Finnur til ábyrgðar sem elsta systkinið
*Akpena var 16 ára þegar mamma hennar, *Aletta, átti ekki lengur fyrir skólagjöldum hennar og námsgögnum. Þegar pabbi Akpenu var á lífi sá hann fyrir fjölskyldunni á lúsarlaunum fyrir að selja ýmsar korntegundir í bænum Ondangwa í norðurhluta Namibíu. Við dauðsfall hans árið 1999 sökk fjölskyldan hægt og bítandi niður í hyldýpi sárafátæktar.
Fjölskyldan gjaldþrota
Fjölskyldan lifði á barnabótum sem námu 1600 íslenskum krónum á barn. Það var svo árið 2012 sem ástandið var orðið það slæmt að fjölskyldan var við það að leysast upp því Aletta gat ekki lengur séð fyrir börnunum sínum. Fjölskyldan var gjaldþrota ef svo má að orði komast. Aletta sótti þá um aðstoð hjá Fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna sem átti eftir að gjörbreyta aðstæðum fjölskyldunnar til hins betra.
Menntun og fræðsla breytti öllu
Í gegnum Fjölskyldueflingu SOS fékk Akpena skólastyrk sem dugði fyrir áframhaldinu námi og þetta tækifæri lét hún sér heldur betur ekki úr greipum ganga. Verandi elst fimm systkina fann Akpena til mikillar ábyrgðar og lagði sig alla fram í námi. Hún fékk annan styrk fyrir framhaldsskólanámi sem svo fleytti henni áfram í háskóla Namibíu þar sem hún nemur stærðfræði og vísindi. Þar stefnir hún á útskrift með BA gráðu árið 2021.
„Ég er ákveðin í að afla fjölskyldunni tekna til að bæta lífsgæði okkar svo yngri systkini mín þurfi ekki að ganga í gegnum það sama og ég,“ segir Akpena og bætir við að það sé mikill léttir að mamma hennar sé farin að afla tekna. Aletta hlaut þjálfun í frumkvöðlafræði hjá Fjölskyldueflingu SOS sem varð til þess að hún gat tekið við atvinnurekstri eiginmanns hennar heitins.
Sjálfstraust er lausnin, ekki sjálfsvíg
Akpena lætur sig líka varða ástandið í samfélaginu þar sem aðstæður eru skelfilegar. Tíðni snemmbærra þungana er há hjá unglinsstúlkum, áfengis- og fíkniefnavandinn er mikill og sjálfsvígstíðni er mjög há meðal ungs fólks. Vonleysið er mikið í fátæktinni. „Ég vil hvetja ungt fólk til að leggja hart að sér í námi og mæta fátæktinni af hörku. Ég vil koma þeim skilaboðum á framfæri að sjálfstraust er lykillinn að öllu, ekki sjálfsvíg,“ segir Akpena að lokum.
SOS-fjölskyldueflingin í Ondangwa vinnur með 463 börnum úr 142 fjölskyldum (217 strákum og 246 stúlkum) og er hún fjármögnuð af SOS Barnaþorpunum í Kanada.
*Skálduð nöfn vegna persónuverndarlaga.
SOS á Íslandi fjármagnar þrjú Fjölskyldueflingarverkefni, í Eþíópíu, Perú og á Fillippseyjum. SOS-fjölskylduvinir styðja þessi verkefni með mánaðarlegum framlögum.
Nýlegar fréttir
SOS samfélagið á Gaza stanslaust í viðbragðsstöðu
Allt SOS samfélagið á Gaza er stanslaust í viðbragðsstöðu komi til rýmingar á tjaldbúðum SOS þar sem á annað hundrað manns halda til.
Laust starf: Þjónustu- og skrifstofufulltrúi
SOS Barnaþorpin leita að drífandi einstaklingi sem brennur fyrir mannúðarmál, nýtir sín í mannlegum samskiptum og er töluglöggur.