SOS sögur 6.janúar 2020

Sér þróun á persónuleika SOS barnanna sinna

Sér þróun á persónuleika SOS barnanna sinna

Um tíu þúsund Íslendingar á öllum aldri eru SOS-foreldrar og er algengast að fólk sé komið á fertugsaldurinn þegar það tekur á sig þá skuldbindingu að framfleyta SOS-barni á þennan hátt. Breiðhyltingurinn Lísa Margrét Sigurðardóttir var aðeins 18 ára þegar hún ákvað að verða SOS-foreldri, og þá ekki bara eins barns, heldur tveggja.

„Mér fannst ég bara ekki geta gert upp á milli stúlku eða drengs. Ég hugsaði málið í smá tíma og ákvað að slá til og styrkja bæði,“ segir Lísa sem hefur nú í rúm 5 ár styrkt dreng og stúlku í SOS barnaþorpinu í Maseru í Suður-Afríkulandinu Lesótó.

Stuðningurinn ekki íþyngjandi 18 ára stúlku

Lísa, sem í dag er 24 ára, ákvað að styrkja barn þegar hún var 18 ára skiptinemi í Bandaríkjunum árin 2013-2014 og skráði sig á heimasíðu SOS þegar hún kom aftur heim til Íslands. „Af hverju að bíða þangað til maður verður eldri? Við byrjum snemma að safna okkur fyrir íbúð eða draumabílnum.“

Þrátt fyrir ungan aldur fannst Lísu það ekkert taka í pyngju sína að framfleyta tveimur SOS börnum. „Nei, í raun og veru ekki en það var samt tímabil sem ég var ekki vel stödd fjárhagslega og ég átti ekki fyrir önninni í framhaldsskólanum. Þetta voru jú mínir peningar en ekki foreldra minna. En ég hugsaði aldrei þannig að þetta framlag væri eitthvað sem ég myndi skera niður. Mér datt það ekki einu sinni til hugar,“ segir Lísa og bætir við að móðir hennar hafi kennt henni að lifa sparlega. Lísa hefur unnið með skóla síðan hún var 13 ára og var í námi þegar hún skráði sig sem SOS-foreldri. 

„Þeir sem þekkja mig vel vita að ég hef verið dugleg í gegnum tíðina að fá mér þriðjudagstilboð á Dominos og fara í bíó með vinum. Mér finnst bara ekki muna neitt um það að gefa nokkra þúsund kalla fyrir einhverja sem virkilega þurfa á því að halda bara svo þeir eigi möguleika á svipuðum tækifærum og við hér. Við lifum í miklu allsnægtasamfélagi á Íslandi. Við viljum ekki alltaf viðurkenna að við höfum það gott en við höfum það í raun mikið betra en margir aðrir.“

Mynd: Friðrik Páll SchramStúlkan minnir Lísu á hana sjálfa

Drengurinn sem Lísa styrkir heitir Atlehang, stúlkan Kefuoe og þau eru bæði 11 ára í dag. Þau eiga fjölskyldur utan barnaþorpsins sem þau geta ekki búið hjá en heimsækja reglulega. Í barnaþorpinu fá þau fullnægjandi umönnun og menntun. Lísa hefur lært mikið um aðstæður barna í Afríku með því að fylgjast með styrktarbörnunum sínum. „Börnin þarna eiga yfirleitt stærri fjölskyldur heldur en gengur og gerist hér á landi og foreldrarnir hafa minna á milli handanna handa hverju barni fyrir sig.“

Fylgist með persónuleika barnanna þróast

Lísa segir að það gefi sér mikið að fá bréf frá barnaþorpinu með myndum og fréttum af börnunum. „Þetta er góð andstæða við gluggapóstinn og ég opna SOS umslögin alltaf strax. Ég kynnist börnunum, fæ að vita hver áhugamál þeirra eru og ég sé þróun á persónuleika þeirra. Kefuoe var t.d. feimin þegar hún var yngri en í dag er hún alltaf fyrst á staðinn, vill spjalla við alla, kynnast öllum og er mjög áhugasöm í námi.“ Stúlkan minnir Lísu á hana sjálfa þegar hún var á hennar aldri. „Þetta er eitthvað sem ég tengi við sjálfa mig. Ég var örugglega óþolandi barn, ég vildi tala við alla, vita allt og spurði að öllu,“ segir Lísa og hlær en finnst þetta til marks um að stúlkan hafi öðlast sjálfsöryggi og sé í öruggu umhverfi í barnaþorpinu.

Þá segir hún að nýjasta áhugamál Atlehang sé eldamennska. „Þetta er sameiginlegt áhugamál hans og vinar hans og ég er viss um að ef hann leggur þetta fyrir sig getur hann orðið flottur kokkur.“ Aðspurð segir Lísa að þó bréfin með fréttum af börnunum séu yfirleitt á jákvæðu nótunum þá sýni þau jafnframt að ekki séu allar dagar góðir, eins og gengur og gerist.

Mynd: Friðrik Páll SchramÁ minningar af umkomulausum börnum á Íslandi

Lísa á líka minningar um umkomulaus börn úr æsku sinni hér á Íslandi. Lísa er úr Breiðholti en bjó um árabil á grunnskólaaldri í Búðardal þaðan sem hún er ættuð. „Áður en við fluttum vestur var ung stúlka í skólanum sem missti móður sína. Móðir hennar var sú eina sem hún átti að. Það hafði ákveðin áhrif á mig þó ég geti ekki tengt beint við það.“ 

Lísa minnist þess líka að í nágrenni Búðardals voru fósturheimili þangað sem börn komu úr erfiðum aðstæðum. „Ég þekkti vel til og þekki enn fjölskyldur fyrir vestan sem tóku krakka í fóstur. Það er fullt af kærleiksríku fólki sem lætur sig líf annarra varða og vill hjálpa. Ég er alin upp með hliðsjón af því að það er til gott í okkur öllum. Ég styrki börn í Afríku en er kannski ekki alveg komin á þann aldur að taka barn inn á mitt heimili. En maður veit aldrei hvað gerist.“

Mynd: Friðrik Páll SchramAlltaf fundist sjálfsagt að hjálpa

Þó Lísa hafi brugðist vel við beiðni okkar um viðtal hefur hún ekki verið mikið fyrir að auglýsa að hún sé  SOS-foreldri. „Að undanskilinni einni Facebook færslu þegar ég fékk fyrstu myndirnar af börnunum,“ segir Lísa sem fór ung að árum að láta sig góðgerðarmál varða. Hún var í skátunum og safnaði líka í þágu mannúðarmála fyrir Rauða krossinn. „Mér hefur alltaf fundist það sjálfsagt.“

„Vonandi get ég heimsótt þau“

Lísa hefur sett sér það markmið að heimsækja Atlehang og Kefuoe í barnaþorpið í Lesótó. „Nú eru þau að verða stálpuð og ef ég færi í heimsókn í dag myndu þau skilja betur hver ég er og muna frekar eftir mér. Þetta yrði langt og dýrt ferðalag en algerlega þess virði. Vonandi get ég heimsótt þau einu sinni, tvisvar eða jafnvel oftar. Vonandi,“ segir Lísa að lokum og brosir út að eyrum við tilhugsunina.

Viðtal: Hans Steinar Bjarnason fyrir 3. tölublað fréttablaðs SOS 2019.

Myndir: Friðrik Páll Schram.

SOS foreldri

Vertu SOS foreldri

SOS foreldri

SOS-foreldri framfleytir barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.

Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.

Mán­að­ar­legt fram­lag
Styrkja eitt barn 3.900 kr á mánuði Styrkja tvö börn 7.800 kr á mánuði Öll börn fyrir 4.500 kr á mánuði