Sér eftir að hafa gengið í skrokk á 11 ára syni sínum
Samband feðganna Mirza* (60 ára) og Haris* (14 ára) hefur verið stormasamt í nokkur ár og föðurnum t.d. verið stungið í steininn fyrir að leggja hendur á strákinn. Mirza missti tímabundið forræði yfir Haris vegna heimilisofbeldis en fyrir tilstilli teymis fjölskyldueflingar SOS Barnaþorpanna í Sarajevó í Bosníu og Hersegóvínu eru feðgarnir sameinaðir á ný og mun hamingjusamari.
Kunni ekki að vera einstæður faðir
Mirza og fyrrverandi eiginkona hans skildu þegar Haris var ungabarn og hann fékk forræði yfir syninum. „Ég þurfti að læra frá byrjun allt um hvernig á að ala upp barn, meira að segja hvernig á að halda á barni,“ segir Mirza sem réði illa við að vera einstæður faðir.
Lagaferlið kringum forræðið var ekki erfitt að sögn Mirza. „En ég brotnaði niður andlega. Þetta var mjög erfitt.“
Mikið samviskubit
Þegar drengurinn varð eldri fór samband þeirra versnandi og Mirza missti tökin. Versta tilfellilð varð árið 2016 þegar Haris var 11 ára og mátti þola miklar barsmíðar af hálfu föður síns sem var handtekinn í kjölfarið og Haris var komið fyrir á fósturheimili. Mirza missti stjórn á sér þegar Haris stal leikfangabyssu á markaði.
Mirza er með mikið samviskubit yfir hegðun sinni. „Ég reyni að kenna honum að endurtaka ekki gjörðir mínar þegar hann verður eldri og að vera góður maður. Bara ef ég hefði vitað af SOS Barnaþorpunum fyrr. Bara ef ég hefði kunnað réttu aðferðirnar við uppeldi fyrr þá hefði þetta kannski ekki farið svona.“
Þökk sé Fjölskyldueflingu SOS
Teymi fjölskyldueflingar SOS hjálpar þeim feðgum sem eru farnir að búa saman á ný og samband þeirra hefur batnað til muna. „Við erum í stöðugu sambandi við þá feðga og við sjáum að samband þeirra er miklu betra,“ segir Ileana, félagsráðgjafi hjá SOS í Sarajevó.
Haris er nú 14 ára og þeir feðgar sækja báðir einstaklingsmiðaða sálfræðimeðferð hjá SOS Barnþorpunum og taka þátt í hópavinnu með öðrum fjölskyldum. Mirza er duglegur að spyrja sérfræðinga SOS ráða þegar kemur að táningauppeldi. „Ég vil ekki verða eins og lögreglumaður. Ég vil bara treysta honum. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að vera.“
SOS Barnaþorpin sjá Haris fyrir aukakennslu og skólagögnum. Honum gengur mjög vel í námi auk þess sem hann stundar körfubolta og tækvondó af kappi. Þá hjálpar hann til við heimilisstörfin og hefur stundum til mat fyrir pabba sinn þegar hann kemur heim af næturvakt.
Það hefur svo sannarlega orðið kúvending á sambandi feðganna og framtíðin björt. Þökk sé fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna.
*Réttum nöfnum hefur verið breytt
Heimsmarkmiðin
SOS Barnaþorpin vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Um er að ræða framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar en með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um heim allan. Það úrvinnsluferli SOS sem hjálpar feðgunum heyrir undir heimsmarkmið númer 1, 2, 3 og 4.
SOS Barnaþorpin uppfylla heimsmarkmið númer 1, 4, 8, 10 og 16 að fullu. Þar að auki uppfylla þau markmið númer 3,5 og 17 að hluta.
Þrjú verkefni SOS á Íslandi
SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármagna þrjú Fjölskyldueflingarverkefni, í Eþíópíu, Perú og Filippseyjum.
- Í verkefninu í Tulu Moye í Eþíópíu hjálpum við 567 fjölskyldum og í þeim eru 1609 börn.
- Í Perú eru fjölskyldur um eitt þúsund barna og ungmenna sem nýta sér aðstoð Fjölskyldueflingar okkar.
- Fjölskyldueflingin á Filippseyjum hefst 1. apríl n.k. og nær til 1800 barna og ungmenna.
Skjólstæðingar Fjölskyldueflingar SOS Barnaþorpanna á heimsvísu eru alls 505,800 talsins í yfir 98 þúsund fjölskyldum. Samtals eru þetta 574 Fjölskyldueflingarverkefni sem eru sérsniðin að aðstæðum á hverjum stað fyrir sig.
Fjölskylduvinir SOS Barnaþorpanna ráða sjálfir upphæðinni sem þeir greiða mánaðarlega til að hjálpa fjölskyldunum í okkar verkefnum.
Nýlegar fréttir
SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.