Fréttayfirlit 6. janúar 2022

Erfðagjöf Kolbrúnar hjálpar börnum í Malaví

Erfðagjöf Kolbrúnar hjálpar börnum í Malaví

Kolbrún Hjartardóttir, kennari og sagnfræðingur, lést 28. febrúar 2021. Kolbrún lét sig varða velferð barna og hafði hún ákveðið að ráðstafa þriðjungi af arfi sínum til starfsemi í þágu þeirra. Hún arfleiddi SOS Barnaþorpin á Íslandi að rúmum 5,3 milljónum króna sem samtökunum var úthlutað á dögunum og sama upphæð rann til barnaspítala Hringsins og Unicef.

Arfleifð Kolbrúnar lifir áfram í Malaví

„Við hjá SOS Barnaþorpunum hugsum hlýlega til Kolbrúnar vegna þessarar höfðinglegu gjafar. Það hefur verið sérlega ánægjulegt að eiga samskipti við ættingja hennar og hve sáttir þeir eru með þessa ákvörðun hennar. Þessum fjármunum verður vel varið í þágu varnarlausra barna í Malaví, þar sem arfleifð Kolbrúnar mun lifa áfram,“ segir Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS á Íslandi.

Erfðagjöf Kolbrúnar verður varið í fjölskyldueflingu sem nýverið var sett á laggirnar í Malaví, verkefni sem SOS Barnaþorpin á Íslandi fjármagna. Markmið þess er að forða börnum frá aðskilnaði við illa stadda foreldra sína og styðja fjölskyldurnar til fjárhagslegs sjálfstæðis.

Sjá einnig: Fjölskylduefling SOS í Malaví

Grunnskólakennari

Kolbrún var fædd á Ísafirði 19. júlí 1935 og fluttist hún til Reykjavíkur 11 ára gömul árið 1946. Foreldrar hennar voru Jensína Sveinsdóttir og Jón Hjörtur Finnbjarnason. Kolbrún útskrifaðist stúdent frá Verslunarskóla Íslands og lauk sagnfræðinámi frá Háskóla Íslands og námi í kennsluréttindum. Hún starfaði fyrst hjá Vinnuveitendasambandi Íslands en sneri sér fljótlega að grunnsólakennslu sem var hennar aðalstarf.

Umhyggjusöm

Kolbrún var einhleyp og eignaðist ekki börn en hún átti sjö systkini og tvær samfeðra hálfsystur. Kolbrúnar er minnst sem góðrar frænku sem ræktaði frændgarð sinn, systkini, mágfólk og afkomendur þeirra af mikilli alúð og umhyggju. Hún var umhyggjusöm um hag og velferð frændfólksins. Áhugamál Kolbrúnar voru útivera og ferðalög auk þess sem hún fylgdist af miklum áhuga með alþjóðlegum íþróttamótum. Þegar slík mót voru í sjónvarpi mátti helst ekki trufla hana. Sjálf spilaði hún golf á púttvelli og deildi hún áhuga á íþróttum með mörgum systkinum sínum.

Tók sjálf ákvörðun um ráðstöfun eigna sinna

Erfðagjafir hafa gert SOS Barnaþorpunum kleift að hjálpa mun fleiri munaðarlausum og yfirgefnum börnum en ella. Slík gjöf getur haft gríðarlegan ávinning fyrir börnin sem njóta góðs af og sá sem gefur gjöfina tekur sjálfur ákvörðun um ráðstöfun eigna sinna í stað þess að eftirláta öðrum þá ákvörðun. Og það gerði Kolbrún.

Blessuð sé minning Kolbrúnar Hjartardóttur.

Erfðagjöf

Erfðagjöf

Erfðagjöf

Erfðagjafir hafa gert samtökunum kleift að hjálpa mun fleiri munaðarlausum og yfirgefnum börnum en ella. Sá sem gefur erfðagjöf tekur sjálfur ákvörðun um ráðstöfun eigna sinna í stað þess að eftirláta öðrum þá ákvörðun.

Nánar