Fréttayfirlit 26. júní 2024

843 krónur af hverju þúsund króna framlagi

843 krónur af hverju þúsund króna framlagi

Það skiptir okkur miklu máli að geta sýnt styrktaraðilum samtakanna hér á landi fram á lágan rekstrarkostnað og að sem stærstur mögulegur hluti framlaga þeirra skili sér í sjálft hjálparstarfið. Í ársskýrslu SOS fyrir árið 2023 kemur fram að af hverjum eitt þúsund krónum sem Íslendingar gefa í framlag til SOS skila 843 krónur sér til barnanna eða í sjálft hjálparstarfið.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein fjármálastjóra í ársskýrslu SOS fyrir árið 2023.

Af heildartekjum ársins var hlutfall skrifstofu- og stjórnunarkostnaðar 17,5%. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir launakostnaði erlendra- og innlendra verkefna nemur kostnaðarhlutfallið 15,7%. Úr grein fjármálastjóra í ársskýrslu SOS

Um 21 þúsund styrktu SOS á árinu

Á árinu 2023 styrktu 20.857 einstaklingar og 579 fyrirtæki SOS Barnaþorpin á Íslandi, ýmist með mánaðarlegum framlögum, stökum eða bæði. Framlög einstaklinga og fyrirtækja námu 624,6 milljónum kr. á árinu en voru 616,6 m.kr. árið 2022. Opinber framlög hækkuðu milli ára og námu 97,4 milljónum kr., samanborið við 94,8 milljónir kr. árið 2022. Þannig námu heildarframlög styrktaraðila 722 milljónum kr. á árinu 2023 og hækkuðu þau um 10,5 milljónir kr. milli ára.

Þrátt fyrir að framlög styrktaraðila hafi hækkað um 10,5 milljónir kr. milli ára nam hækkun heildartekna samtakanna 95,5 milljónum og voru 800 milljónir kr. árið 2023. Skýrist það þannig að liðurinn fjármagnstekjur og gengishagnaður/tap var jákvæður um 75 milljónir á árinu 2023 á meðan hann var neikvæður um 10 milljónir kr. á árinu 2022.

600 milljónir frá almenningi

Frá stofnun samtakanna hér á landi hefur almenningur stutt dyggilega við starfið og var þar engin undantekning á árinu 2023. Af þeim 722 milljónum sem söfnuðust frá styrktaraðilum kom 84% styrkja frá almenningi eða rúmar 600 milljónir kr. Stærsti hluti af framlögum til SOS á Íslandi kemur frá SOS-foreldrum sem við sendum til barnaþorpa í 107 löndum.

Sem fyrr voru stök framlög eins og valkröfur stór hluti heildarframlaga auk sölu á jóla-, minningar- og gjafakortum. Börn styrktu SOS með ágóða af skemmtilega fjölbreyttum fjáröflunarleiðum sem fyrr og er alltaf ánægjulegt að verða vitni af því hvað íslenskum börnum er umhugað um jafnaldra sína sem búa við aðrar aðstæður annarsstaðar í heiminum.

Rekstrarkostnaður 15,7%

Af heildartekjum ársins var hlutfall skrifstofu- og stjórnunarkostnaðar 17,5% sem er fyrir neðan viðmið okkar um 20% þak á rekstrarkostnaði. Þess ber þó að geta að inni í þeirri tölu er launakostnaður vegna beinnar umsýslu starfsfólks hér á landi við erlend- og innlend verkefni. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir launakostnaði erlendra- og innlendra verkefna nemur kostnaðarhlutfallið 15,7%. Þetta þýðir að á árinu 2023 runnu 843 krónur af hverju eitt þúsund króna framlagi í sjálft hjálparstarfið.

Rakel Lind Hauksdóttir
fjármálastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi

Sjá einnig: Tekur SOS Barnaþorpanna á Íslandi aldrei verið hærri
Sjá einnig: Fjáröflunarleiðir endurmetnar

Nýlegar fréttir

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan
8. okt. 2024 Almennar fréttir

Kylfingar úr Oddi styrkja nauðstödd börn í Súdan

Þúsundir Íslendinga hafa lagt neyðarsöfnunum SOS Barnaþorpanna lið á árinu með smærri og stærri framlögum. Nú í október barst rausnarlegt framlag frá félagsskap nokkurra kylfinga í Golfklúbbnum Oddi, ...

Sjáðu Eva Ruzu ræða við Sonam Gangsang um árin í SOS barnaþorpi
29. sep. 2024 Almennar fréttir

Sjáðu Eva Ruzu ræða við Sonam Gangsang um árin í SOS barnaþorpi

Íslenskum SOS-foreldrum gafst á dögunum tækifæri á að hitta Sonam Gangsang frá Tíbet sem ólst upp í barnaþorpi. Eva Ruza ræddi við Sonam og birtum við hér upptöku frá viðburðinum.