Búið að velja fjölskyldurnar á Filippseyjum
Vinna við gangsetningu Fjölskyldueflingarverkefnis okkar á Filippseyjum gengur samkvæmt áætlun. Í dag lauk vinnu starfsfólks SOS þar í landi við að velja þær fjölskyldur sem verða skjólstæðingar okkar í verkefninu.
57 milljónir króna frá Íslandi
Verkefnið er alfarið fjármagnað af SOS Barnaþorpunum á Íslandi með aðstoð Utanríkisráðuneytisins sem lagði til rúmar 45 milljónir króna. Framlag SOS á Íslandi er rúmar 11 milljónir króna.
Á bilinu 580-600 barnafjölskyldum í nágrenni SOS barnaþorpanna í Calbayog og Tacloban verður hjálpað að verða fjárhagslega sjálfstæðar svo þær geti mætt grunnþörfum barnanna. Aðstoðin nær til 1800 barna og ungmenna.
Umfangsmikill undirbúningur
Verkefnið á Filippseyjum hófst formlega 1. apríl sl. og er til þriggja ára. Fyrstu mánuðirnir hafa farið í starfsmannaráðningar, uppsetningu á skrifstofum, mati á aðstæðum fólksins á svæðinu og viðtölum við fjölskyldurnar sem þurfa á hjálp okkar að halda. Nú í júlí verður lokið við að útvega skólagögn fyrir 1500 börn.
Mikil neyð á Filippseyjum
Eitt af hverjum 20 börnum á Filippseyjum hefur ýmist verið yfirgefið, er munaðarlaust eða vanrækt. Nærri 13 milljónir af 38 milljónum barna á Filippseyjum eru í fjölskyldum sem lifa undir fátæktarmörkum. Þetta er yfir 30% barnafjölskyldna. Fátæktin gerir börn sérstaklega berskjölduð fyrir ógnum af ýmsu tagi og til að mynda er áætlað að um 300 þúsund börn séu fórnarlömb mansals.
Fjórða íslenska verkefnið
Þetta er fjórða fjölskyldueflingarverkefnið sem SOS á Íslandi fjármagnar. Það fyrsta var í Gíneu Bissá og nú eru þrjú yfirstandandi verkefni, á Filippseyjum, í Eþíópíu og Perú.
Hér má lesa allt um Fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna sem hefur vaxið hratt undanfarin ár.
Nýlegar fréttir

Snerpa styrkir íþróttaiðkun barna í SOS Barnaþorpunum í Bosníu
Íslenska fótboltaakademían Snerpa coaching hefur skrifað undir samning við SOS Barnaþorpin á Íslandi þess efnis að akademían styrkir íþróttaiðkun barna hjá SOS Barnaþorpunum í Bosníu.

500 dagar frá dramatískri rýmingu barnaþorpsins á Gaza
Í dag eru sléttir 500 dagar liðnir síðan SOS Barnaþorpin í Palestínu þurftu að rýma SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza. Frá árinu 2000 höfðu yfirgefin og munaðarlaus börn fengið þar nýtt heimili, fjölskyl...