Fréttayfirlit 26. apríl 2017

Úttekt sker úr um ágæti verkefnis SOS í Gíneu-Bissá



SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa undanfarin fjögur ár fjármagnað fjölskyldueflingu í Bissá, höfuðborg Gíneu-Bissá þar sem fátækar barnafjölskyldum fá aðstoð til sjálfshjálpar.  Nú er verkefninu lokið og var fenginn óháður aðili til að meta árangur þess, aðallega fyrir samtökin sjálf en einnig fyrir utanríkisráðuneytið sem hefur styrkt verkefnið. Geir Gunnlaugsson, fyrrverandi landlæknir, var fenginn í verkið en hann þekkir vel til Gíneu-Bissá þar sem hann starfaði í landinu í nokkur ár og heimsækir það reglulega.

Geir fór til Bissá í byrjun mars til að taka út verkefnið og skilaði af sér skýrslu undir lok mánaðarins. Skýrslan gaf góða mynd af verkefninu, hvað var vel gert og hvað hefði mátt betur fara. Um er að ræða fyrsta fjölskyldueflingarverkefnið sem SOS á Íslandi fjármagnar alfarið og því er afar gagnlegt að fá svo ítarlega og góða greiningu á því.

Skýrsluhöfundur segir að um sé að ræða afar gott og vel unnið verkefni. Starfsfólk SOS bæði hér heima og úti í Gíneu-Bissá hafi staðið mjög faglega að verki og umfram allt, að hjálpin frá Íslandi hafi skilað sér. Athugasemdir voru þó gerðar við að mögulega hafi markmið verkefnisins verið full háleit þegar litið er til lengdar verkefnisins og fjármagns.

Samtöl skýrsluhöfundar og skjólstæðinga gefa til kynna að mikið traust ríki á milli starfsfólks verkefnisins og íbúa á svæðinu. Þá sinni starfsfólk SOS í Bissá starfinu vel og heiðarlega. Skýrsluhöfundur metur það þó þannig af samtölum sínum við starfsfólk að of mikill tími hafi farið í pappírsvinnu og skýrslugerðir og mögulega sé hægt að einfalda verkferla.

IMG_5195.JPG

Í heildina sé verkefnið gott og hafi bætt aðstæður skjólstæðinga. Hann telur að SOS á Íslandi hafi sýnt hugrekki á sínum tíma þegar ákveðið hafi verið að byrja með fjölskyldueflingu í Bissá þar sem aðstæður þar eru erfiðar. Hugrekkið hafi skilað sér þó svo að áskoranirnar hafi verið margar, t.d. ebóla og órói í stjórnarháttum landsins.

Síðan í lok árs 2012 hafa yfir 400 börn í 100 fjölskyldum fengið aðstoð í gegnum fjölskyldueflingu SOS í Bissá. Um mitt ár 2016 voru 66% fjölskyldnanna orðnar fjárhagslega sjálfstæðar en að öllum líkindum er hlutfallið enn hærra núna við lok verkefnisins.

Úttektarskýrslan er opin öllum og má nálgast hér. Athugið að hún er skrifuð á ensku.

Nýlegar fréttir

Sumarbúðir fyrir stríðshrjáð börn í Úkraínu
8. okt. 2025 Almennar fréttir

Sumarbúðir fyrir stríðshrjáð börn í Úkraínu

SOS Barna­þorp­in fjár­magna fjöl­mörg umbóta- og mannúðarverk­efni í þágu velfarðar barna og ungmenna víða um heim með stuðningi Íslendinga. Nú í september lauk vel heppnuðum sumarbúðum í Úkraínu fyr...

Svör við algengum spurningum styrktaraðila vegna Gaza
17. sep. 2025 Almennar fréttir

Svör við algengum spurningum styrktaraðila vegna Gaza

Íslenskir styrktaraðilar vilja eðlilega vita hvort og hvernig framlög þeirra eru að nýtast í þeim aðstæðum sem ríkja á Gaza. Að venju viljum við halda Íslendingum upplýstum um nýtingu á framlögum þeir...