Gekk erfiðlega að venjast því að skorta ekkert
Í SOS barnaþorpi í Rúanda býr SOS móðirin Mediatrice ásamt fjórum SOS börnunum sínum. Það sést ekki á þeim en öll börnin bjuggu á götunni stóran hluta barnæsku sinnar. Þau bera öll tilfinningalega byrði á bakinu en leyfa sér þó stóra framtíðardrauma, allt frá fótboltastjörnu til kanínuræktanda.
Eitt þessarra barna er hin 13 ára Sofia. Áður gekk hún ein um götur höfuðborgarinnar að betla mat og smáaura. Þegar verst gekk borðaði hún mat upp úr ruslafötum.
Betlaði í barnaþorpinu
Þegar Sofia kom í barnaþorpið tók það hana langan tíma að venjast því og skilja að nú gæti hún fengið allt sem hún þurfti. Fengið öllum grunnþörfum sínum mætt. Það tekur oft tíma að breyta gömlum venjum og til að byrja með gekk Sofia milli húsa í barnaþorpinu til að biðja um mat hjá hinum SOS-fjölskyldunum. „Hún hélt áfram því sem hún var vön að gera á götunni og ætlaði í raun að snúa þangað aftur," segir SOS móðir hennar, Mediatrice.
Leyfir sér nú framtíðardrauma
Sofia átti í mesta basli með að venjast þessu nýja lífi í barnaþorpinu. Það var ekki fyrr en tveimur árum síðar sem Sofia var að fullu búin að venjast því að hana skorti í raun ekki neitt lengur. Síðan hún kom í barnaþorpið hefur hún þróað með sér framtíðardrauma um að verða leikkona, söngkona eða læknir. Það mikilvægasta er að nú getur hún á vissan hátt gert eitthvað gott fyrir aðra. „Ég fékk sjálf hjálp svo ég vil hjálpa öðrum," segir Sofia.
SOS fékk leyfi hjá yfirvöldum
Árið 2019 samþykktu yfirvöld í Rúanda að SOS Barnaþorpin mættu starfa þar taka að sér götubörn og veita þeim fjölskyldu og heimili í barnaþorpi. Á þessum tíma höfðu yfirvöld lokað munaðarleysingjahælum en SOS Barnaþorpin eru þeim algerlega ólík vegna áherslu samtakanna á að skapa fjölskylduumhverfi fyrir börnin. Sofia og SOS systkini hennar eru meðal 25 fyrrverandi götubarna sem hafa búið í barnaþorpinu síðan 2019.
Alls 33 börn í SOS barnaþorpum í Rúanda eiga SOS-foreldra á Íslandi sem fá reglulega bréf með fréttum og myndum af styrktarbörnum þeirra.
SOS foreldri
Vertu SOS foreldri
SOS-foreldri tekur þátt í að framfleyta barni sem áður var umkomulaust og tryggir því fjölskyldu á góðu heimili. Barnið fær menntun og öllum grunnþörfum sínum mætt. Þú færð reglulega fréttir og myndir af SOS-barninu þínu.
Þegar þú velur að styrkja „öll börn“ styrkirðu öll börnin í einu SOS barnaþorpi og færð almennar fréttir úr tilteknu barnaþorpi.