Ástandið versnar hratt á Gasa - SOS gefur út yfirlýsingu

Mannúðarástandið á Gasa í Palestínu hefur versnað hratt á síðustu dögum og SOS Barnaþorpin eru meðal hjálparsamtaka sem glíma við hindranir í starfi þar. SOS Barnaþorpin starfa á Gasa og sjá þar ekki aðeins fyrir umkomulausum börnum heldur veita einnig neyðaraðstoð. Fjölmargir Íslendinga styrkja börn sem eru á framfæri SOS Barnaþorpanna í Palestínu og einnig neyðaraðgerðir samtakanna á Gaza. Við reynum eftir fremsta megni að upplýsa þessa styrktaraðila um stöðu mála.
Vopnuð átök, áframhaldandi brottflutningur og skortur á öruggum svæðum hafa gert daglegt líf sífellt erfiðara, sérstaklega fyrir börn. Aðgangur að grunnþörfum eins og hreinu vatni, mat, heilbrigðisþjónustu og menntun er mjög takmarkaður. Eyðilegging innviða og takmarkaður aðgangur hjálparsamtaka til mannúðaraðstoðar hafa leitt til einangrunar fólks sem er í aukinni hættu.
Við köllum eftir brýnum aðgerðum!
Alþjóðasamtök SOS Barnaþorpanna hafa nú birt yfirlýsingu og sent út ákall til ráðfólks í ljósi nýjustu vendinga á Gasa þar sem mannúðarkrísan eykst nú hratt. SOS Barnaþorpin krefjast þess að fá tafarlausan aðgang að mannúðaraðstoð til Gasa og að mannúðarlög séu virt.
Yfirlýsing alþjóðasamtaka SOS Barnaþorpanna
SOS kallar eftir...
-
Tafarlausum aðgangi að mannúðaraðstoð á Gasa. Það þarf að ná til óbreyttra borgara – sérstaklega barna – með lífsnauðsynlega aðstoð eins og mat, vatn, skjól og heilbrigðisþjónustu.
-
Að mannúðarlög séu virt. Aðstoð verður að vera undir stjórn óháðra, hlutlausra, borgaralegra stofnana og án pólitískra áhrifa. Börn verða að fá þá aðstoð sem þau þurfa til að vernda líf sitt og velferð. Öryggi og umönnun þeirra verður að vera forgangsverkefni í allri mannúðaraðstoð.
-
Virðingu fyrir alþjóðlegum lagaskyldum. Með því að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (ICC) og Alþjóðadómstóllinn (ICJ) rannsaka og meðhöndla mál tengd Gasa, verður alþjóðasamfélagið að krefjast ábyrgðar af öllum aðilum – þar með talið ríkjum – sem brjóta mannúðarlög og stofna lífi óbreyttra borgara í hættu.

Börnin hjá SOS á Gaza
Starfsfólk SOS Barnaþorpanna, fylgdarlaus börn eða aðskilin frá fjölskyldu og fjölskyldur á flótta dvelja nú saman í tjaldsvæði sem SOS Barnaþorpin í Rafah hafa komið upp í Khan Younis. Tjaldsvæðið er staðsett innan svokallaðra mannúðarsvæða sem ísraelski herinn hefur skilgreint.
Samtals dvelja þar 151 einstaklingur, þar af:
-
38 fylgdarlaus börn
-
5 börn í langtímaumönnun
-
11 starfsmenn í umönnun
-
19 starfsmenn SOS ásamt fjölskyldum sínum.
Svæðið er um 10.000 fermetrar og hefur verið skipulagt með öryggi og velferð að leiðarljósi. Börn og starfsfólkið sem annast þau eru aðskilin frá öðrum flóttamönnum til að tryggja vernd þeirra.
Að neita óbreyttum borgurum um aðgang að mat, vatni og lyfjum getur jafngilt stríðsglæp. Úr yfirlýsingu SOS Barnaþorpanna (SOS Children´s Villages)
Getur jafngilt stríðsglæp
Eins og staðan núna á Gasa stefnir í algjört mannúðarhrun, ekki aðeins eru börn að láta lífið í stríðsátökum heldur standa nú líka frammi fyrir því að deyja úr hungri.
SOS Barnaþorpin eru djúpt uggandi yfir áframhaldandi hindrunum á mannúðaraðstoð og nýjustu fregnum um að dreifingarkerfi Sameinuðu þjóðanna í Gasa kunni að verða stöðvað.
Slíkt gæti alvarlega ógnað hlutleysi og sjálfstæði mannúðaraðstoðar og jafnframt falið í sér brot á alþjóðlegum mannúðarlögum. Leiðtogar mannúðarstofnana, allt frá Alþjóða Rauða krossinum til mannréttindasérfræðinga SÞ, hafa sagt skýrt: að neita óbreyttum borgurum um aðgang að mat, vatni og lyfjum getur jafngilt stríðsglæp.
SOS Barnaþorpin hafa starfað í Palestínu frá 1968 og veitt umkomulausum börnum umönnun og vernd. Yfir 2.500 börn og fjölskyldur hafa notið stuðningsins. Við erum áfram staðráðin í að mæta brýnum þörfum barna sem eru í umsjón okkar og þeirra sem eru í hættu á að missa slíka umönnun.
Nýlegar fréttir

Súdanir eygja von í mestu mannúðarkrísu í heimi
Rúmlega 500 manns sneru á dögunum aftur heim til sín með aðstoð SOS Barnaþorpanna í Súdan eftir á annað ár á vergangi. Þó þessir flutningar gefi fólki í landinu von er enn langt í land því innviðir la...

Boðað til aðalfundar SOS Barnaþorpanna
Boðað er til aðalfundar SOS Barnaþorpanna mánudaginn 19. maí kl.17:00 í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Hábraut 1a (gegnt Gerðasafni). Rétt til setu á aðalfundi eru skráðir aðildarfélag...