Fréttayfirlit 18. júní 2024

Fjáröflunarleiðir endurmetnar

Fjáröflunarleiðir endurmetnar

Árið 2023 var gott ár í rekstri SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Aldrei hafa tekjur samtakanna verið hærri og nutu þúsundir barna víða um heim góðs af stuðningi Íslendinga við samtökin. Helst vekur líklega athygli hækkun á tekjum milli ára sem hækkuðu um 13% frá fyrra ári.

Þetta ávarp framkvæmdastjóra birtist í ársskýrslu SOS fyrir árið 2023.

Þrátt fyrir mikla hækkun tekna fækkaði mánaðarlegum styrktaraðilum um 89 á milli ára og voru þeir 10.653 um áramótin. Gerðar voru þær breytingar á styrktarleiðum að vilji maður styrkja heilt barnaþorp í stað eins barns í barnaþorpi, kallast það ekki lengur barnaþorpsvinur, heldur SOS foreldri allra barna í þorpinu. Þeir sem fyrir voru barnaþorpsvinir tóku vel í nafnabreytinguna og margir þeirra hækkuðu mánaðarlegt framlag sitt við breytinguna.

SOS blaðið og jólakort of kostnaðarsöm

Fjáröflun gekk vel á árinu eins og reikningar ársins sýna. Fjáröflun er síbreytileg og þurfum við stöðugt að endurmeta fjáröflunarleiðir útfrá kostnaði og tekjum en einnig útfrá breytingum í samfélaginu. Þannig hættum við að gefa út ný jólakort á árinu vegna hækkandi dreifingakostnaðar og minnkandi sölu. Að sama skapi hélt drefingakostnaður SOS blaðsins áfram að hækka og hafa samtökin hætt að gefa út prentað blað, a.m.k. í bili.

Fjáröflun er síbreytileg og þurfum við stöðugt að endurmeta fjáröflunarleiðir útfrá kostnaði og tekjum en einnig útfrá breytingum í samfélaginu. Ávarp framkvæmdastjóra í ársskýrslu SOS

Hæstiréttur staðfesti erfðagjöf til SOS

Erfðaskrá Baldvins Leifssonar, sem SOS Barnaþorpin fengu veður af í október 2022, nokkrum mánuðum eftir andlát Baldvins, reyndist geyma þá hinstu ósk hans að SOS Barnaþorpin fengju nánast allar eigur hans. Lögmaður eina lögerfingja Baldvins reyndi að fá erfðaskrána ógilda og fór nokkurt púður í það hjá samtökunum allt árið 2023, bæði í tíma og fjármunum, að verja þessa hinstu ósk Baldvins. Með ákvörðun Hæstaréttar í mars 2024 fékkst erfðaskráin endanlega staðfest og erfa því SOS Barnaþorpin eignir Baldvins. Áður höfðu bæði Héraðsdómur og Landsréttur staðfest erfðaskrána. Kemur gjöfin inn á ársreikning næsta árs.

5,7 stöðugildi á skrifstofu SOS

Breytingar urðu á hópi velgjörðasendiherra SOS Barnaþorpanna þegar við kvöddum Vilborgu Örnu Gissurardóttur og buðum Evu Ruzu velkomna í hópinn. Vilborgu Örnu eru þökkuð frábær störf í þágu samtakanna. Auk Evu eru Eliza Reid, Rúrik Gíslason og Hera Björk Þórhallsdóttir velgjörðasendiherrar SOS. Engar breytingar urðu á starfsmannahópi samtakanna hér á landi. Stöðugildi voru 5,7 og voru SOS Barnaþorpin á Íslandi útnefnd Fyrirmyndarfyrirtæki VR annað árið í röð.

Áfram vann starfsfólk og stjórn að góðum og bættum stjórnarháttum og má nefna sem lið í þeirri þróun að tilnefninganefnd hóf störf, en henni er ætlað að stuðla að faglegu vali á fólki í stjórn samtakanna.

Enn eitt árið sýndu SOS Barnaþorpin að hægt er að styðja við börn í neyð og gera heiminn ögn betri. Ekkert af þessu hefði þó verið mögulegt án styrktaraðilanna. Takk fyrir að vera með okkur í þessu mikilvæga verkefni!

Ragnar Schram
f
ramkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi

Sjá einnig: Tekjur SOS Barnaþorpanna á Íslandi aldrei verið hærri

Nýlegar fréttir

SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
13. sep. 2024 Almennar fréttir

SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu

Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
10. sep. 2024 Almennar fréttir

Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi

SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.