Utanríkisráðherra gerði rammasamning við SOS

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra skrifaði á mánudaginn undir rammasamning við SOS Barnaþorpin til fjögurra ára. Framlög ráðuneytisins til SOS á þessu tímabili nema samtals 689 milljónum króna og verður þeim varið í þróunarsamvinnuverkefni, mannúðaraðstoð og kynningar- og fræðsluverkefni.
Samningurinn kveður jafnframt á um mótframlag í hvert verkefni frá SOS Barnaþorpunum á Íslandi. Verkefni SOS sem verða styrkt á þessu ári með þessum fjármunum eru fjölskylduefling í Malaví, Rúanda, Eþíópíu og Úganda auk verkefnis okkar sem vinnur gegn kynferðislegri misneytingu á börnum í Tógó. Einnig verður fjármunum varið í mannúðarverkefni SOS síðar á árinu.
SOS Barnaþorpin eru ein af fjórum félagasamtökum á Íslandi sem stóðust formkröfur fyrir rammasamningana. Hin samtökin eru Rauði krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar og Barnaheill – Save the Children. Ragnar Schram framkvæmdastjóri skrifaði undir samninginn við utanríkisráðherra fyrir hönd SOS Barnaþorpanna.

Til marks um traust og gott samstarf
Rammasamningar styrkja starf íslenskra félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, auka fyrirsjáanleika og gera þeim kleift að skipuleggja starfið til lengri tíma. Samningarnir styðja við gildi íslenskrar þróunarsamvinnu: útrýmingu fátæktar, mannréttindi, jafnrétti kynjanna og aukið viðnámsþol samfélaga.
Þessir samningar eru til marks um það traust og góða samstarf sem utanríkisráðuneytið hefur átt við félagasamtök í þróunarsamvinnu. Það er í dag mikilvægara en nokkur sinni fyrr að við stöndum vörð um mannréttindi og okkar áherslur í þróunarsamvinnu. Því er svo mikilvægt að við vinnum saman og við sjáum fram á náið samstarf næstu fjögur árin. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra
Sjá nánar á vef Utanríkisráðuneytisins.
Nýlegar fréttir

500 dagar frá dramatískri rýmingu barnaþorpsins á Gaza
Í dag eru sléttir 500 dagar liðnir síðan SOS Barnaþorpin í Palestínu þurftu að rýma SOS barnaþorpið í Rafah á Gaza. Frá árinu 2000 höfðu yfirgefin og munaðarlaus börn fengið þar nýtt heimili, fjölskyl...

Ný fjölskylduefling í Úganda
Ný fjölskylduefling er hafin í Úganda sem fjármögnuð er af SOS Barnaþorpunum á Íslandi og styrktarðilum hér á landi, SOS-fjölskylduvinum. Í Úganda hjálpum við barnafjölskyldum út úr sárafátækt og vinn...