Fjölskyldueflingin í Eþíópíu innspýting í samfélagið

Það er ánægjulegt að geta nú deilt með SOS-fjölskylduvinum nýjustu fréttum af Tulu Moye -fjölskyldueflingunni í Eþíópíu. Í árangursskýrslu fyrir fyrri helming þessa árs sem okkur var að berast segir að verkefnið hafi bætt lífsgæði fólksins á þessu svæði og átt þú sem SOS-fjölskylduvinur stóran þátt í því.
Tölvukennsla á rafmagnslausum svæðum
Á þeim skamma tíma síðan verkefnið hófst, 1. janúar 2018, hefur skólasókn barnanna aukist og þau tekið miklum framförum í námi sínu. Skólarnir hafa fengið betri tækjabúnað og námsgögn og kennarar meiri þjálfun. Allt tryggir þetta börnunum gæðamenntun auk þess sem fræðsla var sett á um jafnrétti kynjanna. Þá hafa kaup á rafstöð gert tölvukennslu mögulega á rafmagnslausum svæðum.

Hjálpað að skapa tekjur
Liður í að stýra fjölskyldunum í átt að sjálfbærni er ráðgjöf af ýmsu tagi og veiting lána á lágum vöxtum. Foreldrar sóttu námskeið og lærðu að ákveða hvernig atvinnurekstur hentar þeim til tekjuöflunar. Til að auðvelda tekjuöflun var fest kaup á bökunartæki sem fólkið hefur aðgang að. Þá voru 28 nautgripir gefnir jafnmörgum fjölskyldum til ræktunar.
Jákvæði áhrif á samfélagið
Það er mat umsjónarmanna verkefnisins að Fjölskyldueflingin hafi haft verulega góð áhrif á þessar fjölskyldur. Þá hefur verkefninu verið hrósað í hástert af almenningi á svæðinu og ljóst er að vel er tekið eftir þeim jákvæðu áhrifum sem verkefnið hefur á samfélagið.
Í samvinnu við Utanríkisráðuneytið gerir SOS á Íslandi árlega úttekt á vettvangi. Fjölskyldueflingin er nefnd eftir eldfjallinu Tulu Moye sem er mitt á milli Eteya og Teromoye. Fjallið má einmitt sjá á myndinni hér að neðan en fyrir framan það standa Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS á Íslandi, og Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi, í góðum hópi starfsfólks SOS í Eþíópíu.

800 krónur framfleyta fjölskyldunni
Fyrr á árinu hittum við nokkrar af þessum fjölskyldum í Fjölskyldueflingunni og tókum við þau viðtöl sem sjá má hér á heimasíðu okkar. Þar er m.a. nýbirt viðtal við Zamzan sem býr ásamt eiginmanni og þremur börnum í hrörlegu litlu húsi í hinum afskekkta bæ Teromoye. Saga hennar undirstrikar hvað lítil framlög frá Íslandi geta gert mikið fyrir þessar barnafjölskyldur.
Nýlegar fréttir

Svör við algengum spurningum styrktaraðila vegna Gaza
Íslenskir styrktaraðilar vilja eðlilega vita hvort og hvernig framlög þeirra eru að nýtast í þeim aðstæðum sem ríkja á Gaza. Að venju viljum við halda Íslendingum upplýstum um nýtingu á framlögum þeir...

Fjárstuðningur í stafræn veski reynist vel á Gaza
SOS Barnaþorpin gegna lykilhlutverki á Gaza við umönnun munaðarlausra barna í fjölskylduumhverfi, að verja og styðja við börn sem hafa orðið fyrir áföllum auk þess að veita neyðaraðstoð.