Fjölskylduefling hjálpar í Perú
Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi er því miður algeng samskiptaleið innan fjölskyldna í Perú og á hún sér menningarlegar skýringar þar í landi. Fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna í Perú snýr að stóru leyti að því að stuðla að réttum tjáskiptum innan fjölskyldna og eiga samskipti án ofbeldis.
Frá síðustu áramótum hafa framlög íslenskra SOS-fjölskylduvina farið í Fjölskyldueflingarverkefni í Perú og Eþíópíu. Í Perú snúa helstu þættir verkefnisins einnig að menntun barna, mataraðstoð og aðgangi að heilbrigðisþjónustu.
Ástandið er sérstaklega slæmt í hverfinu Ventanilla Pachacutec á Callao svæðinu norðan við höfuðborgina Líma. Þar er velferð barna verulega ógnað vegna fátæktar, sjúkdóma og ofbeldis og af þeim sökum var sjötta SOS-samfélagsmiðstöðin á svæðinu opnuð árið 2016.
„Miðstöðvarnar eru opnaðar á svæðum sem skilgreind eru mikil fátæktarsvæði. Þangað sækja fjölskyldur sem vegna fátæktar eiga fá tækifæri í lífinu. Í Callao er fátæktin svo mikil að allar fjölskyldur svæðisins eru gjaldgengar í miðstöðina.“ segir umsjónarkonan Maria Nunes.
Leiðtogi þrátt fyrir hindranir
Staða fjölskyldu einnar í Callao þótti það alvarlega að hún var tekin inn í Fjölskyldueflinguna á síðasta ári. Nayre, 27 ára, og maður hennar Dilmar, 39 ára, gátu ekki séð fyrir tveimur börnum sínum, fjögurra og eins og hálfs árs. Börnin þurftu t.a.m. á læknisaðstoð að halda sem foreldrarnir höfðu ekki efni á.
Með hjálp Fjölskyldueflingarinnar fá börnin nú þá ummönnun sem þau þarfnast og þrátt fyrir alvarleg veikindi dóttur sinnar Marite, getur Nayre gefið sér tíma fyrir störf í fjölskyldunefnd. Þar fær hún þjálfun í leiðtogahæfni og aðstoðar við heilbrigðisþjónustu.
Marite er eins og hálfs árs og er með svokallað dverghöfuð [microcephaly] en því fylgir andlegur vanþroski.
Velferð hennar er í forgangi hjá Nayre „Ég er að vonast til að hún nái að þroskast nógu vel til að geta byrjað að ganga og tala. Ég vil að hún verði heilbrigt barn og nái eðlilegri þyngd.“ Jafnvel þó fjölskyldan glími enn við vandamál er Nayre vongóð. „Uppeldi barnanna hefur breyst og ég er meðvitaðri um velferð þeirra og réttindi.“
Þú getur hjálpað
Skjólstæðingar SOS-fjölskyldueflingarinnar eru í dag um hálf milljón og er eflingunni haldið uppi af fjölskylduvinum SOS Barnaþorpanna. Um 25 þúsund Íslendingar styrktu SOS Barnaþorpin á síðasta ári, þar af eru tæplega 1300 fjölskylduvinir.
Mjög einfalt er að gerast SOS fjölskylduvinur hér.
Nýlegar fréttir
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.
Yfir 19 milljónir barna í Súdan ganga ekki í skóla
Framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Súdan segir neyðarástandið í landinu eiga eftir að skilja eftir ör á sál landsmanna. Milljónir eru á flótta vegna borgarastríðs og daglega verða yfir hundrað manns...