„Þetta var mjög tilfinningaþrungin stund fyrir mig“
Ímyndaðu þér hamingjutilfinninguna sem færi um þig ef þú kæmist að raun um að þú hefðir ekki aðeins breytt framtíð eins barns til hins betra heldur fjölskyldu barnsins líka. Ímyndaðu þér svo hvernig væri að hitta „barnið“ 35 árum síðar. Ingibjörg Steingrímsdóttir í Kópavogi þekkir þessar tilfinningar því hún og Sonam Gangsang áttu hjartnæma endurfundi í haust.
Sonam ólst að stórum hluta upp í SOS barnaþorpi fyrir börn landflótta Tíbetbúa á Indlandi. Ingibjörg gerðist SOS-foreldri hinnar sex ára Sonam árið 1989 og styrkti stúlkuna síðar aukalega til framhaldsnáms. Sonam hefur fyrir vikið náð langt í lífinu og starfar í menntamálaráðuneyti tíbetsku ríkisstjórnarinnar í útlegð í Dharamshala á Indlandi. Þar er hún samhæfingarstjóri lestrarkennslu yngstu barnanna í 45 skólum fyrir tíbetsk börn á Indlandi og í Nepal.
Það sem hófst með litlum stuðningi Ingibjargar hefur ekki bara skilað Sonam alla þessa leið heldur gat Sonam líka aðstoðað systur sínar til náms og veitt fátækum foreldrum sínum betra líf.
Lestu sögu Sonam: Úr fátækt til frama
Svona tækifæri gefst mér bara einu sinni á ævinni. Sonam
Til Íslands í sinni fyrstu utanlandsferð
Eftir reglulegar bréfaskriftir milli þeirra á árum áður náði Ingibjörg að heimsækja Sonam árið 2008 og nú 16 árum síðar endurgalt Sonam þá heimsókn þegar hún kom til Íslands í sinni fyrstu utanlandsferð. „Þetta var dásamleg heimsókn. Svona tækifæri gefst mér bara einu sinni á ævinni,“ segir Sonam sem fannst sérstaklega merkilegt að koma inn á heimili Ingibjargar eftir allan þennan tíma.
„Ég var mjög spennt fyrir því að hitta Ingibjörgu en um leið dálítið taugaóstyrk því við vorum að hittast í fyrsta sinn í mjög langan tíma. Þetta var mjög tilfinningaþrungin stund fyrir mig. Það gladdi mig að sjá hana svona ánægða. Ég var líka svo ánægð með að sonur hennar og barnabörn voru hjá henni þennan dag,“ segir Sonam sem fékk meira út úr heimsókninni en hún þorði að vona.
Ingibjörg skrifaði um heimsókn sína til Sonam í fréttablað SOS Barnaþorpanna árið 2008.
Lesa einnig: Draumurinn sem rættist
Endurvakti líka gömul kynni við barnabarn Ingibjargar
Sonam vissi ekki að hún væri um það bil að endurvekja gömul kynni við Rakel Tönju, barnabarn Ingibjargar, en þær skrifuðust stuttlega á þegar þær voru að komast á unglingsaldurinn fyrir rúmum 25 árum. Svo fór að fjölskyldur Rakelar og Sonam náðu að verja dýrmætum tíma saman meðan á Íslandsdvölinni stóð og úr varð nánari vinátta sem þær ætla að rækta.
Það var óvænt ánægja og samverustundirnar sköpuðu dýrmætar hamingjuminningar fyrir okkur. Sonam
„Aldrei trúað að við myndum nokkurn tímann hittast“
Rakel Tanja er líka himinlifandi með að fá Sonam aftur inn í líf sitt. „Sniglapóstur fyrir 25 árum hægði á okkar samskiptum. Ég hafði aldrei trúað að við myndum nokkurn tímann hittast, og það hér á Íslandi. Það er draumur okkar að fara út og heimsækja barnaþorpið hennar og mín SOS styrktarbörn. Ég styrki líka líka tíbetsk börn á Indlandi,“ sagði Rakel Tanja á viðburði með SOS foreldrum á Íslandi í tilefni af heimsókn Sonam.
Grét af þakklæti – „Mér leið eins og stjörnu“
Tugir SOS foreldra á Íslandi sóttu viðburðinn og það hreyfði mjög svo við Sonam að hitta allt þetta fólk sem hafði áhuga á hennar sögu. Mjög svo reyndar að hún brast í grát þegar hún þakkaði fyrir sig.
„Það gladdi mig svo að sjá viðbrögðin, þetta varð eitthvað svo yfirþyrmandi upplifun. Mér leið eins og stjörnu þennan dag, margir komu að máli við mig og tóku myndir af sér með mér. Þetta var svo björt og hamingjurík stund fyrir mig,“ segir Sonam sem vonast til að heimsókn sín til Íslands verði til þess að fleiri Íslendingar gerist SOS foreldrar.
Eva Ruza, velgjörðasendiherra SOS á Íslandi, stýrði viðburðinum sem hægt er að horfa á með íslenskum texta á YouTube rásinni okkar.
Glöggt er gests augað
Það er áhugavert að heyra að lokum hvað kom Sonam mest á óvart við Ísland. „Það eru öll þessi opnu svæði í borginni þar sem hægt er að vera með börn, allar stóru sundlaugarnar með heita vatninu og að geta farið í ísbúð þó það sé ekki hlýtt úti. Þetta er eitthvað sem ég sá hvergi á internetinu áður en ég kom. (Sleppa bláletraða ef það er pláss fyrir rauða en ekki bláa.) Það var líka svo hlýlegt viðmót hjá öllum sem við mættum úti á götu. Ég tengi það á ákveðinn hátt við heimsókn mína í leikskólann Álfaheiði því börnunum eru kennd góð gildi þar. Ísland er frábær staður fyrir börn til að alast upp,“ sagði Sonam að lokum.
Fjallað var um endurfundi Sonam og Ingibjargar í Landanum á RÚV 29. september.
Sjá umfjöllun í Landanum: Kona í Kópavogi breytti lífi heillar fjölskyldu á Indlandi (Landinn)
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.