru því til staðar þegar neyð skellur á. Samtökin búa því yfir dýrmætri reynslu, þekkingu og tengslaneti.

Umönnun fylgdarlausra barna og neyðaraðstoð

65 fylgdarlaus og aðskilin börn búa í búðum sem SOS Barnaþorpin komu upp í Khan Younis eftir að barnaþorpið í Rafah eyðilagðist í sprengjuárásum. Önnur 45 börn hafa verið sameinuð fjölskyldum sínum aftur. Hvað neyðaraðgerðir samtakanna varðar á Gaza hafa 53 þúsund manns fengið stuðning frá SOS.

Hátt í 17 þúsund manns hafa fengið fjárstuðning í gegnum stafræn veski (e-wallets) í farsíma sínum. Þessi stuðningur gerir fólkinu kleift að kaupa brýnustu nauðsynjar sem eru á uppsprengdu verði meðan hjálpargögn berast stopult inn á Gaza.

Mynd: Hosny Salah - Gaza í ágúst 2025. Mynd: Hosny Salah - Gaza í ágúst 2025.

Starf SOS Barnaþorpanna á Gaza

  • 53.000 manns hafa fengið stuðning frá upphafi stríðsins í október 2023.
  • 197 manns búa í búðum sem SOS Barnaþorpin hafa komið upp í Khan Younis. Barnaþorpið í Rafah eyðilagðist í sprengjuárásum.
  • 65 börn eru í búðunum, þar af 60 fylgdarlaus og aðskilin börn og 5 börn í varanlegri umönnun.
  • 45 fylgdarlaus og aðskilin börn hafa verið sameinuð fjölskyldum sínum aftur.
  • 30.632 manns hafa fengið áfallahjálp og þjónustu á sviði geðheilbrigðis frá SOS Barnaþorpunum á Gaza.
  • 16.632 manns hafa fengið fjárhagsaðstoð til að tryggja mat, nauðsynjar og hreinlætisaðstöðu. Það er gert með millifærslum á svokölluð stafræn veski (e-wallets) og hefur þessi leið reynst mjög vel.
  • 1.300 börn hafa fengið menntun og 4.500 námsgagnasettum hefur verið dreift.
  • Alls hafa 31.192 börn notið góðs af starfsemi SOS Barnaþorpanna í Gaza.
Mynd: Hosny Salah - Gaza í ágúst 2025. Mynd: Hosny Salah - Gaza í ágúst 2025.

Svona er framlögum Íslendinga varið

Fjölmargir Íslendingar styrkja starfsemi SOS Barnaþorpanna á Gaza, bæði með stökum og mánaðarlegum framlögum. Langflestir eru SOS foreldrar barna á Gaza og er mánaðarlegum framlögum þeirra varið í framfærslu þeirra barna sem eru á framfæri barnaþorpsins sem stóð í Rafah. Öðrum framlögum er varið í neyðaraðgerðir samtakanna á Gaza.

Tvö SOS barnaþorp í Palestínu

SOS Barnaþorpin reka tvö barnaþorp í Palestínu, eitt í Bethlehem á Vesturbakkanum og hitt í Rafah á Gaza en það var rýmt í mars 2024 og síðar eyðilagt í sprengjuárásum. Flest börnin voru flutt í barnaþorpið í Bethlehem en önnur urðu börn eftir á Gaza og búa þau nú í tímabundnum búðum SOS í Khan Younis. Beggja megin eru SOS mæður og annað starfsfólk sem hugsa vel um börnin, halda þeim í rútínu og gæta að andlegri heilsu þeirra.

Ísskápur á einu heimilinu í SOS búðunum í Khan Younis. Ísskápur á einu heimilinu í SOS búðunum í Khan Younis.

19.000 börn hafa misst báða foreldra sína

Samkvæmt tölum frá hagstofu Palestínu í ágúst 2025 hafa 39.384 börn misst annað eða báða foreldra sína. Heilbrigðisráðuneytið á Gaza greindi nýlega frá því að 19.000 börn hafi misst báða foreldra sína. Algengast er að ættingjar taki að sér þau börn en önnur börn fá heimili og fjölskyldu hjá SOS Barnaþorpunum.

Hungur og vannæring í sögulegum hæðum á Gaza

Hungur og vannæring á Gasa eru nú í hámarki síðan stríðið brast á í október 2023. Aðstoðin sem kemst inn á svæðið dugar engan veginn til að mæta þörfinni. Samkvæmt Alþjóða matvælaáætluninni (WFP), einum af aðeins átta hjálparsamtökum sem fá að senda neyðaraðstoð til Gaza í gegnum samræmda ferla Sameinuðu þjóðanna, er aðstoð flutt inn í takmörkuðum mæli á hverjum degi og leiðir innan Gaza eru mjög hættulegar. Öll mannúðaraðstoð SOS eykst þegar hjálpargögn berast og vopnahlé kemst á.

Reem Alreqeb, forstöðukona SOS Barnaþorpanna á Gaza. Reem Alreqeb, forstöðukona SOS Barnaþorpanna á Gaza.

„Það eru börn hérna sem hafa upplifað mikil áföll“

Reem Alreqeb, forstöðukona SOS Barnaþorpanna á Gaza, lýsir ástandinu svona. 

  • „Lífið í búðunum er stöðug barátta. Við erum að berjast á hverjum degi fyrir vatni, rafmagni, mat og svo mörgu öðru sem börnin og umsjónarfólk þeirra þurfa á að halda. Þrátt fyrir alla þessa erfiðleika vinnur teymið okkar áfram af öllum krafti fyrir börnin.“
  • „Það eru börn hérna sem hafa upplifað mikil áföll. Sum hafa misst foreldra sína eða jafnvel orðið vitni að því þegar þau voru drepin. Sum muna ekki einu sinni hvaðan þau komu.“
  • „Það er ekki auðvelt að halda út í þessum aðstæðum. En við vitum að fjöldi barna og fjölskyldna reiðir sig á okkur.“
  • „Stundum finnum við fyrir örmögnun og vonleysi. En þegar við sjáum barn hlæja yfir smákexi eða brauðbita sem við höfum útvegað, fær það okkur til að halda áfram.“
  • „Þó að við finnum stundum til vonleysis, segja börnin okkur frá draumum sínum. Sum vilja verða læknar, hjúkrunarfræðingar eða lögfræðingar til að verja réttindi sín. Þetta gefur okkur styrk til að halda áfram.“
Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu. Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu.

Hveitipoki fimmfaldaðist í verði

Ghada Hirzallah, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Palestínu, starfar á landsskrifstofu SOS í Palestínu sem staðsett er á Vesturbakkanum. Hún er í stöðugu sambandi við Reem og hrósar sérstaklega starfsfólki SOS á Gaza fyrir þrautsegju í þessum ómanneskjulegu aðstæðum.

„Í hvert sinn sem ég spyr Reem hvernig hún hafi það, svarar hún: ‘Okkur líður vel. Frábærlega.’ Í raun erum við að læra af þeim. Ég dáist að því hversu sterk þau eru og seig. Þau gefa okkur jákvæða orku, ekki öfugt.“
Ghada segir að hungrið á Gaza sé á versta stigi frá upphafi stríðsins, og að neyðaraðstoðin sem kemst inn á svæðið dugi engan veginn til að mæta þörfum íbúanna.

„Við búum einnig við óðaverðbólgu. Til dæmis hefur verð á 50 kílóum af hveiti hækkað úr 28 bandaríkjadölum í 740 dali,“ segir Ghada.

SOS foreldri barna á Gaza

SOS foreldri barna á Gaza

SOS foreldri barna á Gaza

Sem SOS foreldri barna á Gaza styrkir þú SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza í Palestínu með mánaðarlegu framlagi sem nemur 4.500 krónum. Framlagi þínu er varið í daglegan rekstur svo tryggja megi öryggi og velferð þeirra barna sem eru á framfæri barnaþorpsins og fer þeim nú fjölgandi.

Mánaðarlegt framlag
4.500 kr