Hefur alið upp 15 börn í SOS barnaþorpi
Í tilefni af mæðradeginum rifjum við upp þetta viðtal okkar við SOS móður í Eþíópíu sem hefur alið upp fimmtán börn. Emebet stendur alúðleg og brosandi úti á tröppum fyrir utan lítið og snyrtilegt heimili sitt í SOS barnaþorpinu í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu. Hún býður undirritaðan velkominn í heimsókn, nýkominn frá Íslandi og börnin í þorpinu streyma að brosandi og hlæjandi til að heilsa. Gleði, spenna og forvitni skín úr andlitum þeirra.
Móðir, læknir og kennari
Emebet hefur verið SOS móðir í 8 ár í barnaþorpinu í Addis Ababa. Hún er í dag móðir átta barna en hefur alls alið upp 15 börn. Sjö þeirra eru vaxin úr grasi og flutt að heiman, ýmist gift eða farin í framhaldsnám til Suður Afríku og Gana. Emebet segist hafa viljað verða SOS móðir vegna þess að ekkert sé meira gefandi í lífinu en að annast börn. „Börn eru besta gjöfin sem Guð gefur okkur. Ekkert færir mér meiri hamingju en að verða vitni af því þegar börnin vaxa úr grasi, útskrifast úr skóla og giftast.”
Emebet kann líka vel að meta alla ábyrgðina sem fylgir móðurhlutverkinu. „Það er ekki hægt að afmarka ábyrgðina við ákveðin atriði. Ef þú ert móðir þá má eiginlega segja að þú sért líka læknir og kennari.”
Sjáðu myndband með viðtalinu við Emebet.
Að taka á móti barni í losti
Eins og gefur að skilja koma börn í mismunandi andlegu ástandi í SOS barnaþorpin enda koma þangað börn á ýmsum aldri sem hafa misst foreldra. Emebet hefur tekið á móti börnum sem upplifað hafa áföll.
„Það hefur sem betur fer ekki gerst oft hjá mér en ég hef þó fengið til mín börn í hálfgerðu losti. Þá legg ég mig alla fram við að skilja bakgrunn þeirra. Þessi börn þurfa sérstaka umönnun og ég stíg afar varlega til jarðar í þeim efnum. Það vinnur reynslumikið fólk hér í barnaþorpinu sem gott er að leita ráða hjá. Ef barninu gengur illa að aðlagast þessu nýja heimili og vanlíðan þess virðist ætla að dragast á langinn, þá höfum við sem betur fer aðgengi að menntuðu fagfólki sem kemur okkur til aðstoðar.
Lítur eigin börn sömu augum
Emebet hefur sjálf fætt og alið upp tvö börn og segir hún gleðina sem því fylgir endast út lífstíð. En hún gerir engan greinarmun á því og gleðinni sem fylgir því að taka á móti nýju barni í barnaþorpið, umvefja það ást og umhyggju og taka þátt í að veita því sömu tækifæri í lífinu og hennar eigin börnum. „Við leggjum mikið upp úr undirbúningnum fyrir komu nýrra barna hingað svo þau finni að hingað séu þau velkomin og hér mæti þeim væntumþykja og góð umönnun,” segir Emebet að lokum áður en hún sýnir undirrituðum húsið sem er einstaklega snyrtilegt, bjart og persónulegt. Það er augljóst að börin eru í góðum höndum hjá Emebet.
Viðtal og myndir: Hans Steinar Bjarnason
Í barnaþorpinu í Addis Ababa búa 120 börn í 15 fjölskyldum og eiga 66 þessarra barna styrktarforeldra á Íslandi.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „barnaþorp“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.